2.5.2010
Nttruundri Okavango

Hægt er að skoða þessa grein með stærri og betri myndum með því að hlaða niður þessari skrá. (2.3 mb)

Okavango óshólmasvæðið er eitt af undrum veraldar. Stórfljótið samnefnda safnar vatni úr fjöllum Angóla um regntímann og rennur suður í átt til Namibíu og síðan inn í Kalahari eyðimörkina í Botswana. Mörkin er stærsta samfellda sandauðn í Afríku en á afmörkuðum hluta myndast mikil flæmi óshólma og fenjalanda þar sem fljótið streymir inn í hana þremur mánuðum eftir að það féll sem regn miklu norðar. Fljótið nær aldrei til sjávar heldur gufar upp í eyðimörkinni! Á 20 þúsund ferkílómetra svæði eru flæðilendur þar sem fljótið kvíslast í ótal áttir og sitrar ofurhægt inn yfir landið sem ella væri þurr eyðimörk. Pálmar og papýrusbreiður fylgja vatninu. Kafgresi á hólmum, trjálundir og gróðursæld. Mökkur dýra.Með augum gervihnatta má sjá Okavango svæðið eins og grænan blett á gulri mörkinni. Svæðið hefur verið friðað í nær hálfa öld og enginn kemst hingað inn nema fuglinn fljúgjandi, fíllinn vaðandi, krókódíllinn syndandi - og maðurinn í einshreyfils flugvél eða á eintrjánungi. Og jú, öll hin dýrin sem finna leiðir, misjafnar eftir árstíðum. Takmarkaður fjöldi gististaða í á mismunandi stigum lúxuss er inni á svæðinu. Yfirvöld kusu að sprengja upp verðið svo fáir kæmu, fáir en vel borgandi. Prinsar, furstar, greifynjur og forsetafrúr geta valið um staði þarna langt inn í fenjalöndunum þar sem gistinótt kostar aldrei minna en kvartmilljón og oftast meira. Þjónar á sjakket.

Sérstök myndasýning hér.

Minni spámenn geta fundið gististaði í tjöldum á sama verði og 4* hótel í stórborg. En það er þess virði. Bátsmenn stjaka eintrjánungum um síki og lón, farið er á eyjar þar sem villidýrin eiga griðlönd og fuglar kvaka á hverjum kvisti. Um aldir bjuggu hér hinir svonefndu ,,vatnabúskmenn”, frændur hinna sem búa enn í eyðimörkinni. Og svo bættust fleiri við, Moremi konungur kom með ættbálk sinn norðan að einhvern tíman fyrir hundrað árum og settist að, svona blandast straumar fólks og vatns og dýra. Eftir því sem vatnið sitrar lengra inn á svæðið fylgja fiskar og önnur vatnadýr norðan úr fljótakerfi Namibíu. Eftir því sem það gufar upp þegar forðann þrýtur hörfa skepnur. Svona er hrynjandi lífsins og hefur verið í árþúsundir.

Þetta er merkilegt lífríki. Í desember hefst regntíminn og stendur út mars. Þá hellirignir alla daga og gróður þýtur upp, allt grænkar og dafnar. Í apríl styttir oftast upp og þá gerist annað undur: Flóðatíminn hefst. Vatnsborð hækkar dag frá degi þegar Okavangó áin nær loks að skila regninu sem féll norður í Angóla þremur mánuðum fyrr.

Fleiri myndir hér.

Farvegir bólgna af vatni, sefið færist í kaf og fiskar fylgja eftir og lengra inn á mörkina en áður var fært. En á eyjum og hólmum þornar allt og visnar eftir því sem vetur færist yfir. Í júní og júlí er orðið þurrt á landi en þá hafa dýrin vatnsforða í síkjum og farvegum sem hríslast um svæðið. Smátt og smátt sjatnar þó árvatnið og gufar upp á jaðarsvæðum Okavango, þar sem eyðimörkin tekur við. Undir lok ágúst og fram í nóvember er þurri tíminn og þá safnast saman mökkur dýra hvar sem fæst vatn á óshólmasvæðinu. Þar hafast þau við þar til aftur byrjar að rigna í lok ársins og gróðurlendur taka við sér.

 

Hægt er að skoða þessa grein með stærri og betri myndum með því að hlaða niður þessari skrá. (2.3 mb)

Sérstök myndasýning á myndbandi hér.

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is