Me ftbolta heilanum

Afríkuboltinn er ekkert grín:  Sameiningartákn, draumur, þrælabúðir, sóun á fátækrafé og taumglaus gleði þegar vel gengur!  Hér er skýrslan eftir Afríkubikarkeppnina í Angóla:

Fagnaðarlæti í Kaíró í heilan sólarhring, Faróarnir koma heim með þriðja Afríkubikarinn, synd að þeir verða ekki með á HM, lang besta lið Afríku. Tíunda besta lið í heimi samkvæmt lista FIFA.  Kona á götu úti í Karíró við heimkomu bikarsins: ,,Þetta er ekki bara fótbolti, þetta er spurning um þjóðarstolt, einingu og finna til saman". Kannast einhver við þessa lýsingu?

Það fór eins og menn vissu fyrr í keppninni: Leikur Faróanna og Eyðimerkurrefanna var leikur hefndarinnar. Egyptar geta nú fagnað því að hafa hent ófaranna í Kartúm þegar Alsír sló þá út úr HM; 4-0 var endastöðin og þrír Alsírrefir sendir af velli.

 

Það voru Faróarnir og Svörtu stjörnurnar sem léku úrslitaleik. Því Nígería fór illa að ráði sínu í undanúrslitum: Varnarmenn sátu á bekknum og báðu bænir hástöfum og horfðu til himins, það voru tvær mínútur eftir og Ofurernirnir voru marki undir gegn Svörtu stjörnunum frá Gana, undanúrslit og nú gat enginn nema Guð á himnum bjargað Nígeríu. Skotskórnir höfðu orðið eftir einhvers staðar og Ganamenn ógnuðu marki Ofurarnanna aðeins einu sinni í leiknum, það var nóg, hornspyrna og skalli á stöngina nær. Ungu stjörnurnar voru komnar í úrslit í fyrsta skipti í 18 ár í Afríkubikarkeppni.

Næsti leikur var þrunginn spennu: Það yrði blóðbað þegar Faróarnir mættu Eyðimerkurrefunum frá Alsír.

Og fleiri vörður á veginum: Faróarnir færðust nær sigri á Afríkubikarkeppninni með því að bursta Kamerún 3-1 í furðulegum leik en ákaflega spennandi og opnum. Goðsögnin Hassan byrjaði á því að skora sjálfsmark í þágu Kamerún fyrst í leiknum, sem var hans 170asti fyrir Egyptaland.

Staðan var 1-1 fyrir framlengingu en á nítugustu og annari mínútu gaf Jeremia bakvörður Kamerún gullfallega stungusendingu inn í teiginn á sóknarmann Egypta en ekki markmanninn og úr varð staðan 2-1; einhver hörmulegustu en jafnframt yfirveguðustu og snyrtilegustu varnarmistök sem sést hafa. Tveimur mínútum síðar tók Hassan þrumskot úr aukaspyrnu á 32 metra færi, markvörður Kamerún varði upp í slá og út en dómarinn var sá eini í heiminum sem hélt að boltinn hefði farið inn! Annað mark Hassans og er þá sjálfsmarkið ekki talið. 3-1 og Faróarnir kunna að verjast í svona stöðu. Er ekki kominn tími til að þessi Blatt sem vill ekki tækniaðstoð við dómara (svo sem einfaldar myndavélar á marklínu) fari að hugsa sinn gang? Svo maður tali ekki um þegar Henry sló boltann til að leggja upp mark sem felldi vini mína Íra úr HM?

Óvinsæl stórstjarna

,,Við spiluðum einum manni færri allt mótið" sagði svekktur stuðningsmaður Fílanna eftir tap gefn Eyðimerkurrefunum og þar með brotthvarf af mótinu. ,,Didier Droghba gerði ekki neitt allt mótið, ég ætla bara að vona að hann reyni ekki að tala við okkur hér heima" bætti annar við. Já, það er ekkert ,,strákarnir okkar" núna á Fílabeinsströndinni. Tap er tap og liðið sem talið var sigurstranglegast með allar sínar stjörnur fór heim. Ungu Svörtu stjörnurnar frá Gana skinu skært og unnu heimamenn í Angóla.

