Dagbkur fr Afrku: Okt-nv 2011


Meðal morgunverka garðyrkjumanna er að hita sér maísgraut

Fengitími froskanna er hafinn. Þessir litlu slímugu náungar eru á stærð við tebollu en hávaðinn í þeim eins og úr skurðgröfu. ,,Kvakið” er rangnefni því það er eins og verið sé að rífa hurð af hjörðum, sporjárnslaust með aflinu einu saman. Karldýrin að kalla til sín kvenfroska. Þegar þessir margradda kór hefur upp raust sína er ekki lengur útvarpsfært á stéttinni og inni heyrist varla mannsins mál þegar sjónvarpsþulur reynir að segja helstu fréttir af vorinu í Miðausturlöndum.

Í dögun þagna þeir loksins, smám saman, eftir kynlífshlaðna nótt. Þá förum við Freyja út að ganga. Freyja er tíkin mín.

Afríski morguninn í þessari borg er þægilega svalur miðað við hitann sem á eftir að skella á. Um sexleytið er sólin rétt að skríða yfir trjátoppana og morgunverkin að hefjast í hverfinu. Kall kemur hjólandi fyrir horn, býður góðan dag og stígur þétt til að auka hraða niður holótta götuna.

Við mælum malbikið sem er stagbætt og holum prýtt, engin er gangstétt hér heldur moldarflög upp að múrsteinsveggjum sem umkringja hvert hús. En meðfram götum eru opnir bunustokkar, múrsteinafóðraðir skurðir sem veita burt hverju því skýfalli sem brestr á um regntímann. Nú eru þeir eldstæði fyir brennandi lauf og sprek sem safnað er úr skrælnuðum görðum, hvítur reykur liðast upp á stöku stað og myndar dularfulla slæðu sem fyrstu geislar sólar lýsa upp eins og leiktjöld í framsæknu leikhúsi.

Garðyrkjumaður setur upp hlóðir og kyndir undir járnpotti fyrir maísgraut.

Þetta er millistéttarhverfi þar sem lágreist múrsteinshús standa í stórum görðum, flest eru þau vel varin af geltandi hundi, á hlaðinu vappa hænur og nú hefur hanagalið í hverfinu staðið í tvo klukkutíma og linnir ekki. Fuglasöngur frá hverri trjágrein. Yfir að líta er Lilongwe borg eins og skógur. Það rétt svo grillir í hús og götur af sjónarhjóli, allt er þakið laufskrúði. 800 þúsund manna sveitaþorp.

Núna eru hin fagurbláu Jakaraka tré í blóma. Svo taka við Logatréin svoköllluðu því þau eru með sterkum eldroða þegar þau blómgast og líkt því að götur standi í ljósum logum. Svo blómstra jólarósirnar hér undir jafndægur að sumri og þær eru nú ekki pottablóm hér heldur risarunnar eða myndarleg tré. Og þá kemur loks röðin að gulu trjánum.

Á meðan hamast fuglar í öllum litum og syngja trítilóðir. Hér eru bláir smáfoglar eins og músarindlar og fara saman í hóp. Svartar og hvítar krákur skrækja á húsþökum, en þessir gulu, bláu og hinir með rauðu brjóstin háma í sig ber. Sé maður heppinn má sjá Paradísarfugl, hann er með stél sem er lengra en allur búkurinn og hann dregur það eftir sér eins og slæðu. Blár gulur og rauður Kingfisher er skrautleg sjón sem bregður stundum fyrir. Í Malaví eru nærri þúsund fuglategundir.

Hundurinn Freyja kann vel að meta þessar morgungöngur okkar því nóg er af götuhundum sem við þurfum að spá í. Þetta eru illa haldnir rakkar sem tilheyra líklega einhverjum varðhundagengjum sem fá að valsa laus. Oftast hef ég prik og geng á þykkbotna klossum til að sparka þeim frá okkur ef gera á aðsúg að okkur Freyju. En stundum er hún fyrri til að ógna því hún er stærri en flestir ferfætlingar hér og öflugri, af ljónahundakyni og á það til að hvekkjast ef aðrir hundar koma nærri. Það er smá kúnst að hemja í henni varðhundseðlið þegar göturakkarnir koma.

