19.11.2009
Dagbækur frá Afríku: Okt-Nóv 2009


Afríkubúar urðu milljarður og það gaf tilefni til að ræða fólksfjölgunarvandamál í dreifbýlustu heimsálfunni (að Ástralíu undanskilinni).  Að meðaltali á hver kona sex börn og hefur íbúatalan tvöfaldast í Afríku á innan við þremur áratugum.  Barnasægur er talin blessun þar sem ekkert er lífeyrissjóðakerfið, og nauðsynlegt að eiga mörg því afföllin eru mikil.  Eigi að síður sér þess nú stað að konur vilji hægja á, þéttbýlismyndun minnkar þörfina á mörgum stritandi höndum.  Hér í Malaví er vitað að konur vilja aðgang að getnaðarvörnum, en þær fást stopult.  Og enn lifa gamlir tímar í venjum sem seint ætla að deyja: Í einu héraði landsins var sagt frá því að nær 300 stúlkur hefðu verið gefnar til giftinga á fyrstu mánuðum ársins, allar á aldrinum 12-15 ára. 

 


 

Salernisdagur

 

Það kann að hafa farið framhjá einhverjum að ,,Dagur salernisins” var haldinn 19. nóvember.  Tveir milljarðar manna hafa ekki aðgang að salerni eða kamri til að gera þarfir sína.  Smit og sjúkdómar eru niðurstaðan: Tvær milljónir manna deyja árlega af þeim völdum.  Það hleðast ofan á annað:  Hálf milljón kvenna deyr af barnsförum árlega, níu milljónir barna af völdum næringarskorts...og áfram heldur listinn.

 

Olíuskortur, jafnvel hjá ,,háttvirtum”.

 

Hafi einhver áhuga á því hvernig ástand skapast í landi í fjárhagskröggum þar sem lítið er um gjaldeyri ætti sami að koma til Malaví.  Eldsneytisskortur síðustu vikur hefur lamað flutninga og athafnalíf því þolinmæði erlendra lánadrottna var þrotin.  Langar raðir á bensínstöðvum og oftar en ekki tómt á dælunum eftir mikla bið.  Gjaldeyrisskorturinn kom fyrst fram í því að fyrirtæki fengu ekki afhentar innflutningsvörur nema gegn staðgreiðslu – því ekki var treyst á bankafyrirgreiðslu.  Svo hvarf olían úr dælum og af skapast tekjutap á öllum sviðum – sem enn eykur gjaldeyrisskort.  Ofaná og samhliða bætist svo stöðugt rafmangsleysi heilu og hálfu dagana af ástæðum sem orkuveitan á erfitt með að skýra.  Allir vita að þar á bæ eiga menn ekki dísel á rafmótora sem ættu að bæta upp tjónið þegar rafmagn frá vatnsaflsvirkjunum tefst og týnist í leiðslunum þvert um landið.  Malaví er eyland í þeim skilningi að orka er öll framleidd innanlands, hvergi er innstunga í orkukerfi nærliggandi landa til að bæta upp þegar á vantar.  Þingmenn ræddu eldsneytisskortinn og hörmuðu mjög.  Þeir töldu að koma ætti upp sérstakri dælu við Þinghúsið svo þeir þyrftur ekki sem ,,háttvirtir” að fara um bæinn með brúsa í leit að bensíni en þingforseta fannst þeir helst til forréttindasinnaðir.

 

Algjör gella

 

Konur sem eru nútímanlegar í háttum valda deilum.   Það á minnsta kosti við um stúlkuna sem er ,,fulltrúi Malaví” í raunveruleikaþættinum ,,Stóri bróðir Afríku” þar sem eitt ungmenni frá hverju landi álfunnar sest að í lokuðu húsi með sjónvarpsvélarnar í gangi svo allir geti fylgst með hverju fram vindur.  Unga fólkið hefur ekki mikið að gera annað en plotta með eða móti hinum, því eins og í söngnum um 10 litla negrastráka fækkar um einn í hverju versi.  Ungfrúin góða frá Malaví reykir, drekkur og stundar kynlíf.  Kirkjulegar kvennahreyfingar eru ósáttar við að fulltrúi þjóðarinnar skuli ekki lifa samkvæmt gildum strangtrúaðra og krefjast þess af kvennamálaráðuneytinu að það skerist í leikinn.  Nema að kvennamálaráðherrann (sem er frú) er ekki aldeilis á þeim buxunum og styður hina miklu skvísu.  Um þetta getur þjóðin talað því þátturinn er gríðarvinsæll og enginn maður með mönnum sem ekki veit allt um hagi ungmennanna.  Nú eru aðeins sjö eftir og synduga ungfrúin enn á meðal leikenda og kemur því óorði á kvenþjóðina í Malaví enn um sinn. 

