Er hjarta Samfylkingarinnar

Viðtal í Blaðinu febrúar 2006 í undanfara kosninga. 

Valdir kaflar:


Hvar staðseturðu þig innan Samfylkingarinnar?

Ef við lítum á Samfylkinguna sem líkama þá myndi ég segja að ég stæði í hjarta Samfylkingarinnar. Ég var með í undirbúningi fyrir stofnun Samfylkingarinnar, Samfylkingin var fyrsti stjórnmálaflokkur sem ég gekk í og ég gerði það á stofnfundinum og var síðan kosinn formaður framkvæmdastjórnar. Það var draumur margra að stofna flokk til þess að fólk eins og Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B. Eggertsson og þúsundir annarra myndu ganga til liðs við okkur og sá draumur hefur ræst. Ég er mjög stoltur af því að hafa tekið þátt í þessu frá upphafi. Í þessu pólitíska litrófi þá er ég frjálslyndur jafnaðarmaður, ég hef mjög mikinn áhuga á atvinnulífi og sköpun góðra starfa. Menntun og skólamálin standa mér hins vegar mjög nærri, þau eru kjarninn í efnahagsstefnu nútímans. Við viljum búa til þjóðfélag sem býður upp á jöfn tækifæri og þar er menntunin lykilatriði. Síðan er mér mjög annt um umhverfið og náttúruna, eins og menn vita. Ég er með þessar þrjár stoðir í minni pólitísku hugsjón: menntunin, frjótt atvinnulíf og umhverfið. Þessar þrjár meginstoðir eru mikilvægastar og þurfa allar að vera samtvinnaðar.“

Hefur Samfylkingin staðir undir þeim væntingum sem upphaflega voru gerðar til flokksins?

„Það tók lengri tíma heldur en margir trúðu og á þessum tíma héldum við að þetta gengi betur. Ég sé, eftir á að hyggja, að í raun og veru hefur þetta gengið ótrúlega vel. Ef litið er til baka þá voru fjórir litlir flokkar á vinstri vængnum fyrir einungis rúmum áratug og það var algjör óreiða og vantraust. Í dag hefur draumurinn um stóran jafnaðarflokk ræst. Þriðji hver maður sem gengur niður Laugaveg kýs Samfylkinguna og það er ævintýri líkast. Við höfum því ekki starfað til einskis heldur þvert á móti höfum við unnið glæsilegan sigur og breytt öllum forsendum í íslensku stjórnmálalífi.“ 

,,.. Ég hef unnið mikið við að byggja flokkinn upp og gera þennan draum að veruleika ásamt öðru góðu fólki og hef haldið því áfram út í gegn...Að mínu mati náði starf mitt og annarra fullum blóma á síðasta landsfundi sem haldinn var í maí. Mér fannst það stórkostlegur fundur og ég gat gengið út stoltur. Í mínum stjórnmálaskrifum og umræðu hef ég verið ...athafnasam(ur) á vettvangi landsmálanna og tengt borgarmálapólitíkina við umræðuna í landsmálunum... Almenningur þekkir mig frá fornu fari, ég hef verið lengi í opinberu lífi, ég hef látið til mín taka í svo mörgu".

Nú töldu margir að það hafi verið gengið fram hjá þér þegar Steinunn Valdís var valinn borgarstjóri. Ertu núna að sækjast eftir því sem er „réttilega“ þitt?

Hvað mótar þínar stjórnmálaskoðanir?

„Ég var fréttaritari og námsmaður í Bretlandi þegar Margaret Thatcher tók við. Ég var námsmaður í háskóla í Bandaríkjunum þegar Reagan tók við. Þessi tvö gerðu mig endanlega að frjálslyndum jafnaðarmanni með manngildishugsjón því ég sá hvað hin harða hægrimennska getur gert við gott samfélag. Hún getur grafið undan því. Við eigum í grunninn mjög gott samfélag hér á Íslandi sem byggir meðal annars á þessari manngildishugsjón sem ég hef í heiðri, maðurinn kemur fyrst og markaðurinn þar á eftir. Markaðurinn þjónar manninum. Við sjáum það núna að þegar ríkisstjórnin rekur ójafnaðastefnu þá byrjar samfélagið að liðast í sundur. Fyrstu teiknin voru í haust (2005) þegar við sáum að lágu launin í þessu allsnægtarþjóðfélagi voru orðin óbærileg og það gengur einfaldlega ekki. Við verðum að leyfa öllum að vera með. Við getum ekki látið nokkra hópa missa fótanna og á þann hátt að þeir geti ekki verið fullgildir þáttakendur í samfélaginu. Þá verður keðjuverkun sem stuðlar að því að samfélagið liðast í sundur.“

Saknarðu fjölmiðlanna?

