Verleikar ri
UM það ættu menn að vera sammála að verðleikar ráði stöðuveitingum hjá því opinbera. Því þarf bara að svara einni spurningu: Hvaða aðferð er best til að tryggja að hæfasti umsækjandi sé alltaf ráðinn? Útgangspunkturinn er að velja beri þann hæfasta hverju sinni, ekki bara einhvern sem er hæfur að forminu til.

Þekktar aðferðir
Ég tel að hægt sé að reglubinda gott vinnulag sem leiðir til sáttar í framtíðinni. Í háskólum, einkarekstri og stjórnsýslu reyna menn að jafnaði að fá þann hæfasta og hafa til þess þróaðar leiðir. Þegar ég var formaður tveggja ráða Reykjavíkur settum við skýra forsögn um hvernig ætti að ráða forstöðumenn, var það í samræmi við venjur víðar hjá borginni þar sem ég þekki til, m.a. sem formaður borgarráðs.
Reglubinda má ferli í líkingu við þetta:

1) Starfsauglýsing skilgreinir formlegar kröfur og hvaða hlutverki viðkomandi gegnir, sem og hvaða kostum leitað er eftir. Auglýsing er stefnumótandi og verður að vanda.

2) Fá má ráðningarþjónustu, samkvæmt skriflegum samningi og forsögn. Hún vinsi úr þá sem ekki uppfylla formlegar kröfur, og velur þá sem koma helst til greina.

3) Síðan fari sérstök matsnefnd yfir tillögur. Stundum starfa matsnefndir samkvæmt lögum eða reglum, en þær ætti alltaf að nota um mikilvægar stöður. Matsnefnd fái skriflega forsögn áður en starf er auglýst. Hún sé skipuð a.m.k. þremur einstaklingum með ólíkan bakgrunn, og úrskurði ekki aðeins um hæfi, heldur hver sé hæfastur. Í undantekningartilfellum fái hún vikist undan að gera upp á milli. Nefndin skili skriflegri greinargerð með samanburði þeirra hæfustu, sem er opinbert gagn sé eftir leitað.

4) Stjórnvald hafi ráðningarvald. Gangi ákvörðun gegn einróma áliti matsnefndar þurfi að birta rökstuðning um leið og val er kynnt. Þar sé ekki bara upptalning á kostum þess sem er ráðinn heldur samanburður á þeim sem komu til álita.

5) Umsækjandi sem telur á sér brotið geti vísað málinu til t.d. umboðsmanns Alþingis. Telji hann að verðleikareglan hafi verið brotin komi bótaréttur. ,,Pólitísk ábyrgð“ felist í því að stjórnvaldi svíði skömmin heiftarlega.


Ruglað með álitamál
Oft er ruglað með álitamál sem alltaf eru við val á hæfasta umsækjanda. Taka þarf á þeim fyrirfram:
a) Það er bannað að mismuna eftir kynferði. Sumir segja að sé ,,kona í boði“ eigi að velja hana. Nei. Velja má eftir kynferði, en aðeins sem síðasta úrræði, þegar hæfustu umsækjendur teljast að öllu öðru leyti jafnvígir. Verðleikareglan mun gagnast konum best í jafnréttisbaráttu.

b) Menntunarkröfur eru oft óljósar, til dæmis ,,háskólapróf“. Þau eru mismerkileg. Skýra þarf menntunarkröfur vel því þær geta ekki verið algildar, eins og oft má ætla þegar prófgráða eða námsbraut er sögð eiga að ráða. Koma þarf fram í auglýsingu hvaða aðrir þættir vega jafnþungt.

c) Það að hafa unnið lengi hjá sömu stofnun og auglýsir eftir forstjóra jafngildir ekki ráðningarrétti. Utanaðkomandi sýn getur skipt meiru en innanbúðardvöl. Auk þess er algengt að fólk sé skipað ,,aðstoðar“ eða ,,staðgengill“ um tíma án auglýsingar til að tryggja ,,reynslu“ sem ekki megi ,,ganga framhjá“. Það er svindl.

d) Aldur er úrelt matstæki.

e) Óefnislegir kostir. Nauðsynlegt er að skoða óefnislega kosti: frumkvæði, sköpunargáfu, forystuhæfileika, framtíðarsýn, hæfni í mannlegum samskiptum. Það er ekki einfalt að leiða í ljós kosti einstaklings á þessum sviðum, en aðferðir til þess eru þróaðar. Vönduð ráðningarviðtöl eru ein leið, próf önnur.

f) Fagleg ráðning. Þetta hugtak er ofnotað og á að skiljast sem rök gegn ,,pólitík“. Til er fagkúgun sem felst í þröngu sjónarhorni og hagsmunagæslu. Því þarf stjórnvald að leggja skýrar línur fyrirfram um eftir hverju er leitað í fari forstöðumanns; jafnvel gefin færi á athugasemdum hagsmunaaðilja áður en auglýst er.

g) ,,Pólitísk“ ráðning. Hún er vond ef merkingin er sú að síður hæfur einstaklingur sé ráðinn fremur en sá hæfasti vegna vensla eða tengsla. Stefnumótandi ráðning á hins vegar rétt á sér, og er þar af leiðandi pólitísk, að því er varðar störf og framtíðarsýn. Hér ber stjórnvald þá skyldu að kynna hvert sé stefnt með ráðningu. Slík sýn skal birtast í auglýsingu og forsögn matsnefndar fyrirfram, en ekki fundin upp til að bera af sér spjót síðar. Það er hlutverk kjörinna fulltrúa og embættismanna að skilgreina þarfir við mannaráðningar út frá stefnumótun og framtíðarsýn og sjá til þess að þær séu uppfylltar. Um dómara gildir að sjálfsögðu sú heilbrigða sýn að skilja beri að framkvæmdavald og dómstóla og undirstrika sjálfstæði dómara í veitingaferlinu.


Verðleikar setja valdi skorður
Almenningur á rétt á því að verðleikareglan gildi því hún setur valdbeitingu skorður. Verið getur að einstakir valdamenn vilji ekki una slíku. Það getur þó ekki gilt um þá ,,frjálslyndu umbótastjórn“ sem nú situr. Allir eiga skilið að verðleikar ráði: Almennir borgarar, og ekkert síður þeir sem eru svo óheppnir að eiga vini í æðstu stöðum.

Fyrst í Mbl. jan 2008.

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is