Hrun markaa, hrun hugmyndafriVerðið fyrir að bjarga bandaríska fjármálakerfinu var fyrst áætlað 900 milljarðar dollara, sem samsvarar allri þróunaraðstoð við fátæku löndin í nær áratug. Síðan hækkaði það nær tvöfalt og þá átti eftir að bjarga stóru bílafyrirtækjunum.  En hrunadansinn á Wall Street er ekki bara gjaldþrot banka og fjárfestingasjóða, heldur endanlegt gjaldþrot hugmyndafræðinnar á bak við. Þegar George W. Bush stendur frammi fyrir heimsbyggðinni og tilkynnir að tími ríkisafskipta sé kominn, og fjármálaráðherrann og seðlabankastjórinn sitja sólarhringum saman yfir þjóðnýtingaráforum og ríkisyfirtökum má segja að nýfrjálshyggjan sé endanlega kvödd. Sé einhvers staðar pláss á himnum fyrir hagfræðinga má telja víst að þar sitji nú sá gamli refur Keynes og hlæi dátt; sá sem bjargaði auðvaldskerfinu úr heimskreppunni 1929 með því að útskýra það sem allir hafa síðan vitað: Að markaðurinn réttir sig ekki af sjálfur, að kreppur eru kerfisvilla í forriti kapítalismans.Alvara lífs og dauða

Wall Street er í göngufæri við aðalstöðvar Sameinuðu þjóðanna þar sem 100 leiðtogar heims komu saman í september 2008 til að ræða hvernig miði í átt til Þúsaldarmarkmiðanna fyrir fátæka fólkið í heiminum. Framlög til fátækustu ríkjanna hafa minnkað tvö síðastliðin ár og munar nú 31 milljarði dollara á fyrirheitum og framlögum. Einhvern tíman hefði það þótt há upphæð, en til samanburðar er hún 4% af ætluðum kostnaði Bandaríkjastjórnar við að kaupa upp spilliefni í hirslum húsnæðislánasjóða og afleiddum bréfum. Í Afríku sunnanverðri hefur fátækum fjölgað síðan Þúsaldarmarkmiðin voru sett. Örfá ríki heims hafa staðið við loforð um 0.7% af þjóðarframleiðslu til þróunarmála, flest eru með minna en helming af því. Þúsaldarmarkmiðin voru 130 árum á eftir áætlun fyrir Októberkreppuna.

Gjaldþrot hugmyndafræði

Víðtæk þjóðnýting og ríkisafskipti af markaðnum horfa undarlega við frá sjónarhóli í Afríku. Alþjóða gjaldeyrirsjóðurinn (sem lýtur forræði Bandaríkjanna) hefur hingað til skilyrt aðstoð á forsendum harðar markaðshyggju og Alþjóðabankinn ekki verið langt undan. Sósíalísk úrræði eins og nú er gripið til í háborgum kapítalismans hafa verið bannorð. Einkavæðing og markaðsvæðing hvað sem það kostar hefur verið trúboð sem gaf hugtakinu um hnattvæðingu óverðskuldað óorð. Þetta er prýðilega gegnumlýst í lykilbókum nóbelsverðlaunahafans Joseph Stiglitz þar sem hann gagnrýnir,,hugarfar” (mind set) alþjóðastofnana, sem hafi gengið þvert gegn bæði hagfræðilegum staðreyndum og lifandi raunveruleika í þróunarlöndunum. (Sjá ritgerð um bækurnar Globalization and its discontents, og Making Globalization Work). Matvælakreppan sem hrjáir heimsbyggðina er að hluta vegna þess að ,,færustu sérfræðingar” sögðu fátæku löndunum að hverfa frá heðbundnum landbúnaði og snúa sér að ,,útflutningi”án þess að sjá fyrir endan á því dæmi. Þróunarlöndin sem burðast við að framleiða til sölu á heimsmarkaði eiga að taka ,,hugarfarið” um markaðsvæðingu hrátt upp meðan þau etja kappi við stórlega niðurgreidd og ríkisstyrkt matvæli á Vesturlöndum. Evrópusambandið niðurgreiðir landbúnað árlega sem nemur helmingi allrar þróunaraðstoðar í heiminum. Nýlega lauk án árangurs tilraun til að setja nýjar leikreglur um heimsviðskipti (kennd við Doha); enda var þeim ætlað að rétta hlut þróunarlanda.  Alþjóða bankinn telur að tveir milljarðar manna hafi minna en 2 dollara á dag til framfærslu, það er svipuð upphæð og hver kú fær í niðurgreiðslur í ESB.


Gjöreyðingarvopn


,,Færstu sérfræðingar” voru auðvitað þeir sem hönnuðu gangvirkið sem nú skekur heimsbyggðina með hruni sínu. Var reyndar fyrirséð. Sá frægi fjárfestir Warren Buffet skrifaði árið 2002 að afleiðuviðskiptin, skuldabréfavafningarnir frægu sem nú kallast ,,eitur” væru í raun ,,fjármálaleg gereyðingarvopn”. (Financial weapons of mass destruction). Það reyndist rétt, gereyðingarvopnin sem fundust ekki í Írak voru heima á Wall Street. Auðvaldið er ekki bara hættulegt sjálfu sér, heldur öllum.

Sósíalismi andskotans

Einkavæðing gróða og þjóðnýting tapsins er réttnefndur sósíalismi andskotans. Með þeirri sýnikennslu í slíkum sósíalisma, sem nú fer fram í ríku löndunum, og boðað er að eigi að ,,hnattvæða” hljóta viðvörunarbjöllur að hringja. Forsjárhyggjumenn um allan heim fá vatn í munninn. Það væri ömurleg niðurstaða markaðskreppunar og gríðarlegur kostnaðarauki fyrir skattborgara ofan á allt annað ef nú tæki við alræði ríkisafskiptasinna, sem alltaf hafna markaðslausnum í krafti eigin ágætis. Þeir bólgna nú í ásökunum um að ,,græðgi” kapítalista hafi komið okkur í kreppuna. Það er rangt; græðgi er ekki meiri í heiminum nú en áður. Ekki er hægt að ætlast til þess að kapítalistar kunni fótum sínum forráð, það kennir sagan.  En stóra bágbiljan er hrunin, um að markaðir rétti sig af sjálfir, að áhætta og umbun fylgist að. Litli maðurinn heitir nú ,,lánveitandi til þrautarvara”. Aðhald hefur skort í kerfi sem er ekki bara óréttlátt heldur líka stórhættulegt, og þar er stjórnmálamönnum um að kenna. Kreppan á markaðnum endurspeglar því hugmyndafræðilega kreppu og stjórnmálalegt gjaldþrot – líka þeirra sem gáfust upp fyrir ásókn frjálshyggjunnar. Hver eru nú þeirra ráð? Þegar Keynes og Roosevelt komu Bandaríkjunum út úr kreppunni stóru var það með ,,New Deal” stefnunni sem byggðist á félagslegri ábyrgð, jafnaðarstefnu og hagstjórnarlegri skynsemi. Á íslensku mætti kalla það þjóðarsátt.

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is