Lri httu

Apríl 2009.

"Við getum fikrað okkur hægt og bítandi að betra fyrirkomulagi. Komið böndum á kostnað, tryggt samkomulag um aðkomu framboða að fjölmiðlun, sett reglur innan flokka, frelsað kjörna fulltrúa úr fjárhagsviðjum vegna framboða."  (SJH, Mbl. ágúst 2006).

Greinin sem hér fer á eftir birtist í ágúst 2006 og hefði betur verið tekin gild innanstokks hjá ráðamönnum og stjórnmálamönnum.  Nú þremur árum síðar kemur í ljós að ofurstyrkir til eins stjórnmálalflokks og vænir til annarra gera þjóðina ævareiða og rýja stjórnmálamenn trausti.  Sem formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar hafði ég forgöngu um það árið 2005 að skrifa öllum stjórnmálaflokkum sem áttu fulltrúa á Alþingi og óska eftir viðræðum um nýja skipan á fjármálum flokkanna.  Allir samþykktu, nema Sjálfstæðisflokkurinn.  Því varð ekki neitt úr neinu, einn ganginn enn.  Ári síðar tókst loks að koma á lögum, en mjög takmörkuðum.  Þau setja ekki nægilega skýrar reglur um prófkjör og forsetakjör, auk þess sem sveitarstjórnarkosningar þurfa meira aðhald.  En þrátt fyrir stóraukin framlög skattborgara til stjórnmálaflokka eru þeir í 475 milljóna króna skuld í aðdraganda Alþingiskosninga árið 2009!  Þótt þessi grein beri þess merki að hafa verið skrifuð 2006 gilda varnaðarorðin nú sem aldrei fyrr:

Lýðræði í hættu
Eftir Stefán Jón Hafstein
Birt í Morgunblaðinu ágúst 2006.


Ég tel að taka verði fast á fjármálum í tengslum við framboð og kosningar. Eins og nú er statt bjóðum við hættunni heim með spillingu og valdi fjár í stað fólks. Peningar eiga ekki að ráða útkomu kosninga, fjárhagsgeta á ekki að ráða framboði, áhrif í krafti fjár mega ekki trufla gjörðir kjörinna fulltrúa. Staðreynd er að kostnaður vegna kosninga eykst stöðugt; frambjóðendur og kjörnir fulltrúar í áhrifastöðum sækja síaukið fé með samböndum við menn í viðskiptalífinu. Þetta á við forsetaframbjóðendur, einstaklinga sem taka þátt í prófkjörum, flokka í sveitarstjórnarkosningum og til Alþingis.


Vítahringur


Flokkar og framboð eru í vítahring. Áhættan af því að augslýsa minna en aðrir er of mikil fyrir þá sem ætla sér stóra hluti í kosningum eða standa veikt í könnunum. Þess vegna skrúfast kostnaður upp. Það er merkilegt að þetta gerist á sama tíma og aldrei hafa verið til svo margir fjölmiðlar og nú, sem eru opnir fyrir því að fjalla um stjórnmálin. Sem frambjóðandi og sjálfboðaliði í kosningabaráttu oftar en einu sinni, og sem fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar í Samfylkingunni, fullyrði ég að hægt sé að minnka kostnað mjög við framboð, ef allir taka sig saman um það, og ná um það góðri samvinnu við fjölmiðla. Minna auglýsingaflóð og tilkostnaður við hluti sem varða ekki raunverulegt inntak kosninga mun í engu skaða möguleika almennings á upplýstu vali. Lýðræðinu er ekki hætt þótt flokkar og framboð minnki kostnað, umræðan mun áreiðanlega batna.


Þakkarskuldin er tortryggileg


Síðast þegar haldið var prófkjör sjálfstæðismanna í þáverandi Reykjaneskjördæmi reiknaði ég saman ætlaðan kostnað nokkurra þeirra sem mest höfðu sig í frammi. Niðurstaðan var að kostnaður hvers um sig hefði numið ríflegum þingmannslaunum í heilt kjörtímabil, fjárhagslegt sjálfstæði þessara frambjóðenda var dregið í efa. Þegar núverandi forseti var fyrst kjörinn var háð dýr barátta um Bessastaði, ekki síst fyrir þá sök að einn frambjóðenda virtist hafa mjög rúm fjárráð og getu til að yfirtrompa alla hina. Fjármálaráð nýkjörins forseta upplýsti þá að skuld vegna kosningabaráttunnar næmi 30 milljónum króna, sá sem varð númer tvö gerði upp sinn slag eftir því sem fregnir hermdu fyrir tæpar 20 milljónir króna. Þjóðin hefði vel getað valið forseta án svona mikils kostnaðar. Ég tel mjög óheppilegt að nýkjörinn forseti setjist á stól á Bessastöðum með tugmilljóna króna skuld á eftir sér. Enda var forseta vorum núið um nasir að hafa greitt þá skuld að hluta með því að beita synjunarvaldi gegn fjölmiðlalögunum. Undir það tek ég ekki, en bendi á til að fólk geri sér ljósa hættuna af því að kjörnir fulltrúar séu í stórri þakkarskuld við þá sem borga fyrir þá.


