Í tilefni stjórnlagaþings


Ný stjórnarskrá er nauðsyn

Í tilefni kosningar til stjórnlagaþings er hér endurbirtur kafli úr ritgerð minni frá 2005: Breytum rétt.

(Kaflann um lýðræðisvæðingu má lesa í heild hér).


Endurskoðun stjórnarskrárinnar er óleyst eilífðarmál stjórnmálaflokkanna, og það sleifarlag aðeins ein ástæða þess að málið á ekki að vera í höndum þeirra. Stjórnarskráin er réttindaskrá borgaranna og setur valdastofnunum skorður. Þess vegna á endurskoðun hennar að fara fram á frjálsum vettvangi borgaranna en ekki undir formerkjum þeirra valdastofnana sem um er fjallað. Stjórnlagaþing með þátttöku á breiðum grunni er tillaga um málsmeðferð sem fram hefur komið og er réttmæt. En auðvitað kusu stjórnarflokkarnir að skipa enn eina nefndina með eigin forræði, sem í enduðu forystumenn stjórnmálanna og efndu um leið til dæmigerðrar deilu sem ekki mun neinn vanda leysa.

Íslendingar eiga nú tækifæri á því að fara í gegnum þá umræðu sem þeir fengu aldrei þegar kóngur kom með plaggið, og taka út þann þroska sem margar aðrar þjóðir hafa fengið með því að hugsa sig í gegnum alla þá dýrmætu þætti sem stjórnarskráin tekur til. Það mál er of mikilvægt til að vera falið forsjá stjórnmálaflokka, enda á stjórnarskráin að setja þeim reglur. Mig greinir sem sagt á við þá sem telja að stjórnmál eigi að fara fram innan vébanda stjórnmálaflokka og aðeins þar.

Lýðræði á ekki bara við það hvernig kosið er til sveitarstjórna, þings, skipað í ríkisstjórn, og ríkisvaldið þrígreint með skýrum hætti. Þar eru þó stór verkefni sem vert er að gefa gaum strax: Að landið verði eitt kjördæmi, að þingið verði eflt með því að ráðherrar (framkvæmdavaldið) geti ekki verið þingmenn (löggjafarvald) á sama tíma, að tryggt verði að dómsvaldið verði í raun og sanni sjálfstætt með því til dæmis að hæstaréttardómarar séu ekki skipaðir með geðþótta eins ráðherra.

Þjóðaratkvæði, og miklu meira

Réttur borgaranna til að hafna gjörðum ríkisstjórnar eða Alþingis með því að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu er svo eðlilegur að jafnaðarmenn setja hann á oddinn. En eigum við ekki að ganga lengra og krefjast þess að skipulögð samtök borgara geti samið frumvarp til laga og safnað fyrir því svo miklum stuðningi að hægt sé að krefjast atkvæðagreiðslu um það án atbeina Alþingis?

Augljóst dæmi um þörfina fyrir slíkt kemur í hugann: Úr því Alþingi mistekst æ ofan í æ að tryggja ákvæði um sameign auðlinda þjóðarinnar í stjórnarskrá, eiga ekki frjálsbornir menn að fá að semja um það frumvarp til laga, safna stuðningi og fá um það kosið? Eða: Úr því að Alþingi mistekst svo hrapallega að koma á kjördæmaskipan sem vit er í, megum við hin þá ekki leggja til í krafti fjöldans að landið verði eitt kjördæmi og fá um það kosið? Rétturinn til þjóðaratkvæðagreiðslu á því að vera skilgreindur jákvætt. Í stað þess að vera nauðvörn gegn ofríki Alþingis eða stjórnar (rétturinn til að hafna gjörð), feli hann í sér tækifæri til að taka frumkvæði um mál og knýja í gegn með fjöldahreyfingu og samþykki þjóðarinnar. Auðvitað þarf að gera kröfu um mikið afl fjölda til að hreyfa málum með slíkum hætti. Hér er ekki gerð krafa um endalausar uppákomur og ábyrgðarlausa múgsefjun sem stjórntæki. Jafnvægi þarf að ríkja og að öllu jöfnu er fulltrúalýðræði með Alþingi hinn rétti vettvangur til að ráða ráðum þjóðar.

