Sjlfstismenn borginni taka rtta kvrun


Sjálfstæðismenn í borginni hafa tekið hárrétta ákvörðun með því að undirbúa viðræður við menntamálaráðuneytið um að Reykjavík taki að sér rekstur framhaldsskóla.

Menntaráð samþykkti þetta nýlega og færði formaður ráðsins, Júlíus Vífill Ingvarsson frábær rök fyrir málinu: ,, Grunnskólarnir í borginni eru í eðli sínu grenndarþjónusta, nærþjónusta, sem byggir á þekkingu á grenndarsamfélaginu, samvinnu við foreldra og nemendur og ég held að okkar reynsla á þessu sviði og mörgu öðru geti nýst framhaldsskólanum.” Fleiri rök má færa fyrir málinu, eins og fram kom hjá menntaráði: Grunnskólanum hafi vegnað vel eftir að sveitarfélögin tóku hann yfir frá ríkinu. Mörg tækifæri felast í breyttri stöðu, svo sem að þjóna enn fleiri nemendum sem vilja hefja framhaldskólanám áður en grunnskólanámi lýkur, en það hefur verið stefna borgarinnar um árabil. Í anda grunnskólastefnu Reykjvíkurborgar myndi framhaldsskóli á hennar vegum bjóða einstaklingsmiðað og sveigjanlegt nám. Þá myndi borgin væntanlega halda betur utan um nemendahópinn en nú er gert, því brottfallstölur úr framhaldsskólum ríkisins eru skelfilegar. Auðsætt er að nemendum yrði miklu betur þjónað en framhaldsskólar gera í dag með forvörnum gegn vímuefnum og stefnu í nýbúamálum.


Ég vil hrósa Sjálfstæðismönnum


Ég vil hrósa Sjálfstæðismönnum fyrir þessa stefnu. Hún er nákvæmlega sú sama og við Samfylkingarfólk lögðum til í menntaráði s.l. haust, en var þá því miður sópað af borðinu og tillaga okkar felld á innan við mínútu, umræðulaust, eins og frægt varð. Við bárum sömu tillögu upp í borgarstjórn viku síðar, en þá fór sjálfur borgarstjórinn í ræðustól og taldi ósk um viðræður við menntamálaráðuneytið um þetta ekki ,,tímabæra”. Sjálfstæðismenn og framsókn felldu tillögu okkar. Nú hefur menntaráð gert rök okkar að sínum og er það sérlega þakkar- og hrósvert, því rökin eru góð og ástæðurnar gildar.


Því miður: Einn sjálfstæðismaður á móti


Því miður er einn sjálfstæðismaður á móti. Það er menntarmálaráðherrann sem rekur fánýt rök gegn borginni um ,,…að námsframboð verði fábreyttara fyrir þá sem að búa á landsbyggðinni” með því að Reykjavík taki að sér framhaldsskóla. Ekkert er því til fyrirstöðu að auka námsframboð á landsbyggðinni ef vilji er til samhliða svona tilraunaverkefni. En til að svo megi verða þurfa menn að sjá ljósið. Það hafa sjálfstæðismenn í borginni gert og ber að hrósa þeim fyrir. Innan tíðar kvinkar svo væntanlega á perunni í ráðuneytinu.

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is