Afrka: st vi ara sn

 Stefán Jón Hafstein (okt. 2010)Fyrir nokkrum dögum kom ég í barnaskóla sem Íslendingar byggðu í suðurhluta Malaví. Skólastýran sýndi okkur gestum góða umgengni og þrifaleg börn sem sátu við skólaborð. Þetta er 3000 barna skóli þar sem forréttindin eru þau að sitja við borð í alvöru skólastofu. Sem reyndar Íslendingar gáfu sem þróunaraðstoð. Í héraðinu eru 300 þúsund börn á grunnskólaaldri og meira en helmingur lærir sitjandi á jörðinni undir tré.

Í einni kennslustofunni hafði verið hengt upp spjald sem er notað í sögukennslu. ,,Svona skiptu Evrópulöndin Afríku upp á milli sín” stóð skýrum stöfum. Síðan komu landaheiti eins og Bretland, Þýskaland, Belgía, Portúgal, Ítalía og Frakkland og við hvert land listi yfir nýlendur þeirra. Er enn verið að fjasa um þetta löngu liðna mál og það við skólakrakka?

Afríka við upphaf fyrri heimsstyrjaldar.

Maður skilur svo sem fólk sem er ,,þreytt á Afríku” og að alltaf skuli talað um arfleifð nýlendustefnunnar. Einatt rifjaðar upp gamlar væringar í afsökunarskyni fyrir eigin volæði. Eiflíft vesen, aldrei nóg hjálp, er ekki endalaus spilling og blóðsugur, glæpir og sjúkdómar? Hvernig getur maður staðið í þessu endalaust? Skiljanlegt þegar fólk heima þarf að borga af raðhúsinu, gengistryggðu lánin enn í dómi og VISA-rað á endalausum yfirdrætti. Nema þetta er aðeins flóknara. En þar sem fólk hefur ekki tíma fyrir flóknar blaðagreinar skal ég skrifa einfalda grein um Afríku.

Eitt sinn...

Nú er nefnilega afmælisár. Fyrir 125 árum, í Berlín, skiptu stórveldin þessari heimsálfu upp í yfirráðasvæði. Evrópsku ríkin drógu línur þvers og kruss yfir heila heimsálfu og sögðu: Svona eru landamærin. Stór hluti af landinu var ,,terra incognito” sem þýðir að enginn í Evrópu vissi hvað þarna var, en landið ókunnuga var kallað ,,myrka álfan” og skipt upp með reglustiku. Um svipað leyti fengu Íslendingar fyrstu stjórnarskrána. Við sluppum við að vera skipt upp: Austurland handa Frökkum, Norðurland fyrir Portúgal og þar töluð portúgalska, Vestfirðir fyrir Breta, og suður og vesturland í smáríkjum fyrir Þjóðverja, Ítali, Belga og Dani. Nei, við sluppum við það. En Afríka ekki.


Stutt saga í vöggu mannkyns

Í ár fagna 17 ríki Afríku 50 ára sjálfstæðisafmæli. Það er einn þriðji landanna í álfunni. Afríkuríkin eiga því mun styttri sjálfsstæðissögu en nýlendusögu síðustu 125 ár. Á sama tíma fengum við Íslendingar stjórnarskrá, heimastjórn, fullveldi, lýðveldi, auðlindayfirráð og skólakerfi auk alls annars.

Áður en Afríku var deilt upp höfðu Evrópa og Ameríka tekið þræla þar í 400 ár. Síðan var Afríka skorin eins og terta, í 53 ríki, en það voru í raun 10 þúsund félagseiningar, menningarheimar eða ættbálkar sem lentu innan þessara 53 eininga. Þannig er Nígería: 250 ættbálkar sem eiga ekkert sameiginlegt nema landsliðið í fótbolta. Í Namibíu eru töluð 30 tungumál. Í Mósambik er portúgalska ríkismál en innan við 40% landsmanna tala hana. Það er ekki óalgengt að skyldir ættbálkar sem eiga sömu meningu búi í þremur eða fjórum löndum. Svo er um Malaví, Zambíu og Simbabwe. Allt þetta ólíka fólk lenti þvers og kruss innan landamæra sem göfugir nýlenduherrar teiknuðu. Belgía (já, þetta litla land) eignaðist Kongó sem er á stærð við alla Vestur Evrópu: Ítalíu, Spán, Frakkland, Þýskaland og England. Nei, fyrirgefið, Leópold Belgíukonungur eignaðist Kongó einn. Bretar bjuggu til Súdan þar sem nú loksins á að kjósa, meira en einni öld síðar, um það hvort fólkið í suður Súdan vill búa í einu ríki með fólkinu í norður Súdan. (Óhugsandi, þarna hefur staðið stríð frá upphafi). Ekki minnast á Sómalíu, Keníu, Kongó... Jú annars, Kongó. Þar er búið að drepa næstum jafn marga síðustu 15 ár og dóu í helför nasista gegn gyðingum. Fimm milljónir manna, fyrir utan stöðugar hópnauðganir í þorpum. Þar fara herflokkar leika lausum hala yfir landamæri Rúanda, Úganda, Kongó og fleiri ríkja í allsherjar siðleysi og upplausn sem á rætur að rekja allt aftur til þess þegar Belgar hjuggu hendur af hverjum þeim sem ekki gat þrælað fyrir kónginn. Hryðjuverk í hundrað ár.Tíminn í lífi heimsálfu

