19.4.2007
Sklamlin Reykjavik
Á borgarmálaráðstefnu Samfylkingar 3. september 2005 rakti ég mörg þau áherslumál sem Reykjavíkurlistinn stóð fyrir og síðan hvað ég vildi sjá gerast.  Mennta- og menningarstefna er ein af þremur meginstoðum í stefnu Samfylkingarinnar og lykilatriði í hugum frjálslyndra jafnaðarmanna sem vilja byggja upp samfélag sem gefur jöfn tækifæri þar sem verðleikar hvers og eins ráða frama og ábyrgð.
Líklega er grunnskólinn íslenski eina stéttlausa stofnun samfélagsins.
Leikskólinn verður það ekki meðan skólagjöld tíðkast, en stefna okkar er að hann verði gjaldfrjáls og stéttlaus.

Ég fjalla hér um hinar pólitísku víddir menntaumræðunnar í tengslum við borgarmálin


Fyrst eru hér nokkrar grunntölur:

Almennir grunnskólar eru kringum 40 í borginni, nemendur 15000, kostnaður á ári, rekstur og leiga húsnæðis, 11 milljarðar króna.

Leikskólarnir eru kringum 70, nemendur kringum 6000, kostnaður yfir 4 milljarðar króna.

Þetta fer langt í að vera helmingur af heildar rekstargjöldum Reykjavíkurborgar.

Fyrir síðustu kosninar höfðum við í Reykjavíkurlistanum fjárfest fyrir sem nemur 8 nýjum ráðhúsum í grunnskólum, einsetningunni lauk á þessu kjörtímabili og kostaði 11 milljarða króna í fjárfestingum, enn þarf að bæta í 1-1,5 milljarði á ári í skólabyggingar og stofnfjárfestingar og dugar varla til.

Laun grunnskólakennara nema 7-8 milljörðum króna á ári.Hér eru nokkrar meginlínur varðandi umræðuefnið:


- Grunnskólinn í Reykjavík ásamt leikskólanum eru í mikilli sókn hvað varðar innra starf og þakka ber þann eldmóð og áhuga sem skólafólk og forráðamenn barna sýna.

- Grunnskólinn í Reykjavík þarf að gera enn betur, og leikskólinn á við mönnunarvanda að etja. Við hreyfumst of hægt miðað við þá fleygiferð sem nú er á öllum þáttum samfélagsins.

- Í þriðja lagi er mér fullljóst að skólinn verður í æ ríkari mæli í brennidepli samfélagasumræðunnar og bitbein í pólitískum átökum.

Ég hef verið óþreytandi að minna skólafólk á þessa þrjá þætti og sagt:

Skólafólk, sem býr yfir mestri þekkingu og reynslu, þarf að taka þátt í umræðunni um skólamál. Sýna hvað í skólanum býr, sanna hvers hann er megnugur, taka þátt í samræðu um stórt og smátt sem varðar menntun barna. Og það verður að vera reiðubúið að laga sig sífellt að nýjum aðstæðum og sanna með eigin verkum að það þekkir og skilur kröfur upplýsingasamfélagsins. Ég vil koma skólanum meira inn í samfélasgsumræðuna, og það er ekki bara innantómt almannatengslahjal, því það þjónar því pólitíska markmiði að skattborgarinn þekki skólann og fallist á að greiða fyrir hann, og það þjónar því samfélagslega markmiði að fleiri komi að því að móta skólanna en bara lokaður heimur kennarastofunnar. (Með fullri virðingu).

