Dagbkur: Jl-gst 2010

Dagbækur frá Afríku: Vetrarmánuðina júní-ágúst 2010


Góðar fréttir frá Afríku. 700 fjallagórillur í Rúanda hafa það gott og fjölgar dag frá degi (eða því sem næst). Útrýmingarhætta virðist liðin hjá því friðun skapar þeim næðisstundir til að fjölga sér og éta banana. Samtímis skemmta þær fámennum ferðamannahópum sem greiða hátt gjald fyrir að koma í heimsókn klukkutíma á dag. Gjaldið rennur til apanna sjálfra (gegnum verndarsjóð) og nú fá fyrrverandi veiðiþjófar og górillumorðingjar starf við hæfi: Passa upp á fyrrum fórnarlömb. Górillurnar flakka um regnskóga Úganda, Kongó og Rúanda en virðast nú hafa fundið viðunandi stað fjarri stríðsmönnum heimsins.

Og fleiri góðar fréttir.

Afrískar matarvenjur eru margnbrotnar og fjölbreyttar en virðast án undantekninga betri en vestrænt mataræði. Vísindamenn (skilgreini þá ekki nánar frekar en heimsfréttamiðlar) hafa fundið út með samanburði að afrísk börn (Burkina Faso) eru með heilbrigðari magaflóru en jafnaldrar á Ítalíu. Samanburðurinn er ekki víðtækari en þetta, en samt má draga af þessu ályktun, sem sé, að hið fornkveðna sé rétt: Vestrænt mataræði er það versta sem þróunarlöndin fengu frá ríku löndunum.

Iðnaðarframleiddur matur í plastpökkum og dósum ryður sér til rúms meðal þeirra Afríkubúa sem á slíku hafa efni og samtímis versnar heilsan: Sykursýki, offita, hjartasjúkdómar og alls kyns ullabjakk herjar á. Afrísku börnin fá fjölbreyttar ónæmisvarnir í mallakútinn sinn, þau eru heilbrigðari en jafnaldrar og virðist mega rekja það til ferskra matvæla, heilsusamlegri blöndu af grænmeti, kjöti, baunum og korni, og þess að ofgnótt sykurs er fjarri þeim.

Hér ræðir auðvitað ekki um þau mörgu afrisku börn sem líða skort og falla úr hor, heldur þau sem búa við eðlilegar aðstæður. Umhugsunarefni fyrir Ísland? ,,Velmegunarsjúkdómar” eru undarlega þverstæðukennt hugtak. En nú sér maður ógnarfeita afríska millistéttarmenn og -konur reyna að hlaupa af sér ,,velmegunar”bumbur sem fyrst og fremst má rekja til pakkamatar, sykurkorns og ruslfæðis sem flutt er inn dýrum dómum frá þeim sem fórna heilsu sinni á altari matvælaverksmiðjanna. Og borga skatta sína fyrir í þokkabót.

Veturinn herjar á gróður hér í Malaví. Einn daginn var 17 stiga hitabylgja í Reykjavík en 17 stiga kuldakast í Malaví. Undarlegt hve loftslag er breytilegt milli fjarlægra landa. Senn hlýnar þó hér syðra eftir því sem sól hækkar á lofti og jörð tekur sviðna. Sumarhitar bresta svo á í október og nóvember og síðan steypast yfir dembyr vætutímans og nú þegar eru menn byrjaðir að erja akra til að undirbúa sáningu.

Hér í Malaví rak forsetinn stóran hluta ráðherra, skipaði eiginkonuna sendiherra mæðraverndar og bróður sinn menntamálaráðherra. Frestaði sveitarstjórnarkosningum enn einu sinni og nú eru 10 ár síðan þær voru haldnar. Þeir sem unna samsæriskenningum hafa unað sér dagana langa við þær. Stjórnlagafræðingar benda á það sem mörgum öðrum hefur yfirsést í eldri lýðræðisríkjum að maki þjóðhöfðingja á sér ekkert stjórnarskrárbundið skjól, og það er umræðuefni hér. Forsetahöllin gaf strax út að frúin hefði hvorki laun né hlunnindi sem ráðherra. En samsæriskenningar blómstra eftir sem áður: Forsetinn situr nú sitt annað kjörtímabil og má ekki bjóða sig fram aftur; er eitthvað í undirbúningi? Kenningarnar fengu byr undir báða vængi þegar þingmaður úr suðrinu sagði að ,,Malaví væri ekki tilbúið til að kjósa kvenforseta”; sneiðin var til varaforsetans frú Banda og duldist engum. Bróðirinn fékk stöðuhækkun. Það er víðar pólitík en á Vestfjörðum.

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is