Dagbkur fr Afrku: jn-jl 2008

17.júní í Afríku


Þessa dagana stendur yfir héraðsmót í fótbolta sem kallast Evrópumeistarakeppni – héraðsmót vegna þess að í samanburði við Afríku er Vestur-Evrópa bara skagi. Stendur ekki úr hnefa nema bæta Rússlandi við. Hvers vegna þennan samanburð? Bara til að muna að þegar við tölum um ,,Afríku” er átt við risastóra álfu sem spannar jafn ólíka menningarheima og Marókkó í norðri, Guineu Bissá í vestri, og Malaví í suðri. Og allt þar á milli. En þetta gleymist þegar fréttir berast frá kosningaklúðri í Simbabwe og ,,Afríka” ræður ekki við neitt.Varla myndu Íslendingar taka sökina af einhverju klúðri í Svartfjallalandi? ,,Evrópa” ræður ekki við neitt?

En Simbabve gefur ekki góða mynd af Afríku. Augu Evrópu hvarfla þangað í leikhléi á mótinu stóra, en hér sunnar þarf meira til en vítaspyrnukeppni til að missa sjónar á því ógnarástandi sem þar ríkir. Því miður fyrir Afríku. Því hún þarf frekar á öðru að halda.

Svo sem hjálp til Sómalíu. Ég var í Sómalíu 1991, sama ár og endanlegt hrun varð í landinu og stríðsherrar tóku við. Búið var að hreinsa öll hús í Mogadishu, stela eldhústækjum og raða upp á flugbraut til að selja í nágrannaríkjum: eldavélum, ísskápum. Nú eru næstum 20 ár síðan og alltaf versnar ástandið. Hungursneyð og 14 milljónir manna eiga á hættu að veslast upp. Í Eþíópíu er líka hungursneyð. Horn Afríku er enn einu sinni komið í fréttir vegna barna með tóma en útblásna maga.

Í daglegu lífi hér í Malaví eru raunir ekki jafn stórar. Uppskera var þokkaleg og menn vonast eftir að nægi til að brauðfæða landslýð. Það er undarlegt að vera í landi þar sem allir uppvaxnir landsmenn hafa kynnst hungursneyð einu sinni eða tvisvar á ævinni. Fimmta hvert barn tekur ekki út fullan vöxt vegna vannæringar. Nú rigndi vel og uppskera verður í lagi í flestum héruðum. En þá kemur böl að utan. Garðyrkjumaðurinn minn segir að poki af áburði hafi kostað 2000 kr. í fyrra en nú sé verð 5000. Hann má ekki við slíku. Bensín fór upp um 25% í júní, bara í júní, en vinur minn sleppur því hann hjólar. Matur hefur hækkað um 50-80 % á einu ári. Það er víðar órói á launamarkaði en Íslandi.

Starf okkar á Þróunarsamvinnustofnun snertir fólk í daglegu lífi vegna þess að við vinnum úti á mörkinni, en minna í ,,ramma fjárlaga”. Á sjúkrahúsinu sem Ísland byggði stendur til að hefja skurðaðgerðir í fyrsta sinn.

Félagsmiðstöð rís við Apaflóa. Bora á 30 holur eftir vatni á árinu og gera fjölda brunna. Leshringir í fullorðinsfræðslu verða 90 á árinu. Við byggjum skóla og tilraunaveiðar með ný veiðarfæri á vatninu eru hafnar. Ekkert af þessu er einfalt eða segir sig sjálft. Ekki frekar en vítaspyrnukeppni eða kosningar sem klúðrast. Bara eins og lífið sjálft, margbreytilegt og flókið, oft skemmtilegt þótt oftar sé það erfitt hér í álfu og einkum fyrir þá sem minnst hafa.

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is