12.2.2011
Dagbækur frá Afríku: Jan-feb 2011


Hann er ekki þungur, hann er bróðir minn, var sungið eina tíð.

Hvern hefði grunað í upphafi árs 2011 að tvær byltingar yrðu gerðar í Afríku á fyrstu vikum ársins? Og fleiri að koma!  Helstu fréttir um áramótin voru af valdaráni á Fílabeinsströndinni. Gamli forsetinn neitaði að viðurkenna lögmætar kosningar sem alþjóðasamfélagið með SÞ í broddi fylkingar töldu hafa skilað andstæðingi hans sigri. Lögmætur forseti varð að hafast við á strandhóteli meðan sá gamli lét herinn verja sig, þetta þrátefli stendur enn meðan aldraðir Afríkuleiðtogar reyna að finna annan flöt á málinu en sá gamli sitji sem fastast.

Ekki í fyrsta sinn sem kosningar eru hundsaðar í álfunni heitu og skemmst að minnast þess sem gerðist í Zimbabawe þar sem talning atkvæða dróst vikum saman meðan hægt var að semja hagstæðari tölur fyrir sitjandi forseta, sem tókst á endanum að koma svo málum fyrir að ,,samráðsstjórn” tók við með hann sjálfan á forsetastóli áfram.

Forseti Fílabeinsstrandarinnar (sem sjálfur rændi völdum fyrir 10 árum) hefur áreiðanlega ekki misst af þeim lærdómi. En svo kom Túnis. Og svo Egyptaland. Aldraðir einræðisherrar voru hraktir af stóli með kröfum um lýðræðisbætur.

Og enn stórmerkilegur viðburður - í Súdan. Sunnlendingar í Súdan greiddu nánast allir sem einn atkvæði með því að stofna nýtt sjálfstætt ríki.  Allt í einu hafði gamla kortið sem nýlenduherrarnir bjuggu til fengið nýtt hólf með nýjum lit og nýjum fána. Ríkjum Afríku fjölgaði úr 53 í 54 og til varð eitt fátækasta land í heimi: Suður Súdan. Á fyrstu viku nýja ársins hafa blásið heitir lýðræðisvindar um sandöldur Sahara eyðimerkurinnar og nærsveitir, sunnar í álfunni horfa menn stóreygir á.

Og skothvellir byrjaðir að enduróma á öldum BBC í beinni frá Trípólí.  Getur verið að Ghaddafi sé á förum eftir 42 ár?

Líklegt er að stjórnarherrar víða um lönd hugsi sinn gang. Þessi fjöldvakning er ekki sprottinn úr engu, ekki úr tómarúmi nýfundinnar lýðræðisástar. Uppskerubrestur í Rússlandi í fyrra leiddi til stórhækkunar á hveitiverði og síðan á öðrum matvælum. Eldsneytisverð hefur rokið upp og fleiri lífsnauðsynjar eru nú miklu dýrari en fyrir nokkrum mánuðum.

Í fátækum löndum eru daglegar nauðþurftir stærstur hluti ,,neysluviðmiða”, sem á mannamáli þýðir að fátækt fólk þarf að kaupa mat og orku fyrir mestan hluta tekna sinna. Alltaf verður minna og minna eftir til hnífs og skeiðar þegar verðlag hækkar.  Atvinnuleysi er mælt í tugum prósentna í mörgum þessara landa og tækifærin fyrir ungt fólk eru engin.  Jafnvel eftir byltinguna í Túnis skall á flóðbylgja flóttamanna á ströndum þeirrar litlu eyjar sem kallast Lampedúsa og er hluti af Ítalíu.  ,,Við viljum komast til Evrópusambandsins" sögðu ungu vonlitlu flóttamennirnir.

En lýðræði þýðir ekki endilega breytingar: Í Úganda er gamli forsetinn Musaveni kosinn aftur eftir 25 ár á valdastóli og stefnir hratt í þriðja áratuginn.  ,,Merkilegt hvað það er heilsusamlegt að vera einsræðisherra" sagði eins samstarfskona mín um háan aldur þeirra sem aldrei vilja sleppa takinu.

Versnandi lífskjör í kjölfar fjármála- og matvæla kreppu.  Þetta sjáum við í heimalandi mínu, Malaví. Opinberar tölur um verðbólgu eru einn kapítuli, en raunverulegt verð á götumarkaðnum annar. Fólkið stynur. Ekki bætir úr skák að ríkið á varla fyrir eldsneyti, skortur hefur verið af og til í marga mánuði en nú erum við að sigla inn í mestu olíukreppu í manna minnum, bensínstöðvar tómar og ógnarlegar biðraðir þar sem einhvern dropa er að fá.

Orðið ,,skortstaða" fær nú nýja og skiljanlega merkingu: Í biðröðum.  Hagkerfið hjöktir í þessu fátæka landi og á svarta markaðnum fæst bensín fyrir þrefalt útsöluverð, sem þó er nýhækkað. Menn búa sig undir frekari vöruskort.

Sömu sögu má segja í ýmsum útgáfum hjá fátæku fólki í Afríku. Þetta er bakgrunnur uppþota í Túnis og Egyptalandi, og óróa víðar um Mið-Austurlönd. Það vantar vinnu, lifibrauð og lífsnauðsynjar – krafan um lýðræði kemur þegar ekki er hægt að skaffa það sem þarf til daglegs lífs.

Í þessu samhengi ræða menn mjög hlutverk nýmiðla.  Voru það Fésbók eða Twitter sem hrundu af stað byltingu í Egyptalandi?  Nýtæknin hjálpaði örugglega til við að skipuleggja mótmæli.  En einn helsti frömuður byltingarinnar í Egyptalandi sagði reyndar merkilega sögu:  ,,Þegar þeir lokuðu Fésbók fór byltingin fyrst af stað.  Þá vissum við að stjórnvöld voru skíthrædd og allt var mögulegt.  Þegar Fésbók var lokað urðum við að fara út á götur til að vita hvað var að gerast"!

Í Malaví voru það sendiherrar nokkurra ríkja sem komu saman til að mótmæla nýjum hegningarlögum þar sem kveðið er á um rétt ráðherra til að loka fjölmiðlum sem eru ekki nógu ,,ábyrgir".  Ísland skrifaði undir með Bretum, Bandaríkjamönnum, Þjóðverjum, Frökkum, Írum og Japönum.  ,,Óheillavænleg þróun" segir í yfirlýsingunni.

 

 

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is