 

Í Malaví eru stutt pils ein af dauðasyndunum og sjást ekki – hvergi.  Trúboðarnir komu inn sérstakri tegund af dyggð sem felst í því að sveipa holdið frá toppi til táar, eða að minnsta kosti niður fyrir hné.  Stundum sjást axlir en það er ekki oft.  Líkur benda til að konur í Malaví hafi læri en þau eru ekki sjáanleg.  Vestrænum konum er ráðlagt að sýna hófsemi í klæðaburði því margt af því sem þær telja venjulegt telst ósiðlegt hér.

 

Blessaður boltinn!

 

Um annað og brýnna er þó að hugsa.  Fótbolta.  Baráttan um að komast á HM í Suður Afríku á næsta ári hefur skilað úrslitum og nú vita menn hvernig mótið lítur út.  Samtímis þeirri baráttu var sparkað um að komast á Afríkubirkarmeistaramótið sem verður í Angóla í janúar.  Okkar menn í Malaví, Logarnir, komust þangað í fyrsta skipti í 25 ár, með því að tapa enn einum leiknum.  Nú gegn Burkina  Faso, en voru svo heppnir að Fílabeinsströndin vann Gíneu með miklum mun svo allt í einu var litla Malaví komið á stóra fótboltakortið, alveg óvart.  Það er allt að verða vitlaust í Afríku eins og Hemmi Gunn myndi segja, boltinn rúllar og ,,we can´t wait” er slagorðið sem endurómar frá eyðimörk til frumskógabyggða og alls staðar þar á milli.  Afríkubikarkeppnin í janúar og HM í sumar!

 

Regn og mangó

 

Regntíminn er hafinn.  Stórkostlegar þrumur skekja hýbíli, eldingar fara með himinskautum og steypiregn setur allt á flot þegar minnst varir.  Hryðjurnar standa ekki lengi og þægilegur svalinn sem kemur í kjölfar kætir dýr.  Forskarnir hafa haldið sinn árlega fengitíma nú í nokkrar vikur svo ekki heyrist mannsins mál innandyra; úti eru ástarköllin eins og verið sé að rífa hurðir af hjörum, kvikindin eru bara á stærð við tölvumús, en gefa frá sér ærandi hávaða.  Og svo taka við hinir sem hljóma eins og klingjandi bjöllur og kliður þeirra fyllir nóttina meðan skýin safna kröftum í nýtt regn.

 

Jarðarberjatíminn er liðinn, aðeins örfá eintök eftir á mörkuðum; en nú er mangóvertíð að ná hámarki.  Sölumenn með vegum falbjóða heilu sekkina á 1500 kall, eða fullan innkaupapoka á 100 kall.  Þessir ljúffengu ávextir eru yndi allra og vaxa víða um land.  Dagblaðið ,,Þjóðin” hefur viðtal við ungan mann sem kom undir sig fótunum með mangósölu.  Hann kaupir af sveitafólki fyrir 2000 kall, fer í bæinn og selur fyrir 3000, daglaunin 1000 og þau eru miklu hærri en hann fékk áður fyrir íhlaupavinnu.  Ekkert vesen með leiguna lengur, skólagjöldin fyrir börnin greidd á réttum tíma og mangóið stendur fyrir sínu 3-4 mánuði á ári.  Utan vertíðar selur hann banana og annað smálegt og gengur vel að sögn.  Hér í landi hefur allt sína ártíð.  Jarðarberin eru ekki innflutt, þau vaxa villt og er á meðan er; svo ekki meira í nokkra mánuði.  Eins með mangó, ananas og melónur.  Við erum því ofast með ferskmeti en aldrei allt til í einu.  Í nokkrar vikur flóir allt í paprikum og svo er það búið; tómatar eiga sinn tíma og kartöflur; þetta er ræktað, etið og svo búið.  Það sem geymist ekki vel er bara ekki með þangað til næsta uppskera kemur.

 

En aðaluppskeran er maís.  Þjóðin lifir af maís.  Nú má sjá vel skáraða akra hvert sem farið er, búið að brjóta landið og búa til sáningar.   Bændur horfa til himins og spá í hvenær óhætt sé að sá. Of snemma þýðir að fræin sölna, of seint að vaxtartíminn verður of skammur.  Svartsýnir halda að í ár verði léleg regn eftir þrjú góð undanfarin ár.  Langminnugir segja að nú sé kominn tími á þurrk, allt gangi i bylgjum og sunnanverð Afríka sé komin á tíma með þurrk.  Ekki þarf að ræða það í Keníu og Eþíópíu.  Þar eru milljónir manna við hungurmörk af völdum þurrka.  Hér í Malaví er fjórða hvert barn vannært og allir fullorðnir menn þekkja hungursneyð af eigin raun.  Aldrei má neitt útaf bregða.

 

Jólavertíðin er samt hafin.  Afgreiðslustúlkur með jólasveinahúfur á kassanum og nú fer í hönd innbrotahrina í höfuðborginni: Menn afla jólagjafa.

 

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is