20.4.2008
Skólagjöld við HÍ?

Ritstjóri 24 Stunda gerir mér þann heiður að vitna í mig í leiðara til stuðnings skólagjöldum við Háskóla Íslands og aðra opinbera háskóla. Það er rétt að í þessu efni tel ég stefnu Samfylkingarinnar ranga. Í ritgerð minni: ,,Breytum rétt, leið jafnaðarmanna til móts við 21. öldina” tek ég á nokkrum bannhelgismálum jafnaðarmanna; eitt þeirra er skólagjöld.

Ritgerðin er hér á vefnum og lesa má kaflann um skólagjöld ásamt öðru hér.

Í grein sem ég sendi ritstjóra 24 Stunda segir:


Ritstjóri 24 Stunda gerir mér þann heiður að vitna í mig í leiðara til stuðnings skólagjöldum við Háskóla Íslands og aðra opinbera háskóla. Það er rétt að í þessu efni tel ég stefnu Samfylkingarinnar ranga. Í ritgerð minni: ,,Breytum rétt, leið jafnaðarmanna til móts við 21. öldina” tek ég á nokkrum bannhelgismálum jafnaðarmanna; eitt þeirra er skólagjöld. Grundvallarforsenda fyrir þeim er að hið góða jafnaðartæki Íslendinga, Lánasjóður íslenskra námsmanna, (LÍN) starfi af fullum styrk og veiti lán með tekjutengdum afborgunum. Í dag mun staðan vera sú að helmingur námsláns jafngildir styrk frá skattborgunum.

Um skólagjöld við opinbera skóla eru goðsagnir sem vert er að taka á:

1) Skólagjöld valda misrétti, því aðeins efnameira fólk getur veitt sér að ganga í háskóla. Þetta er sannanlega rangt ef LÍN lánar að fullu fyrir skólagjöldum. Þau breyta því engu um tekjustöðu fólks á meðan námi stendur. Staðreyndin er sú að í hinu mikla jafnaðarsamfélgi Íslands geta nánast allir sem vilja farið í háskóla burtséð frá fjárhag og skólagjöld munu engu breyta um það ef LÍN starfar sem nú.

2) Skólagjöld fæla fólk frá námi og vinna gegn markmiðinu um að þjóðin menntist. Þetta sýnir reynslan að er rangt. Svonefndir ,,einkareknir” háskólar á Íslandi (þeir eru auðvitað fyrst og fremst ríkisstyrktir) taka all há skólagjöld og ásókn í þá sýnir að þau fæla ekki frá. Það gera erlendir háskólar líka og margir Íslendingar kjósa að sækja dýrt nám í þeim. Lang flestir sem nú kjósa að ganga í háskóla fórna tekjumöguleikum á meðan námið stendur og safna skuldum vegna framfærslu og námskostnaðar, vitandi að sú ákvörðun skilar að líkindum ,,ávöxtun” í auknum tekjum seinna, og ef ekki, þá að minnsta kosti lífsfyllingu sem er hverrar afborgunar virði síðar á ævinni.

3) Skólagjöld eru ósanngjörn því þau leggja byrðar á þá sem fá háskólamenntun umfram aðra. Þetta er rangt vegna þess að almennir skattborgarar fjármagna háskólamenntunina að lang stærstum hluta. Með núverandi fyrirkomulagi þar sem menntamaðurinn greiðir aðeins helming námsláns til baka er með skólagjöldum seilst í vasa þeirra sem sannanlega hafa góða greiðslugetu, mjög oft í krafti menntunar sem að stærstu hluta er kostuð af öðrum. Með því að taka upp hófleg skólagjöld borga hinir tekjuháu meira fyrir menntun sína en hinir tekjulægri, þetta er kölluð jafnaðarmennska.

4) Skólagjöld ,,stýra” fólki í hátekjugreinar frá ,,illa borguðum fræðum”. Ætli það séu ekki frekar háu tekjurnar síðar á lífsleiðinni sem stýra fólki í slíkar greinar? Og allir vita að á óvísan er að róa í þeim efnum.


Hver er kosturinn við skólagjöld?

