Borgin mn:Lilongwe

Þvottlaugarnar í Reykjavík voru svona á sínum tíma, svona þvo alþýðukonur í Lilongwe í dag.  Niður við árbakka.Lilongwe. Það tók mig nokkrar tilraunir að muna nafnið rétt áður en ég kom hingað: Linglove, Lolingve, Linongle... Nei, nafnið á höfuðborg Malaví var ekki kennt í minni barnaskólalandafræði enda ríkið rétt að fá sjálfstæði um þær mundir. Þetta er átta hundruð þúsund manna sveitaþorp. ,


,Miðbæirnir” tveir. Nýi, þar sem skrifstofur alþjóðlegra stofnana og Seðlabankinn tróna. Og gamli bærinn sem er í raun götuhorn þar sem er eini stórmarkaðurinn sem gæti kallast slíku nafni á Íslandi. Skammt undan er svo indverski bærinn þar sem allt dót og drasl sem eitt fátækt land hefur efni á er til sölu. U2 sungu eitt sinn um stað þar sem ,,the streets have no names” og það gæti hafa verið þessi borg. Það sem meira er, göturnar kallast tæpast því nafni með svo mörgum holum að gætu verið úr þekktu Bítlalagi af Sgt. Peppers, og þær eru óupplýstar. Maður ekur með háum ljósum eftir sólsetur og eftir innbyggðum áttavita, umferðarljósin sem komu upp í hitteðfyrra eru bara virt á virkum dögum, um kvöld og helgar tekur enginn mark á þeim. Ekki að mjög mikið sé um bíla, mest um reiðhjól og fótgangandi sem ferja hinar eilífur byrðar brauðstritsins: maís, eldivið, reyr í gerði; allar konur með króa í dulu á baki sér. Hundar um allar götur. Míníbússar að hruni komnir skrölta útúrtroðnir milli hverfa. Merkilegt að búa í borg þar sem eru engar gangstéttar, bara kindagötur fólksins. Og merkilegt að búa í landi þar sem ekki er leikhús, varla bókabúð, enginn tónleikasalur, og maður af minni stærð getur ekki keypt á sig skyrtu eða skó. Tölum ekki um jakka. Nei, einhver sagði að væri komið bíó í Blantyre. Já, hrunadans neyslumenningarinnar teygir sínar lúmsku klær hingað, skyndibitastaðir, farsímar, og stór auglýsingaskilti á götuhornum. Og hjálpi oss mildi Mammon, nú rís kringla við gamla miðbæinn. Sjá má vísi að umferðarteppum síðdegis.

Í götunni minni búa allir bak við hátt gerði eða múra, sumir með verði og rafmagngsgirðingar, þetta er þokkalegt millistéttarhverfi sem iðar af lífi. 5 mínútur í eina átt og maður er kominn lúxushverfi diplómata og annara ,,excellensís” ; 5 mínútur í aðra átt og við erum stödd í endalausu úthverfi þar sem leirkofar með stráþökum og krambúðir standa við moldarslóða sem smám saman fjara út í maísakra sem ná út í buskann; mörk sveitar og borgar eru óglögg í þessu græna gróðurhafi. Áin sem rennur gegnum borgina geymir krókódíla en þar þvær margur maðurinn þvotta sína og konur fá góðan tíma til að kjafta. Alls staðar fólk, börn, fleiri hundar. Litrík klæði! Allir að flytja eitthvað eða selja í smáskömmtum. Við erum með hænur og matjurtagarð eins og tíðkast, borgarbúar sleppa ekki hugmyndinni um sjálfsþurftabúskap þótt á mölina fari. Hýenur gagga á kvöldin. Á nóttunni ýlfra hundarnir og spangóla af því að þeir heyra í þeim; hanarnir gala frá klukkan 02 og fuglarnir syngja við sólarupprás kl 05, rósirnar ilma í sama mund og lífið heldur áfram enn einn daginn í borginni með nafnið sem fáir þekkja.

(Fyrir Mannlíf, jún 2009)

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is