Þetta er ekki falleg saga og hún er ekki þannig að maður geti kyngt henni með morgunkorninu. Kringum 1960 fengu Afríkuríkin hvert af öðru ,,sjálfstæði”. Reitirnir sem teiknaðir voru upp 1874 fengu heimastjórn eftir lögmálum Kalda stríðsins, klíkur og forrréttindahópar fengu allt í einu ráðstöfunarrétt yfir gríðarlegum auðævum – en aðeins með herstyrk, stuðningi og atbeina stórveldanna sem áður réðu ríkjum. Nýlenduránið var framlengt gegnum forréttindahópa á hverjum stað. Sovétmenn voru duglegir að koma sér upp ,,sósíalískum ríkjum” sem vinstri menn á Vesturlöndum höfðu í uppáhaldi. Kaninn og vinir í Nató komu sér upp vinum af sama sauðahúsi, sem ríktu yfir námum, olíulindum, gulli, demöntum og góðmálmum til stuðnings ,,vestrænum gildum”. Þannig var nýlendustefnan yfirfærð með ,,sjálfstæði” yfir á enn frekari kúgun. ,,Sjálfstæðið” fólst í því að arðránið færðist frá Evrópu og Ameríku yfir á klíkur heimalanda. Ættbálkapólitíkin varð framlenging nýlendustefnunnar og er enn víða um álfuna.


Hætta þessu bull?En er þá ekki kominn tími til að Afríka hætti þessu bulli? Jú. En lítum á tímann sem hún hefur fengið. Namibía var síðasta nýlendan, hún fékk sjálfstæði fyrir 20 árum. Malaví og Suður-Afríka komust undan harðstjórn fyrir 16 árum. Styttra er síðan Angóla og Mósambik brutust úr viðjum borgarastyrjalda í kjölfar nýlendustríða. Gjörvallur suðurhluti Afríku er á táningsaldri sem ,,sjálfstæð” ríki með fjölflokka lýðræði. Berum þessa þróun saman við það sem gerðist í hinni siðmenntuðu Evrópu á nýlendutíma Afríku: Tvær heimsstyrjaldir í Evrópu á minna en 100 árum, útrýmingarbúðir og helför í Þýskalandi, fasismi á Ítalíu, borgarastyrjaldir á Spáni og Írlandi; herforingjastjórnir í Portúgal og Grikklandi, fjöldamorð á Balkanskaga fyrir 20 árum, blóðbað á Írlandi með tilheyrandi hryðjuverkum, mafíukapítalismi í Rússland og blóðbað í Tétsníu. Við erum með ,,afrískt” ástand heima í litlu sætu Evrópu á ,,öld öfganna”. Fyrir utan Berlínarmúrinn og allt sem hann táknar. Hver er ,,þreyttur á Afríku” eftir 50 ára sjálfstæði?


Sjálfstæði og fögnuður

Sjálfstæðisfögnuður ársins er blendinn: Ríkin 53 urðu til við alls konar furðulegar aðstæður sem eru efni í lengri sögu en sögð verður hér. Sum hefðu aldrei átt að verða til: landlukt, rúin auðlindum, án fagstétta eða menntamanna sem kunnu til verka, þröngvað inn í tilveru sem bauð upp á áframhaldandi djöfuldóm. Önnur: Rík, svo rík að þar verður enginn friður því eilíft er barist um það sem jörðin gefur. En samt er Afríka dásamleg heimsálfa, ótal fagrir menningarheimar, löndin undursamleg, náttúran gjöful, lífið gott víða um lönd og allt til alls. Hagvöxtur og lýðræðisþróun í að minnsta kosti helmingi ríkjanna. Ég kom hingað aftur til dvalar fyrir nokkrum árum með þá hugsun að nú væri liðin sú tíð að skella skuld á fortíð. Að hluta er það rétt. Að hluta rangt. Því börnin í skólanum sem við heimsóttum um daginn þurfa að læra sínar lexíur. Eins og allir aðrir.

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is