Dagbkur fr Afrku: gst-sept 2011


Beðið eftir að komast að við vatnsbólið

Patrekur garðyrkjumaður ætlar að drífa alla þrjá syni sína í umskurð. Sá elsti er nýskorinn þegar hér er komið sögu, hafði dregist full lengi, hann orðinn sextán ára. Kóreski spítalinn ætlar að gera þessa þjónustu gjaldskylda eftir nokkrar vikur og því er um að gera að klára þetta með strákana. Hann er nógu skynsamur að fara þó á spítala en láta ekki gamla karla í þorpinu bregða kuta á kynfæri drengjanna. Á spítalnum rimpa þeir meira að segja saman sárinu, en það gera ekki karlanir.

Raunar er þetta ekki gott með svona stálpaðan strák því hann á til að fá rísandi hold um nætur og þá rifnar þetta upp. Manni verður hálft illt að huga um þetta. Hvers vegna? Ja, þetta er nú okkar menning segir lágvaxnig og mjóslegni garðyrkjumaðurinn, og svo segir læknirninn að umskurður minnki hættu á kynsjúkdómasmiti. Við ræðum um nauðsyn þess að verja sig hvað sem líður umskurði og faðir drengjanna þriggja er með þetta á hreinu. Það er reyndar rétt, menn telja til dæmis að hætt á HIV smiti minnki þegar umskornir menn hafa mök við smitaðar konur. Í mörgum Afríkuríkjum vilja menn hefja herferð. Einhver í Suður Afríku bjó til slagorðið: Umskerum alla fanga!

Niður í litla fiskimannaþorpinu í Monkey Bay er eins konar umskurðarhátíð drengja. Skrúðganga kemur frá húsi höfðingjans, bumbur og fólk á litklæðum, nú er lokið nokkurra daga ,,manndómsdvöl” drenga í lokuðu gerði þar sem þeir eru fræddir um launhelgar manndóms og annað sem kemur sér vel á fullorðinsárum. Og að lokum eru þeir umskornir. Líklega ekki af læknum með hreinlætisvenjur á hreinu. En svona hefur það gengið öld fram af öld. Einu sinni á ári fara sveinar á fermingaraldri í svona búðir og koma aftur úr þeim umskornir karlmenn. Fá að borða góðan mat og slegið upp veislu í þorpinu. Svo er búðin brennd.

Önnur hátíð: Múslimar hafa fastað nógu lengi, Ramadan er búið og nú má eta að vild jafnvel þótt sjáist til sólar. Þegar tunglið kemur í rétta stöðu undir lok Ramadan er almennur frídagur í landinu sem þó er að stærstum hluta kristið. Malavar virða hvern annan í þessum efnum. Og konurnar í þorpinu streyma að stóru húsi við ströndina þar sem eigandi að stóru flutningafyrirtæki dreifir matvælum í pokum. Hann er sjálfur múslimi og kippir sér ekkert upp við það að frúrnar eru næstum örugglega allar kristnar. Svona heldur hann uppá daginn og margar kellingar fara hæstánægðar heim með hvíta poka á höfðinu en hinar sem eftir eru olnboga sig áfram og stjaka og pústra til að komast að. ,,Það er svona þegar eitthvað fæst ókeypis” segir lífsreyndur táningur við mig.

 

Næsta morgun er lognkyrrt á vatninu, við sólarupprás dugga fiskimenn út til móts við gullið vatnið. Þetta er eins og svæsin klisja, sól, gullið vatn, lítil dugga, menn á leið til fiskar, en svona er raunveruleikinn stundum í þögn þögn þögn sem ekki einu sinni lítil bára við ströndina fær breytt.



Skömmu síðar koma fjórar syngjandi kellur og hafa sín í milli moskítónet til að veiða smáfisk í fjöruborðinu. Nokkur síli í fötu, sem nægja kannski í eina stöppu eru aflinn.   En aflinn sem kallarnir koma með er heldur drýgri og seldur í kippum sem hengdar eru á prik við vegarbrún.

Þannig líða dagarnir fjarri heimsvaldapólitikinni. Sá Obama sem hér fæst er brauðsnúður í bakaríinu í Monkey Bay, nefndur til heiðurs forsetanum.  Á rakarastofunni sem er í skúr við götuhorn er risaskilti af leikmönnum Manchester United og helsta tekjulind félagsmiðstöðvarinnar í bænum er að selja inn á sjónvarpssendingar frá stórleikjum í fjarlægum álfum.  Á meðan kaupir fólk sér hleðslu í farsímann á 30 krónur og á þá kannski fyrir Fanta í hálfleik líka.

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is