Í heimalandi mínu, Malaví. eru slíkar ristur víða um land og eru á heimsminjaskrá UNESCO. En þetta eru vel varðveitt leyndarmál, mörg hundruð steinamyndir frá liðinni tíð sem fáir vita hvar er að finna. Landið hefur ekki efni á að varðveita og gæta myndanna, svo þær eru best geymdar þar sem fæstir vita um. En það er öllum opinbert í Mósambik að ,,frelsi" í símkortum hefur verið afnumið. Nú þarfað skrá alla farsíma á eigin nafn. Eftir óeirðir fyrr í haust (vor hér) berast böndin að ónafngreindum SMS sendendum sem smöluðu á mótmælafundi. Þessar steinaristur samtímans þurfa að vera öllum kunnar og höfundarnafnið ljóst í skjalasafni stjórnvalda svo nú geta mennn ekki keypt ,,frelsi" á götum úti, áfylling er á eigin kennitölu og allar sendingar rekjanlegar. Enda mikil menningarverðmæti á dögum hækkandi brauðverðs. Fátækt fólk í sveitum sem talar sitt gamla móðurmál þarf að strita við að læra að lesa á portúgölsku! En svo man maður að enska er ríkismál í Malaví, Namibíu, Botswana og Suður Afríku þótt í þeim löndum tali heimamenn önnur mál - og Swahili næst því að vera sameiginleg tunga. En enska er þó skárri hvað það varðar að nota má hana víðar um lönd en þessa undarlegu portúgölsku sem bara er töluð í afskekktri sveit í Vestur-Evrópu og svo í Brasilíu. Hvað er Mósambik að púkka upp á Portúgal og Brasilíu ef það er bara gert með harmkvælum? Fólkið í fullorðinnafræðslunni talar sitt heimamál, en þarf að læra að lesa á tungu nýlenduherranna. Hér háttar svo á sumrum að gróður er laufvana, jörðin sviðin og hörð, allt þurrt og skrælnað eftir ,,haustlitavor". Frá desember og fram í mars rignir svo hressilega nokkrum sinnum á dag og ef allt gengur eftir þjóta maísplönturnar úr jörðu til að fóðra 13 milljónir Malava sem eiga lifibrauðið undir því að þetta dæmi gangi upp. |
Tilboð |
Tilboðsverð: Afhending á Reykjavíkursvæði, kr. 4000
Sett í póst: 4500 ef pöntunin er út á land.
Sendið pöntun í pósti á stefanjon@islandia.is
Rafbókin fæst á forlagid.is
English version on Amazon and Itunes from May 1st 2024
Heimurinn eins og hann er í Sílfrinu Byrjar á 47. mínútu.
Ítarlegt viðtal Egils Helgasonar við höfund.
Rafbókin fæst á aðeins 2990! |
Bókin sem talað er um, á mannamótum og fjölmiðlum:
Egill Helgason í Silfrinu tók ítarviðtal
Kiljan, Þorgeir og Kolbrún: Frábær leiðsögumaður! Frá 6. mínútu.
Sverrir Norland Rás 1: Allur þátturinn Upp á nýtt.
Gunnar Smári: Rauða borðið: 90 mínútur, mest um bókina í síðari hluta.
Þórunn Elísabet, Morgunvaktin: eftir eina klst og 18 mínutur á mælinum.
Gísli Marteinn: Þáttur með góðum gestum.
Rafbókarkaupin eru einföld á síðu Forlagsins og þú færð hana beint í tölvu eða á lesbretti samstundis!
Hvers konar forseti? |
Haustið 2015 sendi ég út bréf á allstóran hóp fólks sem ég bað um að taka þátt í umræðu um hlutverk forseta Íslands, könnun þar að lútandi, um leið og ég kynnti Fésbókarsíðu um málið.
Spurt hefur verið um efni þessa bréfs sem var kynnt hér á síðunni samtímis.
Einkaritarafuglinn |
Hvers vegna hann heitir Einkaritarafuglinn (Secretary bird) er algjörlega vonlaust að ráða af útlitinu. En hann er háfættur og með ansi langt stél og vappar virðulega við andapollinn.
Hrísburður |
Orkugjafar landsmanna í Malaví eru einkum viður og kol. Aðeins 8% landsmanna hafa rafmagn en aðrir þurfa að bera eldivið eða hjóla með kol. Landeyðing er mikil og gróðurmold hverfur þegar skógarhögg gengur of nærri landinu. Konur og karlar bera þungar byrðar langa vegu til að eiga eld undir maísgraut kvöldsins.
