Frttaveitan

Fréttir og greinar um þróunarmál

Fréttir héðan og þaðan um þróunarmál. 
H
eimild sem bent er á: Vefrit Þróunarsamvinnustofnunar.  www.iceida.is

Ísland sker - Norðmenn bæta í

Norðmenn ætla að auka framlög til þróunarsamvinnu um 1,2 milljarða norskra króna milli ára. Á næsta ári verja Norðmenn 27,4 milljarði norskra króna eða um 600 milljörðum íslenskra króna til þróunarsamvinnu. Til samanburðar ætla íslensk stjórnvöld samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs að verja tæpum 3 milljörðum til þróunar- og mannúðarmála eða sem nemur 0,5% af norska framlaginu í krónum talið. Miðað við höfðatölu verja Norðmenn fjórfalt hærri upphæð til málaflokksins en Íslendingar, segir í Veftímariti ÞSSÍ í okt. 2009. 

Framlög til Þróunarsamvinnustofnunar hafa farið úr 22 millj. dala í 11 milljónir frá 2008 til 2009.  Niðurskurður er áframhaldandi á öllum sviðum, líka í samstarfi við alþjóðlegar stofnanir, samkvæmt frétt ÞSSÍ:

"Áhrif niðurskurðar kemur fram í samstarfi gagnvart öllum alþjóðastofnunum og hefur mikil áhrif á störf að friðaruppbyggingu," segir Hermann Örn Ingólfsson sviðsstjóri þróunarsamvinnusviðs utanríkisiráðuneytisins. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2010 nemur heildar niðurskurður framlaga til þróunarmála 19,6%.

"Við áætlanagerð vegna niðurskurðar er í fyrsta lagi horft til þess að íslensk stjórnvöld standi við alla gerða samninga við alþjóðastofnanir og í öðru lagi sé reynt að standa vörð um verkefni á sviðum sem stjórnvöld leggja sérstaka áherslu