3.3.2008
Alnæmi í hnotskurn

Hefur páfi rétt fyrir sér?  Gera smokkar illt verra í barátunni við Alnæmi?  Afríkulönd í sunnanverðri álfunni í eru meðal þeirra landa sem hafa hæsta tíðni HIV smits í öllum heiminum, 15-30% af fullorðnum landsmönnum. 25 milljónir manna hafa látist úr sjúkdóminum í heiminum. 40 milljónir eru smitaðar. Á degi hverjum deyja 8.000 manns úr tengdum sjúkdómum og 11.000 manns smitast daglega.

Í Afríkuför páfa (mars 2009) vakti mikinn úlfaþyt er hann talaði enn einu sinni gegn notkun smokka og sagði þá jafnvel skaðlega í barátunni við Alnæmi.  Páfi er trúarleiðtogi, ekki sérfræðingur um lýðheilsu, veiruvarnir eða smitsjúkdóma, og því síður kynhegðun í álfu sem telur milljarð manna (þar af 160 milljónir kaþólikkar).  Eins og þessi grein á BBC sýnir eru álitaefnin nokkur, en páfi á ekki samleið með helstu sérfræðingum um málefni.

Talið er að tíðni HIV-smits (sem getur leitt til alnæmis, eða AIDS) í suður hluta Afríku aukist ekki lengur, en minnkar ekki heldur eins og lagt er upp með Þúsaldarmarkmiðunum. Ég átti þess kost að ræða stöðu mála við nokkra sérfræðinga um þessi mál og skýrðu þeir frá eftirfarandi meginatriðum:




Helstu vandamál miðað við ástandið í dag

Innviðir og heilbrigðiskerfi landanna rísa ekki undir byrðinni. Hlutfall heilbrigðisstarfsmanna miðað við heildarfjölda landsmanna er alltof lágt í þessum löndum og getan til að reka áfram þau verkefni sem þegar hafa verið sett á laggirnar orkar mjög tvímælis.
Möguleikinn til að verjast með þjálfuðu fólki og stofnunum er því stærsta vandamálið núna, ekki fjármögnun. Alþjóðleg framlög hafa farið úr 1.6 milljörðum dollara í 8.3 milljarða á bilinu 2001-2008. Höfuðvandinn í dag er að koma þessu fé í skilvirk verkefni sem löndin í sunnanverðri Afríku ráða við að reka með þeim mannafla og innviðum sem þau hafa yfir að ráða.

Lausna leitað

Ekki er hægt að benda á neina algilda leið sem virkar eftir 25 ára baráttu við AIDS. Pólitísk forysta á æðstu stöðum skiptir gríðarmiklu máli, og benda menn á Uganda og Botswana í því sambandi sem lofsverð dæmi. Forysta á æðstu stöðu leiðir til þess að kröftum er beint í rétta átt, unnið er gegn fordómum, og fjárveitendur reynist gjafmildari. Hún dugar ekki alltaf. Þótt borið sé lof á Zimbabwe fyrir að forgangsraða rétt af hálfu forystumanna næst slakur árangur þar. Reyndar er staðan sú í því landi að þriðji hver menntaður heilbrigðisstarfsmaður starfar erlendis, einkum þar sem bjóðast betri kjör á Vesturlöndum.

Vegna þess hve hin opinberu heilbrigðiskerfi eru veik og illa mönnuð telja menn að í sívaxandi mæli verði að leita til einkaframtaks og frjálsra félagasamtaka um að reka forvarna- og fræðsluverkefni, jafnvel að hluta meðferðarverkefni.

Ennfremur sýni reynslan að jafningafræðsla (people to people) frekar en boð að ofan (doctor to people) skili meiri árangri. Í því samhengi verði samþætting með öðrum þróunarverkefnum lykill.

Grasrótarnálgun felur í sér að taka í vaxandi mæli til greina menningarlegt og félagslegt samhengi á hverjum stað, sem sannast hefur að skiptir öllu máli til árangurs.

Á móti kemur að vandasamt er að útfæra á stærri kvarða þau staðbundnu afmörkuðu verkefni sem skila árangri.

Vönduð áætlun sé því mikilvægari sem stendur en fjármunir og miðist að því að nota betur mannafla og inniviði sem þegar eru til staðar. Hluti áætlunar verði að byggja upp mannafla sem geti tekist á hendur slík verkefni.

Mikil áherrsla er lögð á að skilgreina ekki HIV-mál sem heilbrigðisvandamál, heldur samfélagsmál sem sé samofið mörgum öðrum samfélagsþáttum. Viðbrögð eigi að miðast við það.

Lærdómar

Viðmælendur leggja höfuðáherlsu á að í félagslegum verkefnum sé AIDS þátturinn alltaf tekinn til greina. Þótt verkefnum sé ekki beint gegn AIDS sérstaklega ættu þau alltaf að innibera þátt sem snúi að alnæmisvörnum. Árangursríkustu verkefnin væru alls ekki alltaf þau sem vörðuðu AIDS mál beint, heldur frekar þau sem kæmu óbeint að efninu, svo sem gegnum fullorðinsfræðslu, vatns- og heilbrigðismálaaðstoð og fleira í þeim dúr. Fólk sem lærði að lesa ætti samtímis að læra um að verjast HIV smiti. Nefnd voru fullorðinsfræðslu- og vatnsbólaverkefni sem sérlega heppileg til að samþætta HIV kynningu. Besta leiðin væri að HIV fræðsla og barátta væri viðbót við önnur verkefni sem hefðu samfélagslegt gildi, og þá ekki sem eftirþanki þegar allt annað væri komið, heldur inngróinn þáttur í verkefni frá upphafi. Alæmisfaraldurinn væri slík ógn við samfélagsgerðina í heild að verkefni sem miða að samféalgsframförum yrðu að taka á málinu samtímis því að aðrir þættir væru þróaðir fram á við.

Sjá The Economist um páfa og smokkar.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is