sland sem rnyrkjub

Upphaf að grein sem birtist í Tímariti máls og menningar í september 2011:

,,Það eru ekki margir 300 þúsund manna hópar í heiminum sem búa við jafn mikinn auð og Íslendingar. Er þá átt við hópa sem mynda ríki, þjóð eða samfélag sem stendur undir nafni. Stöku olíuríki skákar okkur í auði á mann; tekjur eru hærri sums staðar annars staðar. En ef leitað er að félagsheild sem hefur yfir vel afmörkuðu og nægu landrými að ráða, miklum náttúruauðævum og gæðum í formi vatns, orku og menningarsögu sem skapar samfélagsvitund, þá eru fáir jafn vel settir á jarðarkringlunni. Enda hafa Íslendingar verið ofarlega á lista Sameinuðu þjóðanna yfir ríki sem búa við mesta hagsæld, og jafnvel komist í efsta sæti. Samt logar samfélagið stafna í milli eftir sorglegt stóráfall af manna völdum.

Þetta sundurlyndi ógnar velsæld Íslands. Samfélagsgerðin gæti hrunið og við orðið ríkislíki þar sem örfáir útvaldir éta upp auðævi landsins. Í húfi eru gríðarlegir efnahagslegir og menningarlegir hagsmunir að vel taki til við að endurreisa Ísland eftir Hrunið og hið Nýja Ísland verði réttnefni.


Í þessari grein set ég fram tillögur að því hvernig megi skoða rætur Hrunsins í stærra samhengi og frá víðara sjónarhorni en á andapolli íslenskra stjórnmálaflokka hverju sinni. Ég er alls ekki sannfærður um að rekja megi rætur Hrunsins til ,,nýfrjálshyggju” á fyrsta áratug nýrrar aldar. Ég er ekki heldur sannfærður um að bankahrunið á Íslandi í október 2008 hafi einvörðungu verið óviljaverk bankafúskara sem illu heilli komust yfir óhóflegt lánsfé erlendis, þótt það sé birtingarform Hrunsins ásamt vanhæfni þeirra stjórnmálamanna og stofnana sem áttu að gæta almannahagsmuna. Rætur þess liggja dýpra. Þá tel ég að margvísleg mistök vinstri manna og félagshyggjufólks á árunum fyrir Hrun hafi átt sér mun lengri forsögu en bara í daðri við ,,blairisma” eins og núverandi formaður Samfylkingarinnar hefur látið að liggja - og margir fleiri. Setja má fram þá tilgátu að Hrunið á Íslandi hafi verið óumflýjanlegt, það sé bara söguleg tilviljun að það varð með þeim hætti sem raun varð á".

Greinin birtist í TMM september 2011. Einnig verður rætt við mig um sömu mál í þætti Ævars Kjartanssonar og Jóns Orms Halldórssonar, Landið sem rís, á rás 1, í september.

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is