Öngþveiti í stjórnskipan
Hvað segja lögspekingar um þessa skilgreiningu:

,,Í stjórnskipun Íslands fer Alþingi með löggjafarvaldið nema þjóðin hafi fyrir tilstuðlan forseta fengið mál í sínar hendur. Þá fara Alþingi og þjóðin saman með löggjafarvaldið..” (ÓRG).

Á þessu er hamrað margsinnis.  Þetta er þungamiðjan í ræðu forseta við synjun ICESAVE laga.

22. feb. 2011:

Í barnaskóla lærði maður þetta:

,,Löggjafarvald er valdið til þess að setja lög, sem almenningur og ríkisvald eiga síðan að fylgja. Nafnið felur það í sér að lögin séu gefin (þjóðinni) og löggjafinn er sá sem gefur lögin. Á Íslandi er Alþingi löggjafinn og hjá því er löggjafarvaldið ásamt forseta Íslands samkvæmt Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.”

(Wikipedia. Hér hefði mátt bæta við að vald forseta í þessum efnum sé aðeins formlegt, bæði er varðar löggjafarvald og eins framvæmdavald).


Í stjórnarskránni er sagt skýrum orðum:

1. gr. Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn.

2. gr. Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld samkvæmt stjórnarskrá þessari og öðrum landslögum fara með framkvæmdarvaldið. Dómendur fara með dómsvaldið.



Í 26. grein er fjallað um það sem gerist þegar forseti neitar formlegri staðfestingu laga og vísar máli til þjóðarinnar:


,,26. gr. ... Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.”


Hvar er þetta skilgreint svo að þjóðin hafi þar með fengið ,,löggjafarvald”? Hvernig er það löggjafarvald skilgeint?
Í framhaldi af þessu ber að hafa í huga:

Aðeins þrisvar hefur forseti lýðveldisins synjað staðfestingar laga.


Í fyrsta skipti AFTURKALLAÐI Alþingi lög sem forseti neitaði að skrifa undir, felldi þau úr gildi án þess að fullnægt væri ákvæði stjórnarskrár um atkvæðagreiðslu þjóðarinnar. Sami forseti og nú skilgreinir löggjafarvald þjóðinnar hreyfði engum andmælum og hafðist ekki að. Þann verknað studdu margir sem nú eru enn á Þingi.

Í annað skiptið (2010) var gengið til atkvæða og lög felld úr gildi.


Nú á að kjósa eftir synjun forseta sem segist hafa fært þjóðinni löggjafarvald.


Ég tel að stjórnarskráin kveði alveg skýrt á um rétt forseta til að vísa málum til þjóðaratkvæðis. En felur það í sér að ,,löggjafarvaldið" sé nú sameiginlega hjá Þingi og þjóð? Þetta er ekki bara spurning um formsatriði eða orðalepp, heldur þungamiðjan í rökstuðningi forseta.


Sé fallist á þessa skilgreiningu hlýtur maður að spyrja um lagalega og formlega umgjörð. Hún er engin. Hún er háð geðþótta, sem eins og dæmið nú sannar - getur verið byggt á ákaflega hæpnum rökum.


Þessi staða býður heim öngþveiti sem Alþingi hefur vitandi vits látið ógert að leysa úr. Þess vegna þarf Ísland nýja stjórnarskrá og þess vegna þarf að færa LÖGGJFARVALDIÐ TIL STJÓRNLAGAÞINGS!

 

Viðbót 23. feb 2011, af fréttavef Rúv:

Undrandi á rökstuðningi forsetans

Björg Thorarensen, prófessor:  Sérfræðingar í stjórnskipunarrétti eru undrandi á rökstuðningi forseta Íslands fyrir því að vísa Icesave lögum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Forsetinn hafi mótað nýjar kenningar í stjórnskipunarrétti og gert grundvallarbreytingar á stjórnskipun landsins.
Forsetinn segir að þar sem Icesave málið hafi verið lagt í dóm þjóðarinnar í fyrra hafi hún farið með endanlegt löggjafarvald í málinu þá. Málið sé enn á forræði þjóðarinnar þar sem ekki sé víðtæk sátt um að Alþingi eigi lokaorðið. Með rökstuðningi sínum hefur forsetinn að margra mati mótað nýjar kenningar í stjórnskipunarrétti.



,,Mér finnst nýstárlegt að skýra íslenska stjórnskipun með þeim hætti að segja að þjóðin fari með löggjafarvaldið. Það sem ég hef talið rétt er að samkvæmt stjórnarskránni þá eru það Alþingi og forseti Íslands sem fara með löggjafarvaldið,“ segir Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti.



Samkvæmt þessari nýju kenningu hafi orðið grundvallarbreyting á íslenskri stjórnskipun.



Verði Icesave lögin felld í þjóðaratkvæðagreiðslu og samþykki Alþingi enn á ný lög um málið má velta fyrir sér hvort þau fari ekki sjálfkrafa í þjóðaratkvæði, þar sem þjóðin fer með löggjafarvaldið samkvæmt kenningu forsetans.



,,Ég vil ekki leggja of mikið út af því hvernig þessi nýja kenning virkar. Ég átta mig ekki alveg á því, út frá stjórnarskránni hvernig hún virkar. Ég vil bara undirstrika að það er alveg ljóst að þjóðin er uppspretta löggjafarvaldsins en það þýðir ekki að þjóðin fari með löggjafarvald. Ég held að það sé gífurlega stór munur á þessu tvennu. En ef það er orðið viðtekið að þjóðin fari með löggjafarvaldið held ég að við þurfum að hugsa þetta kerfi upp á nýtt.“



Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is