18.6.2009
Dagbækur frá Afríku júní-júlí 2009

 

Uppskerutími! Eftir regntímann kemur uppskerutími og hann gekk vel í Malaví í ár í flestum héruðum, en þó ekki alls staðar. Meðfram þjóðvegum hrúgast upp grænmeti eins og laukar, tómatar, kál og kartöflur og allir vilja græða - meinið er að verð fellur þegar svona vel gengur! En það er líf og fjör á markðanum og litrík pilsin sveipa lendar kvenna sem hafa hátt og yfir og undirbjóða hverja aðra.  Það er ,,vetur" núna sem þýðir að á daginn er þægilega hlýtt, kringum 25 gráður, en nætur svalar.  Þetta er því tími athafna líka því kæfandi hiti kemur ekki fyrr en í október nóvember.


Þvottadagur við vatnið er afslappaður og krakkarnir njóta þess að sulla, en alvara lífsins blasir við þeim sem eru nógu gömul til að ganga í skóla, samræmdu landsprófin eru í september og þau þurfa að vera harðdugleg til að færast milli bekkja; alltof mörg þurfa að sitja eftir.


Baráttan verður mjög hörð hjá þessum pilti.  Hann þarf að ná fínum einkunnum í haust til að komast í framhaldsskóla, en hvort foreldrarnir eigi þá fyrir skólagjöldum er allt annað mál.  Skólagjöldin geta numið 10 þúsund krónum á ári sem er alltof mikið fyrir fátækt fólk.  Innan við 10% malavískra barna fara í framhaldsskóla, í landi þar sem menntunarskortur er átakanlegur.  Þessi pitlur þarf að kapplesa með félögunum og stundum bjóða kennarar aukatíma síðdegis í sjálfboðavinnu til að hvetja þau áfram.


Höfðinginn í litla fiskimannaþorpinu Chilongo ætti að vera kominn á eftirlaun en hann hjálpar til í skólanum og yfirfer verkefnabækur krakkanna með kennslunni.

Athafnamenn í bænum harka túra, þeir hafa sett hægindi á bögglabera reiðhjólanna og bjóða stutta túra með fólk sem kemur með rútunni frá öðrum landshlutum.  Reiðhjólataxar eins og þessi taka oftast einn farþega en þó er ekki óalgengt að sjá móður með eitt barn á baki og annað í kjöltu sitja aftaná og láta ferja sig heim.

 
Þetta er tími athafnasemi.  Flytja, draga að, safna saman, byggja, bæta.  Nú er tækifærið því þegar hitinn verður óbærilegur hægir á öllu, og þá kemur regntíminn um og eftir áramót og ekkert hægt að gera af viti utan dyra.  Á vegum úti er því mikil umferð, hjólandi, gangandi og stöku trukkar sem koma másand eftir brotgjörnum vegum alla leið frá hafnarborginni Beira í Mósambik, en þar er eina höfnin sem Malaví hefur greiðan aðgang að.


Og svo er auðvitað að vona að sala gangi vel þessar vikurnar, dísætar kartöflur beint upp úr jörðinni bíða í hrönnum og vongóðar sveitakonur freista þess að afla fjár til nauðsynlegra hluta: viðgerða á húsi, lyjfa handa börnum, skólagöngu fyrir þau sem eiga kost á að komast í framhaldsskóla?   Í landinu búa 13 milljónir og þarf af eru 85% sjálfsþurftarbændur sem reiða sig á að geta selt umframuppskeru til að afla þess eina reiðufjár sem möguleiki er á.  Ekki blasir nú við ríkidæmi þótt vel gangi, enn búa um 50% þjóðarinnar undir þeim fátækarmörkum sem Alþjóðabankinn skilgreinir, með minna en dollar á dag í tekjur.  

 

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is