Það góða við umræðuna um málskotsrétt forseta Íslands í kjölfar þess að hann neitaði að samþykkja fjölmiðlalögin í júní 2004 var ekki síst þetta: Hún leiddi í ljós hve takmarkaður þessi réttur er, og lítið hald í honum fyrir þjóðina. Það er í raun ekki lýðræðislegt að einn maður, og aðeins hann einn, geti stöðvað Alþingi á villigötum. Átakalínan í þessu máli var skýr, milli hægri og vinstri, þar sem íhaldsöflin héldu því fram að málskotsrétturinn væri í raun ekki til hvað sem stjórnarskráin segði, og ef hann væri til ætti aldrei að beita honum, og ef allt þryti yrði af afnema hann strax. Við segjum á móti: Málskotsrétturinn er lifandi veruleiki, og hann á að formfesta og skilgreina og hann á að vera í höndum borgara sem bindast um það samtökum að hafna vilja Alþingis, ekki bara hjá einum manni á Bessastöðum. Þetta er hluti af dreifstýringu og hluti af þeirri hugmyndafræði sem vill færa vald frá kjörnum fulltrúum og þeim stofnunum sem þeir starfa við, og til fólksins alls.

Þetta þýðir – með fullri virðingu fyrir Alþingi – að ég tel það ekki hinn endanlega dómara um öll mál er þjóðina varða. Ég tel að þjóðin megi setja Alþingi stólinn fyrir dyrnar ef og þegar sérstaklega stendur á, þegar myndast ,,gjá milli þings og þjóðar“.


Sams konar hugmyndafræði er að baki þess að færa vald frá ríkinu til sveitarfélaga. Á Íslandi er valdsvið ríkis um 70% af opinberum afskiptum, sveitarfélaga um 30%. Jafnaðarmenn eiga að setja sér það mark að í vel skilgreindum áföngum snúist þetta hlutfall við. En þá þurfa sveitarfélögin auðvitað að hafa til þess burði. Þetta á ekki bara við um ,,félagsleg þjónustuverkefni“ eins og þjónustu við fatlaða, heldur til dæmis löggæslu og framhaldsskóla. Rökin eru þau að vald yfir nærþjónustu eigi að liggja sem næst þeim sem hana veita – nota, og greiða fyrir. En það er ekki nóg. Aukin dreifistýring stuðlar ekki aðeins að því að vald sé fært frá fáum fulltrúum til margra, heldur gerir þá kröfu á hendur borgurum að þeir axli ábyrgð. Hún er því rökrétt í samhengi við það sem áður var rætt: Engin réttindi án ábyrgðar.

Hinn rétti mælikvarði er réttur borgarans

En það eitt að færa verkefni milli stofnana opinbera valdsins (ríkis og sveitarfélaga) er ekki nóg. Þetta er aðeins fyrsta skrefið í lýðræðisvæðingu. Stjórnmálamönnum og yfirmönnum stofnana hættir til að líta á málaflokk eða þjónustu frá sínum bæjardyrum. Hinn rétti mælikvarði er réttur borgarans, notandans. Ríkisútvarpið er ekki til fyrir ríkið, og ekki heldur starfsmenn þess, heldur notendur. Skólakerfið er ekki til fyrir fræðsluskrifstofur, ekki fyrir skólastjóra eða kennara, heldur nemendur. Borgarleikhúsið er ekki til fyrir leikara, heldur listunnendur meðal almennings. Innan allra stofnana og kerfa er innbyggð hagsmunavörn sem á yfirborðinu samsamar sig hagsmunum notenda, en gerir það oft ekki í raun, og mun ekki gera nema notendaaðhald og þátttaka notenda í mótun stefnu séu tryggð, með einum eða öðrum hætti. Nýfrjálshyggjan segir að þá og því aðeins sé þetta hægt að komið sé á virku ,,sölu/kaupsambandi“ milli seljanda og neytanda. Jafnaðarmenn líta til mun fleiri þátta, svo sem félagslegra, menningarlegra og – ekki síst – pólitískt hugmyndafræðilegra þátta, er varða jöfnuð.

Valddreifing, eða dreifstýring, á að vera krafa jafnaðarmanna.

– Við viljum lýðræðisvæða samfélagið, þar með talin hefðbundin stjórnmál, en ekki aðeins þau.
– Við viljum færa vald til fólksins, frá ríki, frá stofnunum, frá kjörnum fulltrúum sem taka sér of smámunasamt og miðstýrt vald.
– Við viljum minnka opinbera forsjá og auka réttindi félaga og einstaklinga og fela þeim aukna ábyrgð, enda sé málum lýðræðislega stýrt með almannaheill að leiðarljósi.


19.aldar lýðræði miðaðist við að stýra þjóðríkinu og halda í jafnvægi. 21.aldar lýðræði kallar á miklu fjölþættari aðferðir en gamla fulltrúalýðræðið gegnum flokkakerfi gerir ráð fyrir.


Til baka
Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is