Á sama tíma hef ég sagt: hin pólitísku áherslur okkar eru skýrar:

Við viljum öflugt almennt skólakerfi sem býður öllum börnum jöfn tækifæri. Við teljum að í sívaxandi mæli verðum við að mæta nemendum með einstaklingsmiðuðu námi. Við teljum að hverfisskólinn sé mikilvæg menningarstofnun þar sem menntir, listir, samfélags- og grenndarvitund mætast. Fræðin ein og sér nægja ekki einstaklingi ef hann á ekki rætur í samfélagi og við viljum að hverfisskólinn veiti þessa félagslegu vitund og þroska sem fylgir því að læra og taka ábyrgð á umhverfi sínu, innan heimilis og skóla, en líka á leiðinni til og frá. Við viljum skóla fyrir alla, án aðgreiningar. Grunnskólinn okkar mætir einstaklingnum á forsendum hans, sem þýðir að við viljum styðja þá sem standa höllum fæti, OG örva þá sem sérstakrar hæfni njóta.

Útfærsluatriði okkar eru í anda þessarar stefnu.

Rammi skólamálanna er hér ræddur fyrst:

Við höfum einsett skóla (en þó eru enn byggingar sem vantar svo sómi sé að)
Við höfum sett mötuneyti í alla skóla (svo gott sem) og stóraukið vellíðan og afköst á vinnustaðnum því samfara.

Við höfum komið á laggirnar frístundaheimilum eftir skólalok hjá yngstu börnunum, - en enn þarf að þróa það starf og efla í samvinnu við aðra tómstundastarfsemi.

Við höfum lengt skóladaginn hjá yngstu nemendum umfram lagaskyldu til að koma til móts við þá sem ekki fá aðstoð heima.

Við höfum tölvuvætt skólana og netvætt, en alltaf má deila um umfang slíks og þarfir.

Einsetning, samfelldur vinnudagur í skóla og eftir, með mat. Þetta er bylting á þremur kjörtímabilum.


Í leikskólanum hefur orðið sams konar breyting. Það er svo vel kynnt hvernig rammi leikskólastarfsins hefur breyst á þremur kjörtímabilum að varla þarf að ræða: þegar Reykjavíkurlistinn tók við gátu aðeins einstæðir foreldrar fengið heilsdagsvistun, og fæstir fyrr en fyrir 3-4 ára börn.

Í haust bjóðum við öllum börnum eldri en 18 mánaða leikskóladvöl – að því gefnu að við náum að ráða í allar stöður, en það er vonandi tímabundinn vandi. Ramminn er kominn fyrir þennan aldur.

Þá að innihaldinu:

Meginþunginn í skólastefnu er að breyta grunnskólanum úr gamla iðnaðarsamfélagsskólanum i skóla framtíðarinnar, skóla upplýsingasamfélagsins.

Einstaklingsmiðað nám er lykilhugtakið, en það felur í sér víðtækari breytingar en bara þær að mæta einstaklingnum á forsendum hans.

Námið er miðað við stöðu hvers og eins: krefjandi verkefni við hæfi, sköpun og frumkvæði, samvinna, þemanám, samþætting námsgreina, upplýsingatækni og færni í meðhöndlum og úrvinnslu upplýsinga, einstaklingsáætlanir og ábyrgð nemanda á eigin framvindu.

Skóli án aðgreiningar felur í sér að engum er vísað frá sem á annað borð getur tileinkað sér nám af þessu tagi, en til viðbótar er áherlsa skólans í 10 ára framtíðarsýn á sterka sjálfsmynd nemenda, félagsfærni, og nánari tengsl skóla og grenndarsamfélags.

Þessi grunnstefna er ekki útfærð í hörgul. Aukið sjálfstæði skóla er hluti af nýsköpun og þróun. Reykjavíkurborg hefur staðið fyrir einstaklega vel heppnuðum breytingum sem færa skólastjórnendum fjárhagslega ábyrgð og sjálfstæði. Stjórnendur og millistjórnendur fá svigrúm, og við höfum gengist fyrir námskeiðum og námsleiðum fyrir þetta starfsfólk til að efla stjórnunarþátt skólans svo sjálfstæði þýði eitthvað í raun.

Öfluguri stjórnendur eiga að vera færir um að úfæra grunnstefnuna eftir ólíkum leiðum. Þannig viljum við auka nýsköpunar og þróunarverkefni, og eru móðurskólar í tilteknum greinum dæmi um það.