Drjúg eru morgunverkin |
Morgun á Malavívatni. Bátarnir komnir út og það má heyra skvaldið í köllunum mörg hundruð metra í land í algleymislogni þegar sólin kemur upp. Ekkert truflar myndina nema fugl sem flýgur hjá.
Ungur maður á uppleið |
Ungur himbi frá norðurhéruðum Namibíu. Hárskurður og skraut segja til um þjóðfélagsstöðu himbanna og þessi ungi maður er rétt að verða fullorðinn. Hann er ókvæntur þvi hárgreiðslan og klippingin sýnir stöðu ungs piparsveins. Hann er hins vegar orðinn karlmaður og mun senn leita sér kvonfangs. Ungir menn á þessum aldrei ganga með svona hárskurð sem endar í langri sveigðri fléttu aftúr. Eða, þeir ganga með húfur með sama lagi, oft eru þær eins og bátar. Hann er ekki kominn með hinn þunga málmhring um hálsinn, en hann fá menn þegar þeir kvænast, og þá raka þeir sig alveg niður í hársvörð og ganga með kollhúfur eftir það. Þegar kemur að því að ungi maðurinn leitar sér eiginkonu munu konurnar (móðir eða frænkur) ganga á milli og spyrjast fyrir um þá sem hann hefur augastað á. Takist samningar þarf hann að gefa föður hennar fagurhyrnt naut með hala sem nær til jarðar, og tvær mjólkandi kvígur með. Komist hann í álnir getur hann leitað sér fleiri kvenna og haft þær allt upp í sex. Himbar telja auð sinn í barnafjölda og nautgripum.
Gleðistund |
,,Þakkir til Íslands" var það sem stóð upp úr hópnum sem kom saman við nýja fæðingardeild og uppgerða heilsugæslustöð í Chilonga í Mangochi. Við erum þarna í afskekktri sveit, verktaki og formaður hans, ráðgjafar frá sjúkrahúsinu sem Íslendingar byggðu í Monkey Bay, og fleiri áhugasamir. Þorpsbúar í nærliggjandi þorpum hafa þegar safnað sandi og múrsteinum til að byggja starfsmannahús til að hægt verði að tryggja lærðu fagfólki góða aðstöðu. 20 þúsund manna byggð fær nú fysta fæðingarganginn og ungbarnaeftirlitið færist undan tré og inn í skjól. Við tókum við húsinu daginn eftir alþjóðlega ljósmæðradaginn og nú eru rúm og tæki að leið út í sveitina.
Töff hárgreiðsla |
Þessi mósambíska stúlka er sannarlega hárprúð í besta skilningi orðsins.
Fiskimenn á pramma |
Á stærsta uppistöðulóni Afríku, Cahorra Bassa í Mósambik eru þessir prammar og stunda uppsjávarfiskveiðar um nætur. Ljós eru notuð til að lokka smáfiskinn upp í torfum og þær látnar synda yfir nótina sem hangir í krana framaná. Hífoppið nægir svo til að fanga fiskinn. Þessar veiðar skapa miklar tekjur fyrir tugþúsindir tonna og varð af óvæntur ávinningur til hliðar við virkjunina sem knúin er vatni úr lóninu.
Stóra jólabarn |
Það er myndarbolti sem þenur vogina á spítalanum sem Íslendingar byggðu við Apaflóa. Hjúkkurnar standa ánægðar hjá enda ekki alltaf sem svona stóra krakka rekur á fjöru ungbarnaeftirlitsins. En það hafa verið góðir tímar og mamma með brjóstið til reiðu eins og sjá má. Sjá myndband um verkefni Íslendinga í Malaví hér.
Hin bjarta hönd |
Krakkarnir baða sig í Malavívatni og veifa glöð í bragði til bátsverja sem eiga leið hjá.
Góð þjónusta |
Í strákofanum er rakarastofa og maður fær farsímann hlaðinn á meðan klippt er hjá ,,Glæsirakaranum" (Glory barber). Nú, maður getur líka fengið hleðslu en þarf ekki að klippa sig jafnframt.
Alnæmi og páfi |
Afríkuför páfa (mars 2009) varð ekki til að auka hróður hans í sambandi við baráttuna gegn Alnæmi. Mikil gagnrýni hefur dunið á páfa fyrir að leggja ekki baráttunni lið, heldur skaða hana, með því að tala gegn notkun smokka. En smokkar eru eins og aðrar getnaðarvarnir bannfærðar af kaþólsku kirkjunni svo páfi er sjálfum sér samkvæmur. Það hjálpar bara ekki í Alnæmisbaráttunni. Meira hér.
