22.3.2010
Hvernig er ftkt land?Í kjölfar Hrunsins á Íslandi hefur mátt sjá fátæktarkvíða í skrifum manna. Jafnvel hátsettra manna sem stjórnuðu peningamálum Íslands og höfðu mikil áhrif á þróun sem leiddi þjóðina fram af hengifluginu. Íslendinga bíði ,,fátækt” ef þeir bíta ekki frá sér allar óskir um að borga aftur hluta af því tjóni sem þeir skópu þegnum annarra landa. Í þessu sambandi er ekki vitlaust að skoða hvað raunveruleg fátækt felur í sér og að hve miklu leyti Ísland er í hættu að lenda í fátæktarflokki.
Í upphafi ber að minnast þess að Ísland var í efsta sæti á lista þjóða samkvæmt ,,lífskjaravísitölu” Sameinuðu Þjóðanna (Human Development Index) árið 2007.
Það er því úr háum söðli að detta, þótt segja megi að þetta fyrsta sæti hafi fengist á fölskum forsendum. Áhrif Hrunsins hafa tæpast komið fram að fullu enn, og því ekki gott að segja hve langt niður listann Ísland fellur. Ári síðar höfðu Norðmenn og Ástralir farið upp fyrir okkur og vel er hugsanlegt að Ísland falli niður um nokkur sæti á þessu ári, en við verðum nánast öruggulega á topp tíu listanum yfir þá sem hafa það best meðal þjóða heims í lok ársins 2010.

Ef svo fer sem horfir að árið 2011 verði mjög erfitt með niðurskurði og óstöðugum gjaldmiðli er hugsanlegt að Ísland verði í neðri sætum topp tíu listans þegar og ef uppsveifla hefst á ný, en henni er spáð eftir 2012. Þá værum við á svipuðu róli og Svíþjóð (núna númer sjö) en talsvert fyrir ofan Bretland (21).

Lífskjaravísitala S.Þ. er reiknuð til að meta betur raunveruleg lífskjör en hið gamla viðmið, sem var þjóðartekjur á mann. Nú eru lífslíkur vegnar inn í vísitöluna, þekkingar og menntunarstig í landinu, ásamt kaupgetu. Margir telja að meta eigi stöðu umhverfismála og hovrt um er að ræða sjálfbæra nýtingu auðlinda í vísitöluna. (Sem dæmi má taka að væri 9-10 % hagvöxtur Kína hin síðari ár reiknaður með tilliti til neikvæðra umhverfisáhrifa væri hagvöxtur í raun fyrir neðan núll. Hagvaxtartölur einar eru óáreiðanlegar heimildir um lífskjör eins og Íslendingar ættu nú að vita.) Ef menn vilja einungis horfa á þjóðartekjur á mann eru Íslendingar í tíunda sæti með rúmlega 30 þúsund dollara á mann, svipað og Danmörk, Írland, Kanada og Sviss. Það er sexfalt hærra en meðaltal í heiminum og fímmtíufalt hærra en þau lönd sem eru í botnsætum.

Samkvæmt lífskjaravísitölu S.Þ. raðast 182 ríki upp á kvarða sem á að sýna hvernig fólk hefur það efnalega og félagslega. Neðst eru Níger (182) og Afgahanistan sæti ofar, en lönd eins og Sómalía, Simbawe og Norður-Kórea eru ekki mæld, af ýmsum ástæðum. Hvernig er land sem vermir eitt af botnsætunum? Eitt slíkt land er Malaví, sem er í 160asta sæti og mjög ólíkt Íslandi.

Þjóðartekjur á mann eru innan við 600 dollarar á ári - vel innan við tvo dollara á dag. Viðmið Alþjóðabankans fyrir fátækt er 1.25 dollarar á dag í tekjur, en 40% landsmanna ná ekki því viðmiði, og 22% eru í raun úrskurðuð ,,ofur-fátæk”. Í raun má segja að í svona landi séu tvö, ef til vill þrjú, hagkerfi. Í fyrsta hagkerfinu eru 85% landsmanna sem lifa af sjálfsþurftarbúskap og eru utan við peningahagkefið, þótt sumum takist stundum að selja afurðir á markaði.

