29.5.2010
Borgin kvdd


Borgarfulltrúi kveður að kvöldi kjördags meðan beðið er fyrstu talna.

Frá og með 30. maí 2010 er í ég ekki lengur borgarfulltrúi í Reykjavík. Ég var kosinn með Reykjavíkurlista árið 2002 og aftur fyrir Samfylkingu 2007 og sagði ekki af mér þótt ég hafi verið í leyfi frá borgarstjórn síðustu þrjú ár.

Mér fannst gaman að vera borgarfulltrúi. Fyrir athafnasaman mann er nóg að gera í borgarstjórn og hafi maður mikið undir eins og ég er gaman að lifa. Félagar mínir treystu mér fyrir formennsku í menntaráði og menningarmálanefnd, og síðan stýrði ég borgarráði um hríð og var jafnvel forseti borgarstjórnar í eitt ár. Það síðasta var leiðinlegt.

Borgin krefst allrar athygli...

og málefnin sem ég fór með voru mér hugleikin: Grunnskólar og leikskólar eru undirstöðumál í samfélagi okkar. Og ég naut þess að láta til mín og félaga minna taka í menningarmálum, ég trúi að Reykjavík sé og geti orðið menningarborg sem eftir er tekið. Og ég er montinn af friðargeisla Ono í Viðey.

Þetta voru skemmtileg fjögur ár þegar ég fékk atbeina fólks til að vinna að þessum málum og margir góðir félagar komu þarna að. Katrín Jakobs var góður samstarfsmaður í menntaráði, bróðir hennar Ármann í menningunni, og síðar Svandís Svavarsdóttir þegar hún kom inn; svo ég nefni nú fólk úr öðrum flokkum.  Kata og Vigdís Hauks fóru svo á Þing.  Mér fannst aldrei leiðinlegt að hafa Gísla Martein í menningarmálanefnd og við Hanna Birna áttum samleið í mörgum ráðum, hún mildaðist ansi mikið þegar Björn Bjarna fór úr borgarstjórn og varð einhvern veginn – manneskjulegri. Hún er ágætlega skynsöm eins og yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem ég vann með.

Ekki felli ég palladóma um eigin félaga, en satt að segja var tímabilið 2002-2006 erfitt fyrir Reykajvíkurlistann. Mér leið oft illa á þeim tíma. Þrír borgarstjórar, krísur og vesen. Maður þráði vinnufrið en alltaf kom þessi ,,pólitík” upp. Við Kata náðum ágætlega saman um að syrgja þetta ástand. Ég hélt að svona gæti ekki versnað, en þá tók við næsta kjörtímabil. Það sem nú er lokið. Mikil er skömm þeirra sem véluðu um þau mál. Fráleitt er að jafna sekt á alla, en fólkið sem gerði Ólaf F. að borgarstjóra þarf að undirbúa vel komu sína að hinu pólitíska Gullna hliði þar sem allt er skráð.

Ég vildi að ég hefði vitað margt sem ég nú veit og skil þegar ég hóf störf í borgarstjórn.
Um leið og ég óska þeim sem nýkjörin eru innilega til hamingju og heiti að hjálpa þeim öllum hvernig sem ég má, er ég með tillögur sem varða skipulag starfsins í borgarstjórn.

Nú er tækifæri til að breyta.

1) Það þarf ekki nauðsynlega að mynda ,,meirihluta” í borgarstjórn sem lemur allt niður frá hinum, en ekki er komist hjá því að sameiginleg ábyrgð tiltekins meirihluta borgarfulltrúa sé tekin á því að færa fram og samþykkja fjárhagsáætlun. Ákveðin forysta þarf að vera, en borgarstjóri þarf ekki að starfa í gamla foringjaanda íhaldsins. Hann má alveg vera framkvæmdastjóri fyrir samhentum flokki. Mér fannst Þórólfstíminn sýna að þetta er hægt ef allir vanda sig. Þau sem ná kjöri geta sammælst um meginstefnu og borgarstjóra, en leyft sér að rökræða og vera ósammála um aðra hluti. Og kallað allan hópinn til samráðs. Það er ekki að ástæðulausu að ég nefndi Kötu og Svandísi, Hönnu Birnu og Gísla Martein, því við fjögur hefðum alveg getað fundið góðar lausnir á merkum málum ef við hefðum slappað af saman yfir bolla af grænu tei. Ég sakna þess að við gerðum það aldrei. Arfleifð gamla tímans var of rík, þessi fjárans hefndarþorsti á báða bóga.   Það þarf forystu um ákveðin lykilmál í stjórn borgarinnar en óþarft er og til bölvunar að grafa ófærar víglínur um allt sem til framfara horfir.


2) Það þarf að hreinsa til í ,,fyrirtækjum” borgarinnar. Það er ekki gott að borgarfulltrúar sitji í stjórn OR eða Reykjavíkurhöfn. (Ég var í stjórn OR í tæpt ár.) Mér fannst ekki eðilegt hvernig ,,kaupaukahvatinn” réði skipan í þessi og önnur ráð, og ekki heldur hvernig þessi ,,fyrirtæki” voru utan við lögsögu gangsæi og siða sem tíðkast í borgarstjórn sjálfri. Best er að flokkarnir skipi fulltrúa utan eiginlegs hóps borgarfulltrúa, en krefjist þess að greinargóðar skýrslur berist borgarráði. Eftirlitið mun batna. Fulltrúar sem setjast í stjórnirnar þurfa að hafa einhverja verðleika til að sýna út á við og nýta í starfi. Og svo verða þessi ,,fyrirtæki”, sem eru auðvitað bara borgarstofnanir, að lúta sömu reglum og aðrir um laun, hlunnindi, styrki, gjafir og ferðir og hvað það nú er sem skiptir máli eftir að fundi lýkur.