„Nei, ég get nú ekki sagt að ég sakni þess en það var mjög gaman að starfa í fjölmiðlum. Ég fékk mjög dýrmæta reynslu, þekkingu á samfélaginu og stjórnmálum. Þetta var reynsla sem var mjög góð og nýtist mér afskaplega vel í starfi í dag vegna þess að í raun og veru snúast fjölmiðlastörfin og stjórnmálin um mannleg samskipti og eftir því sem maður fær meiri reynslu því dýpra innsæi fær maður. Ég held að innsæi og mannleg samskipti sé eiginleiki sem maður reynir að tileinka sér og maður er alltaf læra... Ég held að það sé mjög mikilvægt að forystumenn í stjórnmálum hafi skilning á því að þetta snýst um að öllum líði vel og séu öryggir saman í samfélagi. Hagvöxtur er nauðsynlegur en hann er ekki tilgangur lífsins. Tilgangur lífsins er að okkur líði öllum vel, séum örugg saman og að einstaklingar fái jöfn tækifæri til að blómstra. Mér finnst að stjórnmálamenn spyrji alltof sjaldan um tilgang þess sem við erum að gera, hvert er hið æðra markmið með því sem við erum að gera. Ég er orðinn lífsreyndur en ég kem alltaf að sama kjarna málsins aftur: Til hvers erum við að þessu striti? Ef við erum ekki hér til þess að okkur líði vel saman þá er ekki til neitt annað...


Hvað gerirðu í frítímanum?


„Ég hef mörg áhugamál og ekki mikinn tíma fyrir þau öll en ég veiði á sumrin. Ég veiði í Elliðavatni og fyrir norðan og austan. Ég á nokkra helgistaði sem ég fer á á hverju ári. Ég fæ kraftinn úr náttúrunni. Ég varð náttúruverndarsinni þegar ég byrjaði að veiða, þá kynntist ég fyrst því hvað náttúran er stór þáttur í grundvallareiginleikum mannsins. Maðurinn má ekki týna tengslunum við náttúruna. Ég reyni að tengja mig við náttúruna á hverjum degi, þó það sé ekki nema í fimm mínútur. Það er hægt með því að fara niður á Tjörn og horfa á endurnar, fara niður á Sæbraut og horfa á hafið eða stoppa í umferðinni og horfa á Esjuna. Ég fæ kraft og yfirvegun af því að hugsa og tengja mig við náttúruna. Veiðin byrjaði því sem veiði en er núna orðin sáluhjálp.“

Ertu vel giftur?

Já, ég er það. Ég og konan mín, Guðrún Kristín Sigurðardóttir, vorum saman í Menntaskólanum við Tjörnina. Ég vissi nú ekkert af henni fyrr en á útskriftarballinu þegar við kynntumst en við erum búin að vera saman síðan þá. Við höfum því þroskast saman. Við eigum ekki börn saman en ég lít ekki þannig á að ég eigi engin börn. Það eru svo mörg börn sem ég þekki, þykir vænt um og umgengst. Skemmtilegustu veiðitúrarnir sem ég fer í eru með litlum frænkum mínum. Eftir að ég varð formaður Menntaráðs þá eignaðist ég líka 15.000 grunnskólabörn og 6000 leikskólabörn þannig að mér hefur aldrei fundist ég vera barnlaus. En það er bara ein af staðreyndum lífsins að við eigum ekki börn en ég verð að segja að mér hefur alltaf fundist ég vera mikill gæfumaður í lífinu. Ég hef fengið að reyna svo ótrúlega margt og fjölbreytt. Ég hef fengið að njóta mín á svo margan hátt og er óendanlega þakklátur fyrir hvað ég hef fengið að lifa skemmtilegu lífi. Mér finnst stundum eins og guðirnir hafi gefið mér happdrættisvinning – hann er þetta líf sem ég hef fengið að njóta. Ég er mjög hamingjusamur og mjög þakklátur. Ég hef lifað góðu lífi og það fyllir mann miklum friði.“

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is