5.5.2007
Hvers vegna ekki einkavæða Landsvirkjun?

(Maí 2007)

Verður gengið frá því klárt og kvitt fyrir kosningar á Íslandi að Landsvirkjun verði ekki einkavædd á næsta kjörtímabili? Reynslan sýnir að þeim er ekki treystandi sem slá úr og í með slík mál.

Ég minni á eftirfarandi:

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins ályktaði haustið 2005 sérstaklega um að stefna bæri að einkavæðingu Landsvirkjunar og útfærði formaður flokksins þá línu í viðhafnarviðtali við Morgunblaðið. Fullt samræmi er þar með í stefnu flokksins: Hann gaf aðganginn að fiskimiðunum til sægreifanna, skipti ríkisbönkunum milli pólitískra gæðinga og vill nú koma orkuauðlindinni úr almannaeign í greipar á einkavæddum einokunarrisa.
Reynsla Bandaríkjamanna um að stefna beri að hinu gagnstæða er ólygin, og um það fjalla ég hér.


Samkeppni virkar ekki á raforkumarkaði Bandaríkjanna

Stórblaðið New York Times skýrir frá því 21. nóvember 2006 að æ fleiri óánægjuraddir heyrist frá iðnrekendum, sveitarfélögum og orkuveitum þeirra auk neytendahópa sem staðhæfi að ,,markaðurinn virki ekki” í raforkugeiranum. Verð hefur ekki fallið síðan fallið var frá strangri verðstýringu alríkisstjórnarinnar fyrir áratug.

Í Texas hefur verð til neytenda hækkað á uppboðsmarkaði veitna vegna þess að framleiðendur notfæra sér stöðu þar sem hæsta tilboðsverð er í raun verðið sem gildir fyrir alla. Framleiðendur geti líka minnkað framboð ef þeim sýnist svo til að sprengja upp verð þegar spurn er mikil. Sterkar vísbendingar eru um að þeir stýri verði með þessum hætti. Samkeppnisnefnd alríkisins er sökuð um að ráða ekki við það verkefni sitt að skapa forsendur fyrir virkum markaði. Nefndin bannar einokun, en getur lítið gert við fákeppni örfárra fyrirtækja (fáokun), svo sem í Kaliforníu þar sem einungis sex fyrirtæki eru í raun framleiðendur, (1400 orkuver) þó svo að þau feli samþjöppun með ýmsum ráðum. Í New Jersey eru aðeins 10 framleiðendur með stóran hluta markaðar og verðið hefur rokið upp milli útboðstímabila.

Fræðimenn sjá villuna

Hagfræðikenningin er þekkt: framleiðendur keppa um hylli neytenda með lægra verði og neytendur njóta. Reyndin er önnur. Á miklum eftirspurnartímum rýkur verðið upp og tilgreind dæmi um að verð á megavatsstund hafi hækkað úr 50 dölum í 1000 á topptímum með vafasömum aðferðum. Það eru ekki bara síkveinandi neytendafrömuðir sem haga orðum sínum á þennan veg. Fræðimenn hafa sett upp hermilíkön í tölvum sem geta reiknað markaðshegðun og sýnt fram á hvernig fákeppnismarkaður getur knúið fram svo hátt verð að líkist einokunarmarkaði. Hermilíkönin sýna það sama og reikningarnir hjá neytendum: Verðið stórhækkar. Raforka er einfaldlega vara sem lagar sig illa að kröfum um ,,fullkominn markað”. Fræðilegar ástæður eru raktar í ítarlegu máli, en leikmönnum er til dæmis augljóst að ekki er hægt að neita sér um rafmagn eins og maður hættir að kaupa ákveðna almenna vörutegund ef verð hækkar. Framleiðandinn er í ráðandi hlutverki og því sterk rök fyrir opinberri íhlutun með einum eða öðrum hætti til að verja neytendur.

Sjálfstæðisflokkurinn verður að svara um einkavæðingu

Í umræðum í borgarstjórn um sölu á hlut Reykjavíkur í Landsvirkjun sagði borgarstjóri réttilega að ,,enginn fyrirvari” væri í samningnum um einkavæðinu. Jafn mikill talsmaður og ég var þess að borgin seldi hlut sinn í Landsvirkjun er ég andvígur því að Landsvirkjun verði seld í einkavæðingu. Ekki aðeins vegna þess að ég tel að hér séu engar forsendur fyrir því að koma á samkeppni á agnarsmáum neytendamarkaði, heldur líka vegna þess að verði til einkavæddur risi á raforkumarkaði muni það koma sérlega illa við Reykvíkinga. Orkuveitan kaupir mikið rafmagn frá Landsvirkjun til að selja áfram og mun því lenda í heildsölugreipum hennar jafnframt því að Landsvirkjun fer í samkeppni á smásölumarkaði. Því gekk ég eftir því við borgarstjóra að hann myndi sem áhrifamaður (væntanlega?) í Sjálfstæðisflokknum beita sér gegn því að stefna flokksins næði fram að ganga. Hann sagðist myndu gera það ,,ef” hann teldi það gæti gengið gegn hagsmunum borgarinnar. Á meðan standa þessi orð Geirs H. Haarde formanns flokksins: ,,Ég tel að eftir nokkur ár eigi að byrja á að selja hluta af Landsvirkjun”.

Nokkur ár?

Þetta var sagt árið 2005. Þegar næsta kjörtímabili lýkur verða komin ,,nokkur" sex ár frá því að þessi ummæli féllu.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is