Í öðrum hluta hagkerfisins eru svo 10-14% landsmanna sem hafa reglulega vinnu og tekjur, og búa í peningahagkerfi að hluta til að minnsta kosti. Flestir eru þó með annan fótinn í ,,óformlega hagkerfinu”, rækta eigin mat að hluta og stunda vöruskipti. Hér eru kennarar og lágtsettir ríkisstarfsmenn sem fá e.t.v. 12-17.000 krónur á mánuði, launamenn smáfyrirtækja og slíkir. Láglaunafólk fær 3-5000 krónur á mánuði. Í mati hagstofu ríkisins kemur fram að launamaður þurfi 40-50 þúsund á mánuði til að komast af ef hann þarf að leigja húsnæði, borga rafmagn og vatn, og kaupa mat. Heimamenn sem hafa menntun eða hæfni að bjóða vinna oft hjá alþjóðlegum stofnunum og hafa oft á bilinu 70-200 þúsund á mánuði og þykir mjög gott.

Í efsta laginu eru svo hásettir ríkisstarfsmenn og stjórnendur stórfyrirtækja sem hafa margir miklar tekjur og lifa góðu lífi, en erfitt er að meta stærð þessa hóps. Þessi hópur er samt ekki stærri en svo að ekki er til markaður fyrir ,,lúxusvörur” og dýra þjónustu, skemmtanir eða sérverslanir, svo heitið geti. Tölur um atvinnuleysi eru ekki til enda ekki hægt að ræða um almennan vinnumarkað þegar næstum allir eru sjálfsþurftarbændur.

Fátæktin birtist ekki í því helst að munaðarvörur séu af skornum skammti, heldur í því að lífslíkur eru aðeins 52 ár að meðaltali, ungbarnadauði er með því mesta sem þekkist, sjúkdómar eins og niðurgangur og öndunarfærapestir leggja fjölda manns af velli árlega, og mæðradauði er með því hæsta á jarðríki: Að meðaltali deyja 16 konur á dag af barnsförum. Fólksfjölgun er eigi að síður meiri en landið ber, auðlindaeyðing er mikil og stefnir í hreint óefni.

Hvernig birtist svona fátækt í daglegu lífi? Götur höfuðborgarinnar eru skörðóttar og holóttar og þar eru gangstéttar fátíðar og götulýsing næstum engin. Símkerfi virkar illa og stundum alls ekki. Rafmagnsskortur setur svip á daglegt líf, enda er heildarframleiðsla í 13 milljóna manna landi minni en nemur hálfri Kárahnjúkavirkjun; sex prósent íbúa hafa aðgang að rafmagni. Vegir eru mjög slæmir, lítill bílafloti heimamanna einkennist af hræjum sem varla eru ökufær, og umferðarslys eru með því mesta sem um getur í heiminum. Aðkomumaður tekur strax eftir hve vélvæðing er skammt komin, fólk gengur langar leiðir með byrðar eins og vatn og eldivið, eitt reiðhjól ber fjögurra manna fjölskyldu eða hlaða af kolapokum. Heimili alls þorra fólks eru leirkofar með stráþökum þar sem getur verið langt í næsta vatnsból og hreinlætisaðstaða lítil sem engin.

Menntunarskortur er alvarlegt vandamál, ólæsi kvenna yfir 50% og karla næstum 40%. Um 10% barna úr hverjum árangi fara í framhaldsskóla, og mun færri ljúka námi. Menntað fólk flyst oft burt ef það getur markaðssett sig annars staðar, sagt er í bæði gríni og alvöru að fleiri malavískir læknar séu í Manchester en í Malaví.

80 prósent af þróunarverkefnum eru greidd af erlendum framlagsríkjum og tæp fjörutíu prósent af ríkisútgjöldum koma frá erlendum ríkjum. Hagkerfið er illa búið til sóknar: Malaví er landlukt, auðlindir þverrandi, innviðir veikir, sóknarfæri fá. 70 prósent af útflutningstekjum eru frá tóbakssölu sem ekki lofar góðu ef Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) nær markmiðum sínum um að minnka reykingar.

