Spilling Afrku?

Sögur af spilltum valdhöfum Afríkuríkja hafa löngum komið óorði á álfuna, alls konar Bókassar og Múbassar vaðið uppi og sölsað undir sig heilu ríkin, blóðmjólkað í óhófslífi og skotið undan fúlgum fjár í skattaskjól. Skattborgarar þessara landa vita að þeim er ætlað að greina ,,lánin” sem þjófarnir tóku. En spilling birtist því miður ekki bara í formi svona stórþjófa. Hún er lúmskari en svo.

Ímyndað land

Ímyndum okkur lítið land í Afríku sem fékk sjálfstæði eftir síðari heimstyrkjöld.

Landið heitir Einangrun (Isolation). Lýðræðishefð var lítil en persónupólitík alls konar höfðingja ráðandi þótt látið væri heita að ,,stjórnmálaflokkar” keppust um völdin. Lýðveldið var svo óheppið að lenda strax í kapphlaupi risaveldanna og fékk útlenda herstöð í vöggugjöf.

Um veru þessa erlenda hers var hægt að þræta endalaust og því fátt um gagnlega hluti talað meðan landinu lá á að þróast. Það sem verra var, lýðveldið unga svalg í sig herstöðvagróða gegnum klíkur. Tveir ráðandi flokkar undir sterku höfðingjaveldi skipulögðu einokunarfyrirtæki fyrir vildarvini og sáu til þess að enginn græddi á hernum nema nokkrar forríkar fjölskyldur. Þær studdu flokkana að launum. Sama fyrirkomulagi var komið á við olíuverslun og margs konar gróðavænlegan innflutning sem háður var haftastjórn.

Á þessum frumvaxtarárum var óðaverðbólga. Bönkum var stýrt af ríkisvaldinu með þeim hætti að sparnaðar almennings brann upp meðan bandamenn í pólitíska kerfinu fengu niðurgreitt fé. Þar voru allir ,,stjórnmálaflokkarnir” í samansúrruðu klíkuveldi. Höfðingjum kom vel saman í bankaráðum.

Einangrun lenti í því sama og mörg önnur smáríki sem eiga eina mikilvæga auðlind: Hagkerfið stóð bara á einum fæti. Mörg lönd hafa lent í svona klemmu, sem er merkileg þversögn, að ein mikilvæg náttúruauðlind veldur í raun þróunartjóni fyrir hagkerfið í heild. Skiptir ekki máli hvort um er að ræða olíu, kopar, eða fisk ef menn vanda sig ekki.

Fræðimenn hafa sýnt fram á að þetta leiði ekki bara til hagstjórnarvanda, heldur pólitískrar spillingar. Rentan af auðlindinni er fljótasta leiðin til auðs meðal landsmanna. Ungir frumkvöðlar og athafnafólk sá að besta leiðin til auðs og valda var í gegnum flokkakerfið og með því að fá aðgang að ódýru fjármagni til að kaupa sig inn í auðlindina. Þannig gat það gerst að fólk fékk meira en 100% lán til að fjárfesta í vinnslutækjum, meðan aðrar atvinnugreinar áttu í vök að verjast. Framtak, sköpun og dugnaður fór í að koma sér fyrir í spillingarkerfinu en ekki í uppbyggingarkerfinu. Þeir einir komust að kjötkötlum sem seldu sálu sína undir höfðingjaveldið.

Einangrun varð því misþroska efnahagslega og pólitískt. Að lokum fór svo í Einangrun að mikilvægasta auðlind ríkisins var einkavædd handa þeim sem áður höfðu tryggt sér aðgang að henni gegnum Kerfið. ,,Kerfið” var í hugum landsmanna jafn alræmt og aðrar efnahagsmafíur og stundum kallað ,,Flokkurinn” þótt ætti að heita að flokkarnir væru margir.

Það var algegnt í Afríku að auðlindir færðust undir einræði eða klíkuveldi, og síðan undir ,,einkaframtak” án þess að þjóðin sjálf fengi gjald af. Lesa má hroðalegar lýsingar af svona arðráni í Afríku og mörgum blöskrað. Íslendingar voru svo heppnir að fiskurinn í sjónum er lagalega skilgreind ,,sameign þjóðarinnar”.

Ólán á ólán ofan

Verra tók við í Einangrun. Bankakerfið var fært úr ríkiseign í klíkueign með svokölluðum ,,einkavæðingaráformum”. Pólitískir vildarvinir ráðandi flokka (sem furðulegt nokk, voru sömu flokkarnir og skiptu með sér hermanginu og auðlindinni) fengu bankanna gefna. Fræðimenn hafa fjallað um þetta land.

Menn reyna nú að átta sig á er hvernig svona vanþróað ríki getur komist á lappirnar. Menn sjá í fréttatímum alþjóðlegra gervihnattastöðva að eldar loga við þinghúsið og múgur gerir aðsúg að lífvörðum ráðamanna; Einangrun er eins og hvert annað Sierra Leóne eða Kongó. Margir óttast að endurreisn sé ómöguleg því í embættismannaveldi og í ,,stjórnmálaflokkum” sé samtrygging fyrir því að breyta ekki fornum háttum. Ríki sem veita þróunaraðstoð velta því alvarlega fyrir sér hvort upp á þetta land sé púkkandi enda kemur það óorði á Afríku.

Á þessu vori horfa menn með nokkurri von um að í tveimur Afríkuríkjum verði stigin veikburða spor í átt til lýðræðisvæðingar: Í Suður-Afríku þar sem verða forsetakosningar og í Malaví. Í báðum löndum á lýðræði innan við 20 ára sögu. Í Einangrun er enn einn kosningabaráttan hafin: “Gerum nafn landsins að kjörorði þess” segja þeir sem vilja loka landinu fyrir utanaðkomandi áhrifum svo ekkert breytist. Sem betur fer dettur engum í hug að gera nafn Íslands að kjörorði enda yrði þá allt botnfrosið, bæði hagkerfi og pólitík. Já, það er margt bölið í henni Afríku.

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is