Vitjun |
Sjálfboðaliðar Rauða krossins í suðurhluta Malaví eru á leið í vitjun. Þau heimsækja alæmissmitaða í þorpnu, athuga hvernig þeim líður og hvernig lyfjastaðan er. Oft eru þessar heimsóknir þær einu sem fólk fær. Sjálfboðaliðarnir vinna kauplaust, en fá smávægilegan matarpakka í viðurkenningarskyni einu sinni í mánuði.
Sitja saman |
Alnæmissjúkir sitja saman - og standa saman. Þetta er stuðningshópur smitaðra í einu litlu þorpi í sveitinni í Malaví. Þau sem bera HIV veiruna koma saman, ræða málin, veita stuðning og segja að sér líði betur fyrir vikið. Rauði kross Malaví kemur þessum hópum á laggirnar og veitir þeim styrk og aðstoð til að bæta lífið. Þau ræða næringarmál, bestu leiðir til að styrkja ónæmiskerfið, og rækta grænmeti í garði skammt undan - til að hafa hollan og góðan mat.
Fiskverkun hafin! |
Smiðirnir við fiskverkunarstöðina sem Þróunarsamvinnustofnun byggir nú með heimamönnum vita hvað dugar í lífsbaráttunni. Meðan hamarshöggin dynja nota þeir þurrkhjallana til að breiða út smáfisk á vírnet og þurrka í sólinni. Þetta er ,,skreið" heimamanna, fiskurinn á stærð við löngutöng en dugar vel í eggjahvíturíkt viðbit með maís. Hér verður reykt og þurrkað og verkað á ýmsa lund til að koma fiski á markað. Nú vantar bara togara! segja þeir og eru ekki ólíkir héraðshöfðingjum í sjávarþorpum heima. Strax er byrjað að vinna í stjórnvöldum til að fá togskip til að leggja upp.
Hægt um horn |
Hún fer hægt um horn og varar sig á myndavél framhjágöngumanns, en ekki alveg nógu vel. Ein sekúnda í eilífðinni er fest á spjöld sögunnar í sveitaþorpinu.
Veftímarit - áskrift |
Veftímaritið kemur til áskrifenda gjaldfrjálst. Skráning hér.
Hér má skoða fyrri tölublöð:
Uppskera |
Uppskera. San kona í austurhluta Namibíu tekur þátt í ,,síldarævintýri” þessa landshluta. Nokkra daga á ári er hægt að fara út á mörkina og safna þessum rótum sem keyptar eru dýru verði til heilsubúða í Þýskalandi. Úr lauknum eru unnin efni sem eiga að gera mannfólki gott. San fólk hefur ekki úr miklu að spila og peningar sjaldséðir, svo þetta er kærkomin búbót. En ekki má taka of mikið og reynt er að hafa stjórn á því sem numið er á brott með því að beita ,,sóknarstýringu”; uppskeruhátíðin stendur því fáa daga á ári, utan þeirra er bannað að grafa laukinn upp.
Á útkíkki |
Á billanum |
Þessi unga snót hanleikur kjuðann af fimi á Soweto markaðnum í Katatura í Windhoek.
Asnar á bensínstöð |
Asnakerra á bensínstöð. Allir þurfa að fylla.
Ökuskóli norður Namibíu |
Ökuskóli á hjólum. Auðvitað!
Stolt móðir |
Bea á markaðnum var ekki bara með nýja hárgreiðslu heldur var strákurinn þægur allt í einu. Svona eiga góðir dagar að vera!
Við notum smokka |
Í landi þar sem 20% fullorðinna eru með HIV smit þarf sannarlega að minna á varnir. Sjá HIV stöðuna í Namibíu samkvæmt UNAIDS. Í Afríku sunnan Sahara búa 10% mannkyns en 60% smitaðra.
Minjar um gamla tíma |
Þjóðverjar ,,áttu" Namibíu og reistu þetta hús í þjóðleið, á því stendur ártalið 1908. Um það bil sem Íslendingar fengu heimastjórn fengu Namibíumenn þýskan arkitektúr í bæjum og úti á mörkinni. Hér gistu lestir á leið frá ströndinni inn í land.
Blair, við og ,,þau" |
Hvernig réttlætir Tony Blair stríðin í Afgahanistan og Írak? Í athygliverðri grein í Foreign Affairs kemur í ljós að leiðin sem hann kaus með Bush er einmitt ekki leiðin sem hann telur vænlegasta til framtíðar.
Hér er rýni á grein Blairs.