3) Ráð borgarinnar þurfa að sækja meira út fyrir sjálf sig. Efna til umræðu, fá endurgjöf frá grasrótinni, umhverfinu. Þetta hefur batnað og má batna enn. Í raun er ráð eins og menntaráð farvegur fyrir upplýsta skólamálaumræðu og stefnmótun, en ekki stimpill fyrir gefnar skoðanir. Átakalínan á ekki að skera fundi í tvennt, samtakalínan má vera sú að sækja upplýsingar, rökræða og komast eða komast ekki að sameiginlegri niðurstöðu sem er upplýst og öllum skýr. Ég sakna þess að við Guðrún Ebba skyldum aldrei setjast niður saman og bera saman bækur utan sviðsljóssins.

4) Af einhverjum furðulegum ástæðum hefur fundarstjórn í borgarsalnum breyst í ,,virðingarstöðu” sem kallast ,,forseti”. Þetta er tildurembætti sem versnar stöðugt eftir því sem hlunnindum og vitleysu er hlaðið utan á það og skiptir ekki máli hvort vinstri bavíanar eða hægri bavíanar vilja komast í það. (Smitsjúkdómur frá Alþingi.) Fundarstjórn er einfalt mál sem leysist með aðstoð embættismanna. Bíll, Höfði, ræður og glamúr sem engin rök eru fyrir passa ekki inn í þessa mynd. Mér finnst að borgarstjóri eigi að hafa bíl og bílstjóra til umráða vegna vinnutengdra erinda. Aðrir ekki. Punktur.

5) Og já. Nú er tækifæri til að hætta að steypa hausa fyrrverandi borgarstjóra í mót og mála forseta borgarstjórnar á tveimur fermetrum sem ekkert pláss er fyrir hvort sem er. Ég ráðlegg þeim sem efast að skoða myndirnar af Albert Guðmundssyni og Magnúsi L. Sveinssyni sem hanga líklega uppi enn á pínlegum stað. Eftir allt fárið síðustu átta ár skulda borgarfulltrúar útsvarsgreiðenum að hætta þessar dellu. Sorrí Árni Þór. Sorrí Steinunn Valdís. Þetta er búið.

6) Og þá út í hverfin. Ég trúði á og trúi enn á aukið vald út í hverfin í gegnum hverfaráðin og þjónustustofnanir. Ég var formaður hverfisráðs Grafarvogs og kynntist fullt af fólki sem ég hefði ella aldrei kynnst sem borgarfulltrúi við Tjörnina. Og lærði heilmikið. Hverfaráðin eiga að fá aukið hlutverk og við eigum að hleypa fleira fólki að. R-listinn byrjaði á þessu, en of feimnislega og fór sér hægt. Vonandi hefur þetta þróast og þroskast og má örugglega gera enn.

7) Um fundi borgarstjórnar ætla ég ekki að fjölyrða. En segi bara þetta: Stundum langaði mig að skríða undir borð þegar ,,umræðurnar” fóru niður fyrir flórinn. Og var þó forseti! Aukin samvinna mun bæta þetta. Svo er engin ástæða til að halda ,,næturfundi” og maraþonumræður þótt fjárhagsáætlun sé í smíðum. Fundur tvo daga í röð á venjulegum vinnutíma þætti eðlilegt skipulag alls staðar – nema í borgarstjórn þar sem gamli tíminn lifir ennþá. Vonandi ekki lengi.Ég spara ræðu mína um hve borgarstjórnarmálin hefur sett niður síðustu tvö kjörtímbil, og heldur lengur reyndar. Það er skömm að því hvernig margir hlutir hafa æxlast. Með nýju kjörtímabili og nýrri sól má laga margt af þessu. Ef við höfum eitthvað lært er það að persónur og leikendur hverfa af sviði hraðar og örar en nokkurn órar fyrir. Hver hefði trúað því fyrir kosningarnar 2002 að bæði Ingibjörg Sólrún og Björn Bjarnason yrðu horfin úr borgarstjórn nokkrum mánuðum síðar? Að þrír borgarstjórar sætu það kjörtímabil og FJÓRIR það næsta? Hver hefði séð það fyrir þegar Steinunn Valdís varð borgarstjóri að nokkru síðar segði hún af sér þingmennsku á nýhöfnu kjörtímabili? Að Ingibjörg Sólrún yrði ráðherra um hríð og svo ekki meir? Að Björn Ingi - stjarnan í Framsókn - yrði frá að hverfa? Að bylting yrði gegn ,,gamla góða Villa”? Að Ólafur F. yrði borinn á gullstól og fengi svo rýting í bakið? Og svo áfram og áfram. Ætli auðmýkt sé ekki næsta stoppistöð fyrir alla þá sem um hafa vélað í borgarstjórn síðustu ár?

Sjálfur fékk ég leyfi til að starfa tímabundið í Namibíu með þeim ásetningi að koma aftur og taka þátt í kosningum sem nú eru afstaðnar. Þau áform breyttust með nýjum og ögrandi verkefnum fjarri þessum vettvangi -  á öðrum sem líka er krefjandi. En. Nú fær maður að vinna að góðum málum án þess að þurfa rífast alla daga. Mæli með því.

Það breytir ekki því að mér finnst enn að tíma mínum í borgarstjórn hafi verið vel varið og ég lít stoltur um öxl yfir því sem vel tókst til og þakka það traust sem mér var sýnt. Við nýkjörna borgarfulltrúa segi ég: Standið saman. Það er meira í húfi en nokkru sinni fyrr.

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is