Ný dæmi um óhóflegan kostnað


Frambjóðendurnir tveir í nýlegu formannskjöri Samfylkingarinnar vörðu að lágmarki 10-12 milljónum króna samtals í þann slag - sem er fáránlegur kostnaður í innanfélagskosningu. Þá mátti heyra dylgjur um óhófleg framlög sem settu skugga á lýðræðislegt val. Í aðdraganda borgarstjórnarkosninga sást enn betur hvernig hlutir fara úr böndum. Ég tók þátt í prófkjöri og fylgdist með hvernig keppinautar um fyrsta sæti hjá Sjálfstæðisflokknum fóru að. Virðist mér líklegt að hvor um sig hafi varið nær 20 milljónum króna í prófkjörið. 40 milljónum samtals. Ég hygg að þeir tveir framsóknarmenn sem kepptu um fyrsta sætið hafi varið að lágmarki 15 mkr. samtals í sitt prófkjör, vægilega reiknað. Sjálfur keppti ég ásamt tveimur öðrum um efsta sæti Samfylkingar. Kostnaður minn var á bilinu 5-6 milljónir króna, hinir tveir hafa aldrei komist af með minna, svo samtals má ætla að við höfum varið að lágmarki 18-20 milljónum króna í þá baráttu. Samtalan fyrir þessa sjö einstaklinga sem kepptu um efstu sætin í þremur flokkum er út í hött: hið lægsta 50-60 milljónir króna, líklega nær 80. Þá er ótalinn kostnaður hinna sem stefndu á lægri sæti. Prófkjör flokkanna þriggja hafa því líklega kostað frambjóðendur langt í 100 milljónir króna.


Engin opinber framlög til sveitarstjórnarkosninga


Þetta sama fólk varð nú að hefja fjársöfnun fyrir flokkinn sinn fyrir kosningar. Allir vita að árangur í söfnun fyrir flokka fer eftir því að framjóðendur ofarlega á lista hafi samband við rétta fjármálafólkið. Engin opinber framlög fást til sveitarstjórnarkosninga. Ég tel mig ekki rjúfa trúnað þótt ég ætli að kostnaður míns flokks hafi ekki verið undir 50 milljónum króna. Sjálfstæðisflokkurinn gerði örugglega betur, ég skal vera kurteis og segja 60-70 milljónir króna. Framsóknarflokkurinn hefur ágæta reynslu af því að snúa töpuðu tafli í varnarsigur með fjáraustri, enn skal ég vera kurteis og áætla kostnað hans aðeins 40-50 milljónir króna. Vinstri grænir og Frjálslyndir eyddu greinilega minna fé, en varla sluppu þeir með minna en 35-40 milljónir króna samtals. Samtals eyddu því flokkarnir 180-210 milljónum króna í kosningabaráttuna ofan á næstum 100 milljóna króna prófkjör! Allt eru þetta ágiskanir, og skiptir ekki máli þótt einhver skekkja sé, tölurnar eru það stórar.


Breyting verður stjórnmálum til góðs


Ég var spurður að því í sjónvarpi fyrir prófkjörið sem ég tók þátt í hvort ég teldi mig skuldbundinn þeim sem legðu mér fé. Ég sagði efnislega að engin sú upphæð sem ég fengi væri svo stór að hún kæmist yfir þann siðferðisþröskuld sem ég setti sjálfum mér. Hvað á maður að segja? Auðvitað segir núverandi borgarstjóri það sama, og nýkjörinn formaður borgarráðs. Sjálfur hef ég oft tekið þátt í að safna fé til stjórnmálastarfs og man ekki eftir alvarlegri tilraun nokkurs til að innheimta greiða með fyrirgreiðslu. En því miður er ég sannfærður um að þess eru fjölmörg dæmi, þótt ég geti ekki sannað það. Það skiptir bara ekki máli. Hér skiptir meginmáli að þetta samband stjórnmála og viðskiptalífs er svo tortryggilegt fyrir allan almenning, að ég sem kjörinn fulltrúi get ekki orða bundist og hlýt að óska eftir breytingu á svo heiðarleiki minn og annarra verði ekki tortryggður. Mér finnst margir stjórnmálamenn gera of lítið úr þeirri hættu sem af þessu steðjar, en detta samt í þann pytt sjálfir þegar minnst varir að núa félögum sínum því um nasir að "óeðlileg tengsl" séu á ferðinni - þegar svo hentar. Hvað á þá almenningur að halda? Það versta, auðvitað.


Staða fyrirtækjanna


Ég held því ekki fram að "fjárplógsmenn" sitji um að kaupa sér stjórnmálamenn. Þeir fjármálamenn sem ég hef átt samskipti við reyna að setja sjálfum sér og fyrirtækjum sínum "almennar reglur" sem fela í sér "jafnræði" sem þeir búa til eftir atvikum. Í nútímalegu viðskiptaumhverfi vilja fyrirmenn viðskiptalífs ekki eiga sitt undir velvilja stjórnmálamanna, heldur réttum leikreglum. Ég skynja því sterkt að viðskiptalífið vilji helst losna undan þessum kaleik sem stjórnmálamenn rétta því. Mikill kostur væri að hlutafélög á markaði settu sjálfum sér opinberar reglur um framlög til stjórnmála.


