,,Takk sland


Frumburðir í Chilonga heilsugæslustöðinni sem Íslendingar byggðu og var opnuð í október 2011.


Þar sem áður stóð kofi fyrir stopula lyfjadreifingu er nú stór og velbúinn spítali. Fyrir um áratug hófu Íslendingar að byggja upp heilsugæslu við Apaflóa í Malaví, sem smátt og smátt hefur tekið á sig mynd. Myndin sem blasir við í dag er af stórum spítala með fjölbreytta þjónustu og 120 manna starfslið. Í nærliggjadi sveitum eru tvær heilsugæslustöðvar sem Íslendingar kostuðu. Það er auðvelt að sjá fyrir sér gagnsemina. Ímyndið ykkur 120 þúsund manna byggð, sem samsvarar höfuðborgarsvæðinu á Íslandi, án heilsugæslu, án spítala og sjúkrabíla.


Ungbarnaeftirlit er snar þáttur í frumheilsugæslu.

Nú, rúmum áratug síðar er kominn spítali í Fossvogi með fæðingardeild, skurðstofu, legudeildum karla og kvenna, göngudeild fyrir tugi þúsunda heimsókna á ári. Og í Breiðholti er risin heilsugæslustöð með fæðingardeild og grunnþjónustu. Sams konar heilsugæslustöð var nýlega opnuð í Garðabæ - og maður skilur framfarirnar. Fyrir 10 árum var sem sagt bara einn kofi.


Chilonga heilsugæslustöðin og byggingarnefnd.

Verkefni að ljúka


Í árslok 2011 lýkur spítalaverkefninu við Apaflóa eftir rúman áratug. Þetta er malavískur spítali sem er mannaður malövum á launaskrá hjá malavíska ríkinu. Íslendingar veittu aðstoð til að byggja hann upp, búa tækjum og þjálfa fólk. En fyrst og fremst er sjúkrahúsið malavískt. Fyrstu árin voru íslenskir verkefnastjórar til aðstoðar, síðustu þrjú ár hafa heimamenn séð um málin. Í fyrra voruy skráðar komur í 140.000 skipti. Heilsugæslustöðin sem var opnuð árið 2007 í bænum Nankumba skráði 80.000 komur í fyrra. Samtals hafa þessar tvær stofnanir skráð komur í meira en 700.000 skipti á þessum áratug - og fjölgar ár frá ári. Þess vegna var í ár bætt við annarri heilsugæslustöð þar sem heitir Chilonga og er afskekkt þorp. Frumburðir á fæðingardeild Chilonga fæddust í október, tvíburar, sem trúlega hefðu fæðst á bastmottu í leirkofa ef ekki hefði komið til þessi nýja deild. Á þessum áratug sem uppbyggingin hefur staðið hafa Íslendingar lagt til að meðaltali 60 milljónir króna á ári. Það gera 500 krónur á hvern íbúa við Apaflóa árlega og 188 krónur á hvern Íslending. En þeir peningar standa nú eftir í byggingum, búnaði og þjálfun sem gagnast mun áfram. Maður heyrir því oft þessa dagna: ,,Takk Ísland”.


Frumburður og móðir á nýju fæðingardeildinni sem opnuð var við Apaflóa 2010.

Þróunarsamvinnustofnun færir út kvíar


Nú á að breyta verkefninu. Byggðinni við Apaflóa má nú teljast vel þjónað miðað við önnur svæði innan héraðsins. Frá næsta ári mun Þróunarsamvinnustofnun styðja lýðheilsuátak í Mangochi héraði öllu, sem hefur um 900 000 íbúa. Ekki veitir af. Áherslurnar verða á mæðravernd og ungbörn og að styðja heilbrigðisstarfsfólkið sem vinnur úti í sveitunum og veitir frumþjónustu. Manni finnst að hreinlætisaðstaða eins og vatn og kamrar þurfi að vera við alla heilsupósta og fæðingardeildir séu til þar sem konur fá aðstoð og aðhlynningu frá þjálfuðu fólki. Að börnin séu bólusett á réttum tíma. Við erum á byrjunarreit víða í þessu mannmarga héraði.


Starfsmenn fagna nýju barni á fæðingardeildinni.