Nú er meira að segja komin móðurskóli í ,,drengjamenningu” og aðlögun skólans að þörfum drengja í ríkrar mæli.

Við höfum verðlaunað nýsköpunar og þróunarverkefni árlega undanfarin 3 ár og fengið upp í 70 tilnefningar í hvert sinn, sem er frábært.

Hinn staðlaði miðstýrði skóli er því ekki lengur til.

Í samræmi við þessa stefnu: ,, látum þúsund blóm blómstra” – eða öllu heldur 15.000, þá höfum við innleytt í ríkari mæli en áður á þessu kjörtímabili nýjungar og leiðir ,,þvert á kerfið” til að auka fjölbreytni og námsframboð án þess að stækka yfirbygginguna svo miklu nemi.

Ég nefni ,,Náttúruskóla” sem er samstarfsverkefni allra þeirra sem sinna umhverfis- og náttúrufræðslu í borginni, þar sem einn verkefnisstóri miðlar á milli framboðs og eftirspurnar í skólakerfinu og kemur á tengslaneti sem skólarnir geta nýtt sér.

Á sama hátt höfum við stuðlað að ,,sköpunarsmiðju” grunnskólabarna í samstarfi við verkefni á Listahátíð, nú 2 ár í röð og enn á næsta ári, þvert á skólastofnanir.

Enn nýtt verkefni samkvæmt sömu hugsun er ,,skóli í skóla”, það er sambýli alþjóðlega skólans og Víkurskóla.

Og menningarmálageirinn hefur mjög þétt samstarf við grunnskólageirann, svo sem í heimsóknum barna til menningarstofnana okkar, en líka í því að koma á samstarfi bjóðenda menningarefnis fyrir skóla með því að gangast fyrir ,,leikhúsmessu” eða menningarmessu fyrir þá sem hafa efni að bjóða skólum.

Síðast en ekki síst höfum við komið á sýningum á skólastarfi, fyrir fagfólk, almenning og skólafólk, þar sem framsæknin verkefni og nýbreytni er kynnt á sama hátt og vörumessur eða sölusýningar eru haldnar.

Hvatningarverðlaun skóla og nemenda eru enn ein leiðin til að varpa ljósi á skólann.

Að sama skapi hefur orðið menntabylting í leikskólunum, með stóraukna áherlsu á nám með leik, samkvæmt námsskrá og faglegum stefnumiðum.

Núna hefur leikskólaráð og fræðsluráð orðið að menntaráði þar sem gefst færi á að þróa enn frekar samstarf þessara tveggja skólastiga og samvinnu.

Hugsanlega sjáum við fyrir okkur eitthvert form ,,miðskóla” þarna á milli leikskóla og grunnskóla, með fljótandi skilum milli námsstiga og auknu framboði námsleiða fyrir yngri börn, allt eftir þroska.

Stóra pólitíska málið varðandi leikskólann er auðvitað gjaldfrelsi.

Það er stefnumið Reykjavíkurlistans að innleiða gjaldfrelsi leikskóla á ákveðnu árabili, sem á endanum mun kosta skattgreiðendur um 900 milljónir króna á ári.

Núverandi staða í leikskólamálum og barnagæslumálum neyðir okkur hins vegar til að staldra við og huga að útfærslu.

Þar stendur uppúr:

Gjaldfráls leikskóli, en ekki innihaldsríkur, er ekki góður.

Starfsmannavelta á leikskólum er alltof hröð, nánast 1/3 á ári. Af 1800 starfsmönnum hætta 600 árlega og verður að nýráða. Okkur helst vel á leikskólamenntuðum, og nokkuð vel á hörðum kjarna svokallaðara ófaglærðra, sem þó hafa tekið námskeið og uppfylla ákveðnar kröfur. Jaðarhópurinn sem los er á er alltof stór.

