Dagbkur fr Afrku: gst- sept. 2008
Pólitískt umrót. Þetta er það sem blasir við í sunnanverðri Afríku þessi misserin og verður áleitin hugsun þegar fyrstu þingkosningar í 16 ár fara fram í  Angóla. En það er von að hlutir eins og lýðræði geti dregist á langinn. Eftir að hafa fengið sjálfstæði frá Portúgal 1975 tók við blóðug borgarastyrjöld sem lauk í reynd ekki fyrr en 2002. Núverandi forseti hefur setið lengur en sjálfur Mugabe í Zimbabwe, nær 30, ár og ætlar að sækjast eftir kjöri enn á næsta ári!

MPLA og UNITA. Þessar skammstafanir lærði maður í fréttatímum æskunnar þegar þær börðust fyrir sjálfstæði nýlendunnar, sú fyrri undir verndarvæng Kastrós í Kalda stríðinu, og hin með fulltingi þriðju skammstöfunarinnar: CIA. Enn eru þessar tvær fylkingar andspænis hvor annari, en MPLA vann stórsigur og hvað sem UNITA talar um slæma framkvæmd kosninga hefur hún fallist á niðurstöður. Enda segja erlendir fulltrúar að kosning hafi farið þolanlega fram og loks er eitthvað í augsýn í landinu sem gæti kallast lýðræði. Á meðan streymir olían úr iðrum jarðar og Angóla fyllist af öllum sem munar í svarta gullið og borga vel fyrir.  Kínverjar og Versturlönd í sömu biðröð.  Landið stendur ekki bara frammi fyrir þeirri áskorun að efla lýðræði, heldur koma olíugróðanum út til fólksins sem býr við eymdarkjör í byggðum sem enn bera merki styrjaldar.

Afríka hefur nefnilega ekki enn bitið úr nálinni með nýlendutímann. 

Angóla er núna loksins að feta sig úr fjötrum fortíðar. Í Simbabwe situr Mugabe enn þrátt fyrir að hafa tapað kosningum í vor og ræðuhöldin snúast um Breta, Harold Wilson sem var forsætisráðherra 1960 og eitthvað - og kúgun hvíta mannsins. Gamla frelsishetjan ætlar ekki að gleyma vopnaðri baráttu, fangelsisvist og áþján og skuldar engum neitt. Bæði í Simbabwe og Keníu virðast stjórnvöld ætla að komast upp með að sitja hvað sem líður úrslitum kosninga og mynda ,,þjóðstjórn” með hinum raunverulegu sigurvegurum sem hafa bara um tvennt það velja: Málamiðlun með afarkostum eða blóðbað.  það verður áhugavert að sjá hvernig ,,þjóðstjórn" í Simbabwe tekst að virkja krafta þeirra sem hafa verið svarnir óvinir.  11 milljón prósent verðbólga er næsta verk.

Það var því sjónarsviptir af forseta Sambíu sem lést á dögunum, talinn einn fremsti leiðtogi meðal Afríkustjórnmálamanna og sannur í því að betrubæta stjórnkerfi heima og erlendis. En festan í betrumbótum er varla haldbetri en sú að menn óttast um framtíð stjórnmála í landinu að honum gengnum.  Sambía ásamt Botswana hafa náð að þróast hratt í átt til betri stjórnarhátta, sem sýnir að ekkert er ómögulegt, þótt grannríki séu misvel á vegi stödd. Í sjálfri Suður Afríku bíða menn milli vonar og ótta um hvað gerast kann þegar Zuma, formaður Þjóðarráðsins (ANC), og forsetinn, Mbeki, leiða saman hesta sína í átökum um völd; báðir í sama flokki – de facto eina flokki Suður Afríku. Í Malaví verður kosið til þings og forseta á næsta ári, en liðinn misseri hafa sökkt hinu nýborna þingræði landsins í kviksyndi deilna og þráteflis.

Í þessum löndum er lýðræði og fjölflokka þingræði á brauðfótum og ekki erfitt að átta sig á hvers vegna: Arfleifð nýlendutímans lifir enn meðal forystumanna fólksins.

Lítum á staðreyndir:

Angóla: Fékk sjálfstæði 1975, en friður komst á fyrir sex árum. Þeir sem börðust til valda með vopnum eru þar enn og mótaðir af.
Simbabwe: Mugabe forseti lifir enn í þeim tíma þegar hann barðist við Breta með eigin höndum og stór hluti þjóðarinnar lifði þá tíma með honum. 28 ár á valdastóli breyta engu um að rætur hans liggja í blóði drifinni slóð, þar sem hann hafði réttlætið með sér.
Namibía: Síðasta nýlendan, fékk sjálfstæði 1990, fyrir tæpum 20 árum.   Ríkjandi flokkur er sjálfstæðis- og skæruliðahreyfingin SWPO sem með réttu gerir tilkall til að vera frelsishreyfing landsins. Forystumenn voru hertir í eldi stríðs og lifa stöðugt í þeirri minningu.
Suður-Afríka: Oki hvíta mannsins með skilnaðarhreyfingu hvítra og svarta var loks hrundið fyrir 14 árum. ANC gerir siðferðislegt tilkall til valda á sögulegum forsendum og er ráðandi þar eins og MPLA í Angóla, SWAPO í Namibíu og FRELIMO í Mósambik.  Í landinu býr þjóð sem fékk uppeldi og menntun í samræmi við kúgun hvítra; forystumenn landsins mótuðust í þeim eldi.
Mosambik: Rifið sundur, fyrst í sjálfstæðisbaráttu og svo í borgarastyrjöld í beinu framhaldi, ófriði lauk loks 1992.
Malaví: Braust undan áratuga einræði 1994 og hefur síðan leitast við að finna sér fjöl í því sem kallast fjölflokka þingræði. Mjög spennuþrungnir tímar fara í hönd.

Öll þessi lönd hafa því haft aðeins einn til tvo áratugi til að jafna sig af eftirköstum nýlendustefnunnar og komast til þroska sem lýðræðisþjóðir. En ekki nóg með það. Hvarvetna getur að líta í forystu þá sem markaðir eru af áþján nýlendu- og skilnaðarstefnu og mótuðust í stríði.  Eru þeir bestir til að stjórna friðinum sem sigruðu í ófriðinum? Lýðræði og þingræði í þessum löndum er enn á táningsaldri.  Væru þessi ríki einstaklingar á Íslandi stæðu þau á þröskuldi þess að fá kosningarétt.  Það er því von að á ýmsu gangi meðan alþýða fólks þarf á öllu öðru að halda en áframhaldandi deilum.

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is