Götulífið er óspillt af bílum. Einn skólabíll kemur hlaðinn millistéttarkrökkum sem eru á bláum skólabúningum á leið í einhvern einkaskóla. Svo hittum við skvaldrandi kellingar, þær eru með bala á hausnum og flestar með lítinn króga vafinn dulum á baki og stendur ekkert uppúr nema svartur kollur. Litrík lendaklæðin hylja þær niður að ökkla og allar berfættar, kjafta hlægja og skemmta sér vel á leið á markaðinn trúi ég. Hér er enginn umferðarniður eða götuljós, bara kjaftaskvaldur, ískur í reiðhjólum og hjólbörum, ef til vill kemur uxakerra niður götuna líka og brakar í aktygjum meðan syfjulegur kall danglar með priki.

Og nú kemur annar kall hjólandi og aftan á bögglaberanum er frú hans sem veifar kellingunum sem hrópa eitthvað rosalega fyndið sem fær alla til að hlægja upphátt og hjólið fer af braut í hlykki því kallinn skellihlær með og missir stjórn á hjólinu andartak. Tvær miklar freigátur koma á siglingu niður brekku, þær eru másandi og sveifla höndum. Malavíska millistéttin er að uppgötva gildi trimmformsins eftir því sem hún gildnar af innfluttu ruslfæði. Hér skammt undan er svo dæmigert kofaúthverfi, þar kemur fólkið út úr smáhýsum sem gerð eru úr heimabrenndum múrsteini með bárujárni ef vel árar, og nú liðast þar upp reykir því morgungrautarnir verða senn klárir. Engir múrveggir vernda þessi hús enda fátt til að ræna. En hæna með unga kroppar korn og geit nagar grein. Hér í þessu hverfi eru bara moldarslóðar, engar raflínur trufla útsýn yfir þökin og bunustokkar engir heldur, bara niðurgrafnir skorningar frá því síðasti regntími stóð. Nú fullir af sölnuðum laufum enda hásumar.

,,Morning boss” kallar vörður við hlið á einum sendiherrabústað, við erum komin gegnum kofahverfið inn í heldrimannahverfið og hér eru útlend excellensí í röðum í flottum höllum. Verðir við hliðin og meira að segja hermaður á einum stað og talar í farsíma eins og mikilvæg aðgerð sé í gangi. Skokkandi útlensk kona með Æpod kemur á fínum strigaskóm á móti okkur Freyju og svo sjáum við aðra konu með skuplu og króa á bakinu setja upp vinnustöð: Hún er með rautt plastborð merkt farsímafyrirtæki og raðar upp símakortum, sígarettum í lausu og tyggjópökkum. Þetta er búðin hennar. Hún hefur þann sið að benda krakkanum sínum á Freyju og segja eitthvað sem ég túlka sem lærdómsorð um hunda, við erum orðin góðkunningjar því við hittumst alltaf hér á þessu horni og brosum og segjum morning.

Kallinn með bastkörfurnar er sestur í skugga neðst í götunni þar sem bandaríska sendiráðið er, hann er fastagestur á horninu og raðar upp körfum í mörgum stærðum og er byrjaður að ríða enn eina.

Bros. Hér er til eitthvað sem kalla mætti morgunbros. Mest er þetta fátækt fólk á leið út í lífsbaráttuna. Næstur er karl sem gengur með hjól sem er drekkhlaðið kolapokum sem hann selur í dag. Bananakarlinn er að koma sér fyrir á fjölförnu götuhorni, hann er með knippi í hvorri hönd og heldur upp ef bíll fer hjá. Gróðinn af sölu þessara bananaknippa dugar vonandi fyrir máltíð.

Nú líða skólabörn út úr kofahverfinu og stríðir straumar koma á móti okkur Freyju því hringurinn okkar er senn á enda. Þau eru berfætt en á bláum treyjum strákar, bláum kjólum stelpur með hvítum bryddingum. Hjalið í krökkunum fyllir götuna og drekkir jafnvel fuglasöngnum. Þau eru eins og fé af fjalli þar sem þeim er smalað af ósýnilegri hönd menntakerfisins.

Sum með alvöru skólatöskur, önnur með heimasaumaða poka undir bækur, en mörg með bókastafla á höfðinu. Stöku pallbíll skrönglar af stað og syfjulegir næturverðir fá afleysara á hliðin. Krakkarnir víkja alltaf úr vegi þegar þau sjá okkur Freyju. Færa sig yfir á hinn vegarkantinn og brosa ef þau eru frökk, bjóða jafnvel góðan dag jesssör og skellihlægja ef Freyja þykist ætla að glefsa til þeirra. Hún á það til, enda hrekkur í henni.

Já, var ég búinn að minnast á morgunbrosið. Það er einhver sérstök tegund af brosi sem fólk hefur tileinkað sér hér árla dags og ég hef aldrei sé á Íslandi.

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is