Við núverandi aðstæður mun upptaka skólagjalda við HÍ og opinbera skóla stórauka tekjuflæði til þeirra eins og reyndin hefur verið með ,,einkaskóla”. Mest koma þessar auknu tekjur frá ríkissjóði vegna þess að námslán til greiðslu gjaldanna eru að stórum hluta styrkir til þeirra sem njóta. Á þá ekki bara að auka framlög til skólans beint af fjárlögum? Já og nei. Já, framlög bera að auka, en það er ekki nóg, því við núverandi aðstæður er rétt að þeir sem hafa góða greiðslugetu síðar á ævinni í krafti menntunar sinnar taki meiri þátt í nauðsynlegri tekjuaukningu HÍ en aðrir. Það er auðvitað hægt óbeint í gegnum skattkerfið, en þá ber að líta til ákveðins misréttis sem þarf að leiðrétta, misréttis sem nemendur við HÍ líta alltaf framhjá. Um áratuga skeið hafa margir íslenskir námsmenn kosið að leita menntunar við bestu háskóla heims, austan hafs og vestan, þrátt fyrir stóraukinn kostnað í formi framfærslu og skólagjalda. Þeir snúa oftast heim með þungan skuldabagga sem þeir greiða af fram á grafarbakkann. Þeir sem neita að láta ,,stýra” sér vestur á Mela í ,,frítt” nám horfa á vini sína og félaga útskrifast þaðan gjaldfrjálst með miklu minni skuldir. Upp á síðkastið hafa síðan komið innlendar námsleiðir á háskólastigi þar sem aukin fjölbreytni er að hluta borin uppi af skólagjöldum nemenda.

Það er gæfa Íslendinga að svo margir skuli hafa valið skuldaleiðina, því á þann hátt höfum við fengið menntun í landinu á mun hærra stigi en við hefðum geta staðið undir sjálf. ,,Misrétti” er ekki fólgið í því að taka upp skólagjöld við HÍ. Misrétti, ef eitthvert er, hefur falist í því marga undanfarna áratugi að þeir sem hafa sótt menntun erlendis sem annað hvort var ekki í boði við HÍ eða ekki samkeppnishæf að gæðum, urðu að borga sjálfir miklu meira fyrir nám sitt en hinir sem kusu að vera heima. Um þetta kann ég mörg dæmi og greiði glaður sjálfur af einu þeirra árlega. Þjóðin hefur stórlega hagnast á því að svo margir hafa nýtt sér bestu fáanlegu menntun erlendis, þó svo að þeir einstaklingar sem það gerðu axli miklu meiri námsskuldir en aðrir.

Hundrað bestu?

Háskólarektor hefur sett fram skörulega það markmið að HÍ verði einn af hundrað bestu háskólum heims. Auðvitað á að hugsa stórt. Og engum dylst að slíkur metnaður kallar á aukin framlög. Sem fyrr munu þau að lang stærstum hluta koma frá skattborgurum landsins, þeim sjálfum til heilla. Það er hins vegar engin goðgá að ætla þeim tekjuhæstu af nemendahópnum að borga ögn meira í framtíðinni en hinir til þessa átaks, og það gera þeir með hóflegum skólagjöldum. Á hitt ber að líta að það er í sjálfu sér ekki nægjanlega metnaðarfullt að HÍ verði í hópi hundrað bestu. Við munum aldrei standa undir því að reka háskóla sem er einn af hundrað bestu á öllum sviðum. Eftir sem áður skal Ísland stefna að því að sem flestir komist í gott nám erlendis. Metnaður okkar á að standa til þess að eins margir íslenskir námsmenn og mögulegt er sæki einhvern af hundrað bestu háskólum heimsins, og veita þeim styrki og námslán til þess eins og þarf. Á þann hátt opnum við íslenskum námsmönnum sem hafa til þess burði greiða leið að bestu fáanlegri menntun á ,,heimsmarkaði” mennta og fræða. Í þessu hefur vanmetið samkeppnisforskot Íslendinga falist á undanförnum áratugum og nú þarf að nýta enn frekar þau tækifæri sem þannig bjóðast. Fyrir þessu ættu íslenskir námsmenn að berjast, en ekki skjóta sér undan hóflegri ábyrgð á eigin velferð.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is