Við verðum að vinna að því samtímis því að við útfærum gjaldfrjálsan leikskóla að hann verði innihaldrík menntastofnun og það gerum við ekki án hæfra starfsmanna.

Kennaraháskólinn (og HA) útskrifa alltof fáa kennara handa okkur, sem þýðir að aðeins 40% vinnuaflsins hafa menntun sem krafist er. Svar okkkar hlýtur að vera blanda af hvoru tveggja: meira menntað starfsfólk sem ríkið á að útvega, en líka mennta það fólk sem er á leikskólunum með skemmri starfsmenntun til að efla stöðuvitund og starfsánægju með tilsvarandi kjörum.

Við munum þegar grunnskólarnir voru að stórum hluta mannaðir leiðbeinendum, það er breytt, þessu er hægt að breyta á leikskólum líka.

Hér eru áhugaverðar staðreyndir varðandi leik- og grunnskólann.

Með lengingu skólaársins og auknum kennslutíma í grunnskólum hefur hann í raun lengst um 2 heil ár! Á nokkrum árum.

Með því að nú fara miklu fleiri börn en áður á leikskóla, og fá þar miklu markvissari kennslu en áður, koma þau stórum betur undirbúin undir grunnskólann en tíðkaðist fyrr.

Niðurstaðan er þessi: Leikskólinn skilar meginþorra barna miklu betur undirbúnum til grunnskólans, sem jafnframt er miklu lengri í árum talið en fyrr.

Það er hins vegar spurning hvernig við nýtum þetta sóknarfæri, hvort það er nýtt.

Ég tel að þarna séu ókannaðar leiðir.

Ef ég dreg nú saman hin mikilvægu mál framundan og hugsanlega átakapunkta er varða skólamálin þá eru þau hér:


Rammi skólastarfsins.


1) Gjaldfrjáls – en vel mannaður og innihaldsríkur leikskóli sem býr við stöðuleika.
2) Aukið samstarf skólastiga, fjölbreyttara framboð námsefnis og sveigjanlegri námsleiðir fyrir börn á ýmsum þroskastigum frá fimm ára aldri upp í átta, jafnvel þróun á ,,miðskólastigi” – innan þess fjárfestingaramma sem við höfum fylgt (það er: ekki fjöldi nýrra skólabygginga).
3) Grunnskólabyggingar eru framundan og þurfa að halda áfram, Ölduselsskóli, Breiðholtsskóli, viðbygging við Öskjuhlíðarskóla og svo framvegis.
4) Áframhald meðvitaðrar tölvuvæðingar.
5) Átak í skólalóðum samkvæmt þegar mótaðri stefnu um lóðir sem hluta skólalífsins.
6) Frístundaheimilin verði enn þróuð með frekara samstarfi við aðra sem bjóða börnum og unglingum tómstundastarf.


Inntak skólastarfsins:

1) Mannauðsstefna: leikskólar og frístundaheimili fái stöðugra starfsumhverfi með þjálfuðu fólki sem hefur metnað til að halda áfram þroska í starfi.
2) Notendaáhrif: Þegar mótuð stefna um aukið samstarf heimila og skóla með aukinni áherslu á rétt foreldra til upplýsinga, áhrifa og þátttöku verði útfærð nánar, en þegar er unnið samkvæmt þessari áætlun. Þetta er stefna sem hefur að markmiði að fjárfesta í félagsauði þeirra sem standa að skólanum.
3) Nýsköpun og þróunarverkefni fái aukna innspýtingu með fjármagni, hvatningu og miðlun gagna milli skóla, þar með talið í samstarfi við einkarekstur og félagasamtök.
4) Virkari mannauðsstefna gagnvart kennurum grunnskóla með það að markmiði að losa um ýmsar þvingur á skólastarfinu, skapa hvetjandi verkefni utan rútínu, gefnir möguleikar til að eflast í starfi og taka forystu um breytingar.
5) Pólitískt framtak sem hafi að markmiði að umræða og stuðningur við þessa stefnu aukist – notendavitund verði skýrari og kröfur og aðhald aukist neðan frá.
6) Að stéttlaus skóli verði það í reynd. Skólarnir hafa aukið gjaldbæra þjónustu sem er bæði ódýr og góð, svo sem með því að bjóða upp á mat og frístundaheimili. Aðstoð til þeirra sem ekki geta keypt svona þjónustu er í boði og verður að vera skilvirk. Árið 2004 var rúmum 25 milljónum króna veitt í sérstaka fjárhagsaðstoð vegna barna. Alls fengu 477 heimili þessa þjónustu árið 2004 og 289 heimili fyrstu 6 mánuði ársins 2005. Auglýsingar kynna þessa þjónustu og hafa verið hengdar í þjónustumiðstöðvum borgarinnar og verða hengdar upp í félagsmiðstöðvum ÍTR og í öllum grunnskólum borgarinnar. Þarna verðum við jafnaðarmenn að vera á verði.Hinir pólitísku andstæðingar:


-Áhersla d-lista hefur verið á lausnir einkarekstur. Mikið púður fer í einkarekna skóla – en á móti höfum við teflt hugsuninni um almennan hverfisskóla, sem hafi sjálfstæði og geti tekið faglegt frumkvæði með því nauðsynlega aðhaldi sem þarf að efla meðal notenda þjónustunnar. Ég tel að með tvenns konar aðgerðum, fyrst 2003 og nú 2005 hafi rekstur einkaskóla verið tryggður með því að framlög borgarinnar ásamt skólagjöldum færa þeim tekjur sem jafngilda meðalrekstarkostnaði skóla á einstakling í borginni.

-Áhersla d-lista orðræðunnar hefur verið á valfrelsi skóla, við höfum markvisst skilgreint það og skerpt á og sett um það reglur, þannig að foreldrar eiga að geta valið um í hvaða skóla barnið gengur
-Við höfum séð hlut einkareksturs fólginn í því að bjóða sérstakar lausnir innan ramma hins almenna skólakerfis. Gott dæmi eru tónlistarskólar, en önnur dæmi eru augljós þar sem einkarekstur býður margs konar námskeið og ,,skóla utan skóla” fyrir fólk sem vill kaupa umframþjónustu. Sem mikið er um.

-Áhersla d-lista hefur verið á að koma á laggirnar ,,skólahverfum” með minni ,,menntaráðum” fyrir ca 8 grunnskóla hvert, í borginni.

-Við teljum þetta ,,þriðja stjórnsýslustig” ekki þjóna þeim tilgangi að efla notendavaldið þar sem greinilega er mest löngun til að það komi að gagni, það er, í heimaskóla hvers og eins. Millistykki eins og þetta á hverfagrunni þurfi ekki að koma til, nú þegar þjónustumiðstöðvar í hverfum hafa tekið að sér margvíslega þjónustu, og möguleiki skapast til að þær verði skurðpunktur fyrir margs konar samþætta þjónustu er varðar leik- og grunnskóla í hverfum.


Reykjavíkurlistinn hefur unnið stórafrek í menntamálum í borginni, tekið um þau afgerandi forystu og bendi ég á hve ólíkt ríki og borg hafast að: framhaldsskólarnir eru staðnaðir og í kreppu, grunn- og leikskólar blómstra í sókn.

Verkefni okkar er hins vegar alls ekki lokið, eins og ég nefndi, og legg áherlsu á þau tvö hugtök sem ég hef haldið á lofti: mannauður og félagsauður.

Skólamálin hafa verið og verða enn mikilvægur þáttur í stjórnmálastarfi þegar kosningar fara í hönd. Við getum verið hvort tveggja í senn: ánægð með það sem áunnist hefur, og sókndjörf vegna þeirra miklu tækifæra sem bíða.

Til baka
Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is