Hátíð í Malaví!

Þótt Logarnir frá Malaví hafi aldrei komist lengra en að vinna einn leik var tekið vel á móti þeim á flugvellinum, stuðningsmenn mættu og klöppuðu þeim á bakið.  Enda var hvílík hátíð í landinu eftir fyrsta leikinn!

Það leyndi sér ekki þegar fyrstli leikurinn var hafinn: Á götuhornum stóð fólk og veifaði, aðrir dönsuðu og bílstjórar hrópuðu sín í milli á þeim fáu rauðu ljósum sem eru í borginni. Allir með tvo fingur á lofti, sigurtáknið, V. ,,Hver fjandinn" hugsaði ég, getur verið að Malaví hafi skorað tvö mörk? Ég renndi yfir á aðra útvarpsstöð og skildi ekkert sem sagt var í beinni útsendingu frá fótboltaleik nema orðin Malaví two zero! Í matvöruverslun var þjóðhátíð. Fólk söng og blístraði og svo fór undarlegur kliður um mannskapinn, búrsveinn kom dansandi fram og hrópaði og pokadýrin tóku gleðikipp: Þrjú núll! Kassadaman söng.


Raforkufyrirtæki Malaví, Escom, baðlandsmenn að hafa ekki önnur raftæki í gangi en sjónvarpið meðan leikir stóðu, ,,svo ekki þurfi að koma til skömmtunar vegna álags" segir í blaðaauglýsingu. Reyndar er sífelld skömmtun og orkurof í landinu svo sumir kunna nú að brosa, en ekki batnar ástandið þegar landslýður flykkist allur að þessum fáu sjónvarpstækjum sem 13 milljónir manna eiga. 6% landsmanna hafa aðgang að rafmagni og það rétt dugar til að horfa á fótbolta!

Angóla, hvers vegna?

Ein stór spurning varðandi svona mót er: Hvað með forgangsröð?  Er fótbolti alltaf fyrstur?  60% íbúa Angóla hafa minna en tvo dollara á dag í tekjur en nú var varið milljörðum dollara í að halda mót í knattspyrnu.  Fjórir risavellir byggðir og allt gert til að taka á móti fjölda gesta, samt tók 5-7 tíma að komast bæjarhluta á milli til að fara á völlinn.   Hvað verður svo um þessi mannvirki?  Ekki er hægt að breyta þeim í skóla eða sjúkrahús.  Svo mikið er víst.

En fótbolti er miklu meira en spurning um líf og dauða.  Það þarf ekki mikið til að fylla litla fátæka þjóð eins og Malava óhemju stolti. Þrjú núll! Stærsti sigur í sögu landsins. Það eru 25 ár síðan Malaví komst á Afríkubikarkeppnina. Litla Malaví er neðst á listanum yfir afrek þeirra liða sem komust áfram í keppnina í Angóla. Um tíma leit út fyrir að skotárás á lið Togo og brotthvarf þeirra manna yrði til að taka allan vind úr keppninni, en fótboltamenn virðast hafa þann eiginleika að gleyma fljótt. Boltinn tók að rúlla og allt í einu var litla Malaví á hvers manns vörum! Heimamenn frá Angóla opnuðu mótið með mesta klúðri sem sést hefur, voru með 4-0 gegn Malí þegar 10 mínútur voru eftir og misstu stöðuna í 4-4! Hvernig í ósköpunum? Ja, ef leikurinn hefði verið mínútu lengur hefði Malí líklega skorað fimmta markið sagði þulurinn.

Fótbolti: Sameiningartákn og draumur um betra líf

Fótbolti er stundum eina sameiningartákn þjóða og ættbálka innan ríkja Afríku. Sagt er að Nígeríumenn eigi ekkert sameiginlegt nema fótboltalandsliðið. Um alla álfuna er fótbolti tákn um sjálfstæði ríkis og drauma ungra manna um frægð og frama þegar fátt annað er í boði. Óprúttnir umboðsmenn skilja eftir sig sviðinn svörð í leit að næsta Essien eða Droghba.  Ungir og knattleiknir strákar fá smá summu sem fer til mömmu og pabba þegar þeir skrá sig barnungir í æfingabúðir í Asíu af því að svona barnaþrælkun er bönnuð í Evrópu.  Flestir komast ekki í neinn atvinnumannabolta en það má alltaf láta sig dreyma.