Stjórnmálin ráða ekki við málið


Mér sýnist þetta vera eitt af þeim málum sem stjórnmálaflokkarnir ráða ekki við; það snertir þá sjálfa með svo mismunandi hætti hverju sinni. Í nígerískum fótbolta er dómurum heimilt að þiggja mútur svo fremi sem þeir láti þær ekki bitna á öðru liðnu! Við erum með sams konar ástand. Sumir halda því fram að betra sé að hafa engar reglur en reglur sem hægt sé að brjóta. Þetta eru klárlega falsrök, alveg eins og við takmörkum hraða á vegum þótt sumir aki of hratt. Ísland er eitt fárra landa sem ekki setja reglur um fjárreiður stjórnmálalífsins og stjórnmálaflokkar þurfa ekki að gefa upp hverjir styrkja þá. Í því efni getum við lært af öðrum þjóðum. En það er ekki nóg. Takist að koma böndum á kostnað batnar ástandið strax, því framlög ríkisins til stjórnmálaflokka hafa aukist talsvert á liðnum árum og eru nú allrífleg. Langstærstur hluti þessara framlaga fer í fáránlega dýra kosningabaráttu til Alþingis á fjögurra ára fresti, en væri betur varið í félagsstarf flokka. Jóhanna Sigurðardóttir hefur ásamt öðrum verið ötull flutningsmaður tillögu um úrbætur en alltaf strandar málið, því hér virðist gilda almennur vilji stjórnmálamanna um að farið sé með síaukið gjafafé til stjórnmála eins og mafíupeninga.


Tillögur


Það skásta sem við getum gert núna þegar kosningavetur fer í hönd er að flokkarnir sendi "sína bestu fulltrúa" (alls ekki frambjóðendur!) til að ræða hvort hægt sé að komast að samkomulagi um þak á kostnað við kosningabaráttuna. Við þurfum samstöðu til að rjúfa vítahringinn. Í byrjun er hægt að ná samkomulagi um mjög almennan ramma sem auðvelt er að fylgjast með hverjir halda, svo sem um fjölda og magn auglýsinga. Þetta eitt væri gott fyrsta skref. Ég tel enga von til þess að lausn náist fram nema allir flokkar standi að samkomulaginu, það verður þá að koma í ljós hverjr vilja láta brjóta á því að viðhalda núverandi ástandi.

Samtímis þarf að setjast niður með fulltrúum fjölmiðla. Sem gamall fréttamaður veit ég að þetta er viðkvæmt. Fjölmiðlar vilja ekki framselja dagskrárvald sitt til pólitískra fulltrúa, og það skil ég. Eigi að síður má ræða eins konar "jafnréttistryggingu" flokka og frambjóðenda þannig að flokkarnir viti fyrirfram að hverju þeir ganga í aðdraganda kosninga. Mér finnst líka að RÚV, sem hefur sérstökum skyldum að gegna, eigi að skapa rými fyrir pólitískan boðskap flokka í framboði, með ókeypis hólfum í dagskrá.
Innan hvers flokks er hægt að setja reglur um kostnað við umgjörð prófkjörs. Samfylkingin getur vel haft forgöngu um slíkt. Nú þegar við vitum að "stór og glæsileg prófkjör" (les: rándýr) búa ekki sjálfkrafa til góða niðurstöðu í kosningum ætti þetta að vera hægt. Þetta þurfa að vera almennar reglur, með sveigjanleika fyrir hvern og einn þar sem heiður og vegsemd væri að veði hjá einstökum frambjóðendum.
Ennfremur tel ég að innan hvers flokks megi setja reglur um það hvernig einstakir frambjóðendur og kjörnir fulltrúar fjármagna stjórnmálastarf sitt. En ef menn setja bara lokur tekjumegin hyglum við þeim sem fyrirfram eiga mesta peninga. Ef við setjum þak á kostnað gerum við hins vegar öllum tiltölulega jafnt undir höfði.


Eitt skref í einu


Við getum fikrað okkur hægt og bítandi að betra fyrirkomulagi. Komið böndum á kostnað, tryggt samkomulag um aðkomu framboða að fjölmiðlun, sett reglur innan flokka, frelsað kjörna fulltrúa úr fjárhagsviðjum vegna framboða. Markmiðið væri að tryggja sjálfstæði kjörinna fulltrúa, jafnræði framboða og flokka að tilteknu lágmarki, og koma á gagnsæi til að styrkja tiltrú okkar allra á lýðræðinu.
Höfundur er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.

Eftirmáli: Eftir á að hyggja hef ég verið of bláeygður um góðan vilja fyrirtækja sem styrkja flokka og stjórnmálamenn. 

-sjh

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is