Dagbkur: Febrar 2008
Dagbækur frá Afríku: febrúar 2008


Þegar ég yfirgaf Malaví eftir stutta ferð voru 70 þúsund manns á flótta undan flóðum Zambesi árinnar; við ósa hennar í Mózambik höfðu hundruð þúsunda verið á vergangi vikum saman; ég fór beint norður í Namibíu og þar var allt á floti. Nú er regntíminn í suðurhluta Afríku. Simbabve og Zambía á kafi í vatni vikum saman og það vatn rennur til sjávar í Indlandshafið með tilheyrandi látum. Norður í Namibíu hafði ekki komið dropi úr lofti frá því að ,,regntíminn” hófst í nóvember /desember, og allt að farast úr þurrki. Síðan datt á steypiregn í fjóra sólarhringa samfleytt og skepnur og hús flutu upp, vegir í sundur og rafmagn af; fólk man ekki annað eins. Ekki nóg með það: Rétt norðan við landamærin, í Angólu, voru miklar rigningar og þær skiluðu sér með ám inn í norðurhluta Namibíu og bættu gráu ofan á svart.

Tveir þriðju hlutar íbúa allrar Afríku búa við einhvers konar sjálfsþurftarbúskap. Það þýðir að fólk ræktar það sem þarf frá höndinni til munnsins, í góðum árum er stundum afgangur til næsta árs, en eins og þetta hefur gengið undanfarin ár leyfir ekki af því. Þessi óstöðuga þurrka- og regntíð leiðir af sér óvissu um afkomu. Fyrst veikjast dýrin í þurrkum, svo koma flóðin og þá loksins deyja þau alveg. Ég hitti bónda sem misst hafði 59 kýr af 62.

Stærsti hluti Afríkubúa býr einmitt við svona skilyrði, þar sem engu má muna.

Ég þreytist seint á að dást að fjölbreyttu mannlífi hér í álfu. Vesturlönd eru eins og samfelld verslunarkeðja með örlítið breytilegum vörumerkjum og blæbrigðamun á útliti. Miðborgir austan hafs og vestan eru undirlagðar af Starbucks, MacDonalds og Kentucky fried – og þó ég vilji ekki mótmæla þeim þægindum sem hafa má af þegar tryggja þarf standard á óhollustu þá má ganga of langt í einsleitni. Hér ráða skapandi nafngiftir í viðskiptalífinu og fæstir eiga meira en eina búðarholu eða stall til að reka í sinn bisness. Tíska kemur vissulega við sögu og sumar dömurnar láta ekki bjóða sér annað en mjaðmakeppina uppúr níðþröngum gallabuxum – en fráleitt allar. Aðrar klæðast risavöxnum kjólum Herero-kvenna, eða ganga hálfnaktar eins og Himbakonurnar; nú eða bara á þessu litríku blómum skrýddu vafningum uppúr og niðurúr, en punkturinn er sá að fjölbreytni ræður. Hér er enginn einvaldur um klæðnað. Og þótt töffarar vilji skáhallandi derhúfu eru aðrir sem breyta útaf. Ég festi mannlíf í norðlenskum smábæjum á minniskubb og sýni á vefnum.

Í þróunarmálum okkar telst til tíðinda að sú ágæta kennslukona, Júlía Hreinsdóttir, er komin norður til að halda þriggja mánaða námskeið í táknmálskennslu fyrir heyrnarlausa. Hún er besta fordæmi sem hægt er að hugsa sér: Heyrnarlaus sjálf en býr ein langt úti á landi og rekur námskeið af myndugleik. Auðvitað erum við í samstarfi við marga heimamenn og sumir þeirra hreint frábærir, ósérhlífnin, krafturinn og hugsjónamennskan geislar af þeim. Skoðið myndirnar frá Eluwa skólanum fyrir heyrnarlausa og sjáið hve börnin eru glöð og sterk, kennslukonurnar glæsilegar og andinn sem stafar af þessu fólki sem vinnur við erfið skilyrði einkar hvetjandi fyrir alla sem efast um gagnsemi þess að hjálpa þeim sem eiga undir högg að sækja.

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is