Dagbkur fr Afrku: Jan-feb 2010


Sprettan er góð í ár

Vetrarólýmpíuleikarnir virðast ætla að fara framhjá íbúum sunnanverðar Afríku af einhverjum ástæðum. Hér eru fáir sem stunda skíði og skauta þótt finna megi þá sem slíkt gera í Suður-Afríu þar sem snjó festir í efstu hlíðum. Hér í Malaví mæna allir á maísstönglana sem þroskast núna og taka á sig mynd á afhallandi regntíma. Uppskeran verður góð að mætustu manna yfirsýn, en ekki alls staðar, þurrkasvæði á stöku stað verða illa úti. Þá er hungurvofan gestkomandi. En forsetinn bar sig vel í stefnuræðu: Landið á góðan varaforða frá í fyrra og hefur nú brauðfætt sig fimm ár í röð, eftir hungursneyðina miklu 2005.


Kornhlöður ríkisins geyma varaforða síðasta árs.
Setningarathöfnin í þinginu var að venju hátíðleg og nú virðist festa sig í sessi hefð sem ekki er víst að feministar allra landa séu sáttir við. Þingkonur nota nú tækifærið og sýna mestu skartklæði sem fyrirfinnast í landinu við þetta tækifæri. Sú allra glæsilegasta á silfurlitaðri dragt með firnastóran hatt og gullveski var kærasta forsetans, fyrrverandi ráðherra, sem sat ekki langt frá því þar sem hann var. Bingu forseti er 75 ára ekkjumaður og hefur nú fest ráð sitt að nýju við mikla athygli. Verður gert brúðkaup þeirra 1. maí. Aðrar konur þóttu og prúðbúnar og sýndu blöðin þær í bak og fyrir með myndum; þingsetningarathöfin er að breytast í feiknamikla tískusýningu. Hattarnir eru stórkostlegir og ómissandi hverju kvenhöfði.

Stóra málið fyrir utan eldsneytisskort og gjaldeyrishömlur er kæra á hendur fyrsta samkynhenigða parinu sem opinberar í Malaví. Um áramótin birtust fyrst fregnir af því að tvei r karlmenn hefðu trúlofað sig og hyggust láta gefa sig saman, sem og var gert, en löggan komst í málið og þeir í steininn. Þótt stjórnarskráin heimili ekki mismunun (ef maður les hana með þeim augum, sem flestir vestrænir menn gera) þá eru hegningarlögin alveg skýr: ,,ónáttúrulegar” samfarir eru bannaðar og fyrir það sitja mennirnig í fangelsi og bíða dóms. Málið hefur vakið heimsathygli, en svo ber við að samkynhneigð er bönnuð eða fordæmd í mjög mörgum ríkjum Afríku. Í Úganda er frumvarp fyrir þingi sem jafnvel sjálfur Obama hefur mótmælt vegna ofsókna á hendur samkynhneigðum. Mikil blaðaskrif og umræður hafa komið í kjölfarið og tóninn mjög á þá lund að ekki eigi að flytja inn ,,vestrænt frjálslyndi” í landi sem vill vernda ,,afrískar hefðir”. Þetta er ákaflega viðkvæmt mál sem getur blossað upp í harðar deilur.

Malawar eru almennt á því að þeir sjálfir séu ,,íhaldssamir, kristilegir og siðprúðir” svo reynt sé að umorða ræðuna sem nú er í gangi. Fyrrverandi einræðisherra, Banda, lagði mikið upp úr íhaldssömum klæðnaði kvenna (stuttpils sjást nánast aldrei). Fjölmargar kirkjudeildir leggja mikið upp úr biblíulegum skilningi á lífinu og tilverunni, og þá gamla testamentið ekki síður en það nýja lagt til grundvallar og kirkjusókn er mikil. Siðprýðin er svo annað mál sem færa má rök fyrir að sé einkum á óskalista en ekki endilega praktíseruð. Að minnsta kosti ekki í hórukofanum sem löggan hreinsaði út úr fyrir nokkru sem mun víst hafa verið fjölsóttur því ekki var verðlagið fyrir þjónustuna ýkja hátt: Krónur 300 fyrir skiptið.

En nú er það uppskerutíminn sem fer í hönd: 80 prósent landsmanna eru sjálfsþurftarbændur sem eiga allt sitt undir því að stönglarnir komi vel undan regni, því þeir eru uppistöðufæði landsmanna. Maíisin er þurrkaður og malaður og svo er hann notaður í þykka stöppu sem snædd er með fingrunum og dýft í grænmetissósu með. Sé mikið tilstand er búin til kjúklingasósa með maíisstöpppunni. Þetta er hið daglega fæði, kvölds og morgna og um miðjan dag, fyrir þá sem eru svo heppnir að borða þrjár máltíðir daglega. En bláþráðurinn er þunnur: 25% barna eru vannærð í Malaví. Uppskerutíminn yfirskyggir því allt annað veraldlegt vafstur því hann sker úr um það hvort fólk lifir eða deyr – í orðsins fyllstu merkingu.

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is