Er kvennabolti í Afríku? Já, Rúanda á sterkt kvennalið og hér í Malaví spyrna þær líka. En augun eru á aljþóðlegu stjörnunum sem spila með stóru liðunum. Í morgunfréttum á mánudögum er alltaf sérstakur pistill um það hvernig Afríkumennirnir stóðu sig í stóru liðunum um helgina, þarna uppi í Evrópu hjá Chealsea, Man Un og Barcelona. Ekki jafn broslegt og gengi ,,Íslendingaliðanna" í þriðju deildum Norðurlanda.

Það voru nýlendurherrarnir og trúboðar sem kenndu Afríkumönnum að spyrna knetti, og síðan hefur boltinn rúllað og gerir enn: Samanvafðar dulur, svipaðar plastpoka og þéttvafðar snæri; þannig verður til knöttur sem hægt er að skjóta í mark sem eru stofnar tveggja trjáa.  Og láta sig dreyma.

Stórstjörnur voru hálf lélegar

Afríski boltinn er opinn og bráðfjörugur. Menn voru þrælspenntir þegar Gana og Fílabeinsströndin runnu saman, vinir og félagar úr Chelsea, Essian og Drogba hvor í sínu liði og hvernig myndi það fara? Ja, Drogba náði næstum að jarða Essien með tæklingu, og Essien ný staðinn upp úr meiðslum! Fílarnir komust i eitt núll með glæsilega útfærðu marki en hinar ungu og hugumstóru Svörtu stjörnur náðu sér á strik og þegar Fílarnir misstu mann útaf leit þetta ekki illa út, boltinn small í stöng og allt að verða vitlaust. Þetta var ,,stórveldaslagur" því miklar vonir eru bundnar við bæði lið sem nú þegar stefna á heimsbikarkeppnina í Suður Afríku í sumar. En Fílarnir tóku aukaspyrnu af 32 metra færi og boltinn skrúfaðist inn í skeytin óverjandi og svo bætti Drogba við skallamarki undir lokinn - einum færri! Svörtu stjörnurnar máttu lúta í gras svo notað sér vel þekkt orðalag. Pressan er rosaleg. Ofur Ernirnir frá Nígeríu þruftu að sanna sig gegn Íkornunum frá Benín. Svörtu hlébarðarnir frá Kamerún eru undir gríðarlegu álagi eftir slæma byrjun - töpuðu fyrir Gabon!- og vei þeim frá Alsír sem töpuðu fyrir Logunum frá Malaví!  Afríka stóð á öndinni því hér í álfu þar sem einn milljarður manna býr og fleiri fátæklingar en í nokkurrri annarri heimsálfu er þetta sjóv sem enginn vill missa af.  En stóru stjörnurnar frá ensku liðunum og þeim spánsku voru allt annað en augnayndi.

Hvað segir þetta um HM í Suður Afríku?

Ja, sáralítið nema besta lið Afríku verður ekki með.  Ósigraðir á Afríkubikarmóti síðan 2006, nítján leiki í röð, búnir að vinna þrjú Afríkubikarmót í röð.  Faróarnir sitja heima.  Liðin frá Afríku þurfa að bæta sig til að eiga von í svo mikið sem undanúrslit á HM.  Álfan hefur stóra drauma um að hreppa heimsbikarinn í sumar í Suður Afríku en fátt bendir til að svo fari.  Bafana Bafana, lið heimamanna, hefur verið óhemju slakt að undanförnu og valdið verulegum áhyggjum því allir eru sammála um að gengi suður afríska liðsins skipti miklu fyrir mótið.  Ungu stjörnurnar frá Gana þurfa á sínum bestu mönnum að halda en náðu ekki að koma liðinu saman með sannfærandi hætti þótt í úrslit kæmust.  Nígeríumenn voru heillum horfnir, Kamerún og Fílabeinsströndin sýndu fádæma fína takta en duttu svo niður á milli.  Draumurinn um svartan sigur á HM í júní er ansi langt undan.

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is