10.6.2010
Loksins HM!

Drengirnir í Malaví elta tuðruna fram í síðdegisrökkrið og munu örugglega fylgjast með HM í beinni frá Suður Afríku.  Hvar þeir komast í sjónvarp er þó annað mál.  Aðeins 6 % íbúa landsins hafa rafmagn og af þeim aðeins brot aðgang að sjónvarpi.  En barir, samkomusalir og velmegandi munu opna hús sín fyrir fótboltafíklum.  Því miður er HM tæpast í Afríkuanda þótt haldin sé á meginlandinu í fyrsta sinn.  Aðeins 11 þúsund miðar eru seldir í álfunni utan Suður Afríku - í álfu sem telur milljarð manna.  Miðar eru seldir á netinu fyrst og fremst og þá með greiðslukortum, hvoru tveggja er fágætt meðal almennings í Afríku.  Net?  Greiðslukort?  Loks gafst FIFA upp þegar ljóst var að í stað 500 þúsun gesta frá Evrópu yrðu aðeins 250.000, og setti óselda miða á venjulega lúgusölu í Suður Afríku.  Þar var setið um miðana sem þó kosta langt umfram það sem réttur og sléttur heimamaður höndlar með.  Og búið að hreinsa svo til í kringum vellina að götusalar sem ætluðu að græða vel komast ekki að fyrir þeim sem hafa keypt sér einkarétt á gróðanum.  Meira að segja opnunarhátíðin er ,,alþjóðleg" með innfluttum skemmtikröfum í bland, maður hélt að Afríka ætti nóg handa heiminum að sýna.  En boltinn rúllar og þá er bara að hafa gaman.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is