En er þá ekki ódýrt að lifa í svona landi? Nei, svo merkilegt sem það er þá eru matvæli dýr (endurspeglar e.t.v. spurn umfram framboð). Kjúklingur úr heimahúsi í höfuðborginni kostar 900-1000 krónur, en er ódýrari á fæti í sveitunum. Egg kostar 30 krónur stykkið í sveitaþorpi, á markaði í höfuðborginni kosta fjórir tómatar 200 krónur. Ef laun lögreglumanns eru 5000 krónur getur hann keypt kjúkling einu sinni í viku og borðað fimm tómata með í hvert skipti fyrir launin. Auðvitað borðar hann aldrei kjúkling, heldur ræktar maís eins og allir aðrir. Maís er það sem fólk lifir á.

Í svona fátæku landi er ekkert til sem heitir ,,skemmtanaiðnaður” en þó er því ekki að leyna að sumar hljómsveitir gefa út diska sem seldir eru á götuhornum. Ríkissjónvarpið sendir út á einni rás og tveimur útvarpsrásum og nokkuð er um einkareknar stöðvar sem njóta framlaga pólitískra auðmanna. Eitt kvikmyndahús er í landinu, og það heyrir til tíðinda að nú hefur verið opnuð ,,bókabúð með bókum” í höfuðborginni. Menningarstofnanir eins og söfn, listagallerí og slíkt er ekki að finna í þeirri mynd sem Íslendingar þekkja. Tvö til þrjú dagblöð koma út og eru algjörlega háð auglýsingum frá ríkinu.

Aðbúnaður er mjög hraklegur sem má sjá af útliti opinberra stofnana og skrifstofum í ráðuneytum þar sem málning flagnar af veggjum og húsgögn eru við hrun. Sjaldgæft er að hlutum sé hent, endalaust er hægt að gera við og margir handverksmenn ná færni í því. Farsímar hafa níu líf. Sáralítill iðnaður er í landinu og stenst ekki samkeppni við innflutt skran frá Kína og Indlandi sem er jafn ódýrt og það er lélegt; bilanir á öllum hlutum til daglegs brúks eru fastur liður í tilveru þeirra fáu sem hafa efni á.

Ekki er um að ræða ,,velferðarkerfi”. Lyf kosta peninga, nema þau sem eru gefin af erlendum ríkjum, eins og til HIV smitaðra. Malaría er landlæg og getur reynst fátækri fjölskyldu dýr ef þarf að kaupa lyf. Veikt fólk kemst á ríkisspítala ef það býr nærri en ættingjar þurfa að elda handa sjúklingum. Barnaskólar eru ókeypis (skólabúningar baggi) en þegar kemur að framhaldsskóla kostar frá 4000 krónum upp í 22.000 krónur á önn að senda ungling til menntunar. Ríkisstarfsmenn hafa smávægileg eftirlaun, aðrir ekki. Það segir sína sögu að nær allt fullorðið fólk þekkir hungur af eigin raun, og fjórðungur barna er vannærður.

Af framangreindu má því ráða að Ísland á sem betur fer langt að hrapa til að teljast ,,fátækt” land. Viðspyrna okkar felst í menntun, innviðum og auðlindum og því hve góð tækifæri við eigum ef við vöndum okkur í alþjóðlegum samskiptum. Hrapi Ísland af topp tíu listanum (úr þriðja sæti í ellefta) verðum við fyrir neðan Noreg, Ástralíu, Kanada, Írland, Holland og Svíþjóð, auk Frakklands, Sviss og Japans, að því gefnu að þessi ríki haldi sínum hlut. Í ellefta sæti værum við enn fyrir ofan Finna og Bandaríkin, tíu sætum fyrir ofan Breta og 20 sætum fyrir ofan Kúvæt. Við verðum að hrapa um 50 sæti til að verðskulda titilinn ,,Kúba norðursins” miðað við núverandi stöðu hjá Kastró (51) og værum samt 20 sætum fyrir ofan Rússa (71) og 40 sætum fyrir ofan Kínverja (91). En munurinn á okkur og flestum þeirra ríkja sem eru þar fyrir neðan er sá við við eigum alla möguleika, þau fáa. Staða Íslands er svo góð að ekkert nema mannlegur máttur getur fært okkur neðar.
Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is