Dabækur: maí 2012. ,,...eins dauði"

Dagbækur frá Afríku maí 2012Eftir fimm ár í Afríku er nú komið að heimferð. Ljónahundurinn Freyja og heimilsvarðhundur lagði í þriggja sólarhringa ferð heim á Frón til að þiggja gestrisni einangrunaryfirvalda í heilan mánuð. Hinar fábrotnu reitur okkar hjóna seldar, gefnar eða pakkað til að fara í langferð líka og Kisi kominn í fóstur, örlög hænsnanna verða heldur daprari. Hver vegur að heiman er vegurinn heim... og nú liggur hann þangað. Það er því komið að leiðarlokum þessarar útgáfu fréttabréfa frá Afríku. En það er ekki hægt að segja að síðustu vikurnar hafi verið tíðindalitlar í ,,Hinu heita hjarta Afríku” eins og Malavar kalla landið sitt:Það voru örlagaríkir dagar fyrir páska í Malaví

þegar hinn aldni og umdeildi forseti, Bingu Wa Mutharika hætti að tala í miðju samtali (sumir segja samræði) og fluttur með hraði á spítala þar sem kom í ljós að hjartað hafði gefið sig. Eins dauði er annars brauð. En hvers? ,,Óvissa í stjórnskipan landsins” varð allt í einu ástand sem enginn vissi að gæti komið upp við svona tækifæri. Því stjórnarskráin er skýr: Verði forseti óstarfhæfur tekur varaforseti við. En valdaflokkurinn var ekki alveg viss um að það væri heppilegt. Í tómarúminu (meinta) voru haldnir neyðarfundir ráðherra sem alls ekki vildu að Joyce Banda varaforseti tæki við. Hún var einmitt rekin úr valdaflokknum fyrir tveimur árum og hafði stofnað sinn eigin flokk en harðneitað að láta af embætti varaforseta. Martröðin var nú komin á daginn: Svarti sauðurinn kominn í forystu. En um þetta vissu ekki margir meðan stóð. Reyndar lak strax út að forsetinn væri ,,alvarlega veikur” og yrði fluttur til Suður Afríku í aðgerð en nú vitum við að hann var liðið lík þegar flugvélin hóf sig á loft kvöldið fyrir föstudaginn langa. Þá voru fjölmiðlar eins og BBC og Facebook búin að útskurða hann látinn en heima í Malaví átti fólk ekki að vita neitt annað en hann væri á leið til lækna. Reyndar fóru smáskilaboð starfsmanna sjúkrahússins víða og fullyrtu að hann færi ,,no more” og hefði ekki verið þegar hann kom á spítalann. Myndir fylgdu. Segja sögur. Miðlar landsins þögðu en nýju samskiptarásinar fullyrtu enn að sá gamli væri ,,no more”. Fréttaþögnin var nauðsynleg meðan valdaflokkurinn reyndi að átta sig á því hvað bæri til bragðs að taka. Bingu mátti því ekki vera opinberlega ,,no more”. Eða svo segja sögur. Úrvalsdeild þeirra sem ekki vildu taka stjórnarskrána gilda fundaði stíft til að fá dómara til að láta bróður forsetans og utanríkisráðherra sverja eið að forsetaembættin. Bak við tjöldin fóru fram viðræður við herinn um að valda reitinn. Enn segja sögur. Tvo sólarhringa var ,,óvissan” í loftinu og í viðtölum við alþjóðlega miðla sögðu lögspekingar að ekki væri neinn vafi á ferðum, varaforsetinn tæki við. Frú Banda var varkár og sagði stjórnarskrána í gildi og vitnaði í viðtöl við spekinga en nú hefur komið á daginn að samtímis átti hún í viðræðum við herinn um að varna valdaráni. Þegar ,,föstudags langa genginu” var ljóst að ekki yrði hægt að búa til nýjan forseta í hvelli í bága við stjórnarskrána og að herinn hafði tekið sér stöðu við heimili varaforsetans til að verja hana fyrir þeim sem hugsanlega hefðu illt á prjónum gáfust þau upp. Fljótlega fór löng lest diplómata á flöggum prýddum bifreiðum sínum til fundar við hinn nýja forseta. Valdaráni afstýrt. Nú á að rannsaka alla þessa sögur. Í fyrstu þingsetningarræðu sinni sagði forsetinn að allt þetta yrði krufið í kjölinn. Fyrsti kvenforseti í sunnanverðri Afríku. En í millitíðinni var gamli forsetinnn grafinn með viðhöfn. Menn bera virðingu fyrir látnum forsetum í Malaví og skiptir engu hvort þeir hafi verið umdeildir. Forsetinn látni hafði verið forsjáll og undirbúið þennan viðburð vel með því að reisa hvítt risavaxið grafhýsi í heimasveit sinni, fyrst yfir fyrrverandi frú sína og ætlað sjálfum sér stað þar við hlið. Hýsið er kallað ,,Taj Mahal Malaví" og er vissulega stórbrotið í samanburði við grænar sveitir og brúna leirkofa allt í kring. Marmarahvít hvelfing, súlur, breiðar tröppur, styttur sem blaka vængjum og horfa yfir velli en undir niðri er hvelfing fyrir tvo líkama. Fjöldi afrískra forseta kom til útfarar og bar ekki minnst á ,,félaga” Robert Mugabe” ásamt frú. Þarna sat ég á palli, fulltrúi Íslands, frá klukkan níu að morgni til fjögur síðegis með vatnsflöskuna eina að vopni meðan ræður streymdu fram og messa sungin að kaþólskum hætti, en þá færðum við okkur inn í grafhvelfinguna og horfðum á kistuna síga niður í malavíska mold. Múgur og margmenni var á völlum, háskælandi konur að fornum útfararsið, stór tjöld blöktu í golunni og ýmsar pólitískar merkingar flutu með í ræðuhöldunum. Gamli forsetinn var stórbrotinn ,,en ekki gallalaus” sagði bróðir hans utanríkisráðherrann sem nú hefur verið rekinn. Ekki gallalaus. Það er niðurstaða þeirra sem skoðað hafa ríkiskassann sem er frekar eins og grafhýsi en stoð og stytta fátækrar þjóðar. Bingu skildi við Malaví á kúpunni en hann gerði það á stórbrotinn hátt. Því miður var lúðrasveitin á staðnum ekki jafn stórbrotin. Malavar gera mikið úr útförum og þessi var ekki undantekning. Reikningurinn hefur ekki verið birtur en áætlun upp á tvö hundruð og fimmtíu milljónir mun ekki standast. Svo féll gengið um 50% og nýi forsetinn fór um Afríkulönd til að fá lánaða tankbíla með eldsneyti svo hægt væri að opna bensínstöðvar á ný og koma samfélaginu í gang. Og helstu styrkjaríki tóku vel í að koma á þýðu í þeim helfrosnu samskiptum sem áður giltu meðan hinn yfirlýsingaglaði gamli forseti fór offari. AGS og fleirir slíkir fara fremst. Enn einu sinni tekur lítið fátækt land dýfu, enn einu sinni er farið á byrjunarreit, og enn einu sinni er bjartsýni ríkjandi þrátt fyrir allt. Er nú kyrrt um hríð.

Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is