Monthanarækt


Mynd: GKS

Það varð heldur óheppileg niðurstaða úr fyrsta varpinu hjá mér.  Hlutföll hana og hæna eru algjörlega á móti náttúrulögumálinu, við sátum uppi með fjóra hana og þrjár hænur í hópnum.  Allir sem til þekkja telja þetta mikið óráð og löngu hefði átt að vera búið að höggva haus af svo sem þremur af fjórum.  Málið er að þetta eru ánægjulegir félagar og vinir, Kolbeinn, Flipi, Oddur og Einbjörn slást sjaldan og halda hópinn allan daginn með hænurnar á vappi í kring. 

Í stað þess að koma á legg varphænum hófst markviss monthanarækt - en þar myndi margur maður telja mig á heimavelli.

Í fræðibókum er talið að hænur þoli ekki svona svona mikla umgengni við fjölda hana en þær virðast afslappaðar.  Það verður hins vegar að viðurkennast að fjórir galandi hanar af miklu monti er nokkuð sem ég er ekki viss um að stæðist umhverfismat - ef til kæmi.  Það gengur mikið á þegar hanar í nærliggjandi húsagörðum þurfa að kalla yfir til okkar og fá kvartettinn á móti sér!

Til að létta álagi af hænunum var ákveðið að fjölga þeim og bæta hlutfallið gagnvart hönum. Átta unghænur eru komnar í kofann og eiga að taka við þjónustu við þessa þrjá hana sem eftir eru, því einn var gefinn.  Nágranni okkar var að flytja og þurfti að selja hænur. Patrekur garðyrkjumaður gerðist stórtækur og keypti þrjár, svo við gáfum honum Flipa sem er að okkar mati sístur félagi. Patreki varð á í messunni því hann fór heim með Kolbein sem er uppáhaldshaninn okkar og hafði heima eina nótt. Kolbein er nú búinn að jafna sig eftir eina nótt í úthverfinu. Flipi er að sögn Patreks ánægður með sínar þrjár hænur og einráður, þau búa í eldhúsinu heima hjá honum.

Þetta hefur nú ekki alveg gengið eftir með unghænurnar. Þær voru innihænur og hafa enn ekki þorað út með hinum heldur kúra inni á daginn og gogga í kornið, skíthræddar við stóru hænsin. Vonandi fara þær að braggast í hugrekkinu en hinar hænurnar eru ekkert hressar með þessa viðbót. En eggin streyma úr þeim gömlu og eru ljúffeng.

Það er ekki nóg með þetta. Köttur kom á heimilið sömu helgi, kettlingur sem er álíka huglaus og hænurnar, kúrir sig bak við tölvuprentarann allan daginn.

Reyndar bregður hann sér upp í glugga stöku sinnum. Einn morguninn urðu gríðarleg læti í hænsnahópinum og svo að Petrekur og vörðurinn hlupu til að kanna hvað væri að gerast. Þá stóðu þær undir svefnherbergisglugganum og gerðu hróp að kettinum sem lá í hnipri þar uppi, alveg brjálaðar.

Kisi er enn nafnlaus og fer einkum á stjá á nóttunni, heldur fyrir okkur vöku með látum, eina nóttina hafði hann dregið stóran pappakassa út á mitt gólf, hvernig hann fór að því veit ég ekki. Annars er einhver hlébarði í honum, hann liggur allan daginn í leyni og helst uppi á bókahillu eða borði og lætur lítið á sér bera.  Hann er bæði snar og sterkur.  Snögghærður og langleitur en horaður ennþá. Eitt


Leðurblakan sem hélt til í stofunni var borin út.

Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is