Erfitt að ímynda sér ástandið

Það er ekki auðvelt fyrir Íslending á ímynda sér ástandið í Mangochi héraði sem er eitt það fátækasta í Malaví. Níu hundruð þúsund manns njóta fárra þeirra innviða í samfélagi sínu sem við Íslendingar teljum til mannréttinda. Mæðradauði er meiri í Malaví en í nokkru öðru landi þar sem ekki er stríð: 16 konur deyja daglega af barnsförum. Ungbarnadauði er mikill sem sést af því að meðalævilíkur Malava eru 52 ár. Það er ekkert áhlaupsverk að halda úti neti af heilsupóstum með þjálfuðum starfsmönnum til að bólusetja börnin, fylgjast með umgangspestum, næringarskorti, blóðleysi og malaríu - en allt eru þetta örlagavaldar í daglegu lífi fólks í héraðinu. Konur vilja gjarnan fá getnaðarvarnir en dreifing er mikið vandamál. Enginn fullmenntaður læknir er í héraðinu um þessar mundir. Læknatæknar hafa réttindi til að gera keisaraskurði, laga breinbrot, og ljósmæður kunna að taka á móti. Í fremstu línu eru þjálfaðir heilsugæslufulltrúar sem fylgjast með ástandi inni í þorpunum og ráðleggja fólki. Það má kallast kraftaverk ef lágmarksþjónusta er veitt. Við nánari skoðun kemur í ljós að síðustu ár sýna tölur um heilsufar að miðar í rétta átt. Þetta er uppörvandi og segir okkur að markviss aðstoð geti haft jákvæð áhrif. Fólkið sem starfar við þessi erfiðu skilyrði hefur þegar sannað sig. Fái það aukna aðstoð mun það vonandi enn bæta við. Malaví er eitt af fáum löndum þar sem miðar nokkuð í átt að Þúsaldarmarkmiðunum sem sett eru við árið 2015, sérstaklega hvað varðar mæðravernd og ungbarnaheilsu. Íslendingar geta með sanni sagt að þeir hafi lagt af mörkum á þeirri leið.


Þorpshöfðingjar í 100 þorpum skrifuðu undir skuldbindngu um að leggja til efni í starfsmannahús. Hér er forystusveit.


Sjálfbært verkefni?

Algengasta spurningin um þróunarverkefni er hvort þau séu sjálfbær. Er Landsspítalinn á Íslandi sjálfbær? Jú, að því marki sem niðurskurður og þjónustuskerðing leyfa er hann fjármagnaður af skattfé innanlands og því sjálfbær á þann hátt. (Hin síðustu ár með aðstoð alþjóðasamfélagsins eftir Hrun). Enginn malavískur spítali, skóli eða ráðuneyti er sjálfbært - því landið sjálft er og verður háð þróunaraðstoð. Það er einfaldlega alltof fátækt til að bera sig sjálft, án aðstoðar munu 15 milljónir manna eiga á hættu að lenda á vonarvöl. Hér eru meðaltekjur á mann innan við 150 krónur á dag. Á lífsgæðalista Sameinuðu þjóðanna er Malaví í sæti 167, Ísland númer fjórtán. Alþjóðleg þróunaraðstoð við Malaví nemur 800 milljónum dollara á ári, stór hluti fer í heilsu, menntun og matvælaframleiðslu. Þróunaraðstoð Íslands við Malaví jafngildir í heild 800 krónum á hvern Íslending í ár, og nemur um 0,003% af allri aðstoð til landsins. Það er lágt hlutfall. Við höfum því valið að starfa í aðeins einu héraði að afmörkuðum verkefnum með heimamönnum þar sem árangur er auðsær og áþreifanlegur. Fyrir barnshafandi konu er fæðingarrúm á alvöru fæðingardeild áþreifanlegur árangur. Fyrir skólabarn sem sest inn í alvöru skólastofu en situr ekki í moldinni er árangurinn auðmældur. Fyrir konu sem sækir vatn í hreint vantsból í þorpinu er spurningin um árangur ekki efst á dagskrá, áður gekk hún í marga klukkutíma eftir vatni. En Malaví er og verður enn um hríð háð því að fá hjálp til að fá svona einföld og áþreifanleg lífsgæði: heilsu, vatn, menntun. Í þeim efnum geta Íslendingar veitt raunverulega aðstoð. Það sýnir spítalinn við Apaflóa.Des. 2011. Stefán Jón Hafstein
Umdæmisstjóri Þróunarsamvinnustofnunar í Malaví.

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is