6.2.2010
jgarur undir yfirbori

Það er unun að kafa niður í dýpið á Malavívatni og skoða undur og furður náttúrunnar í þessum fyrsta og stærsta vatnsþjóðgarði heims.  UNESCO hefur lýst vatnið hluta af heimsminjaskrá.  Fiskitegundirnar eru nær þúsund, fleiri en samtals í Evrópu og Norður-Ameríku.  Þegar maður kafar niður

fylgir skært sólarljósið að ofan til móts við dimmri heima. Upp ljómast tröllvaxin björg í vatninu og meðfram þeim synda ævintýralegar torfur af skrautfiskum. Í búrinu í Vesturbæjarlauginni gömlu kölluðust þeir ,,gullfiskar”; hér er þeirra ríki. Lang flestar tegundirnar eru smávaxnar en litfagrar: gulir fiskar, bláir, fjólubláir, zebra-röndóttir með gulum sporði eða silfraðir; aðrir með gylltum blæ. Ef heppnin er með má sjá risastóra leirgeddu með þreifara fram úr svörtum hausnum eins og gisið skegg, nú eða ,,kjúkling vatnsins”, Chambó sem er eftirsótt matvara og þokkalega vænn miðað við smáfiskatorfurnar.

Þegar neðar dregur kemur að söndugum botni og þar getur að líta gíga eins og á myndum frá tunglinu eða Skútustaðagígunum í Mývatnssveit. Búið er að hlaða upp fagursköpuðum börmum úr sandi, sum þessara beða eru á stærð við gott borðstofuborð að flatarmáli, önnur minni. Botninn að innan er óaðfinnanlega fægður. Ekki arða af óhreinindum. Og þar fyrir miðju er lítill bláleitur hængur og bíður þess að ástleitin hrygna falli í stafi yfir þessari hreiðurgerð og komi inn á heimilið. Þegar ungarnir koma úr gotinu (já, hún gýtur lifandi seiðum) er gígurinn þeirra varnarþing fyrsta æviskeiðið. Inn yfir hreiðrið fær enginn að koma.

Utan í stórum steini er annar fiskur. Þetta er hrygna sem stendur í ströngu við að bægja burt ránfiskum sem herja á kúlulaga þyrpinu sem hnappar sig saman undir vernd mömmu. Þetta eru 40-50 seiði, hvert á stærð við hálfa eldspítu eða svo. Meðan súrefnisbólurnar frá kafaranum stíga upp í átt til yfirborðs hamast mamma við að verja börnin sín smá. En stefni í að rándýrin komi svo mörg að úr ólíkum áttum að fái hún ekki varist er þrautarvarabjargráð eitt undir rifi: Hún gleypir allan skarann með einni hreyfingu. Seiðin sópast inn í munninn og þar halda þau til uns öruggt er að koma út aftur.

Á leiðinni upp eru ljósbrot sólar um allt vatn og skapa kynjamyndir af fiskitorfum sem skjóast frá einum sólstafi til annars og glitrar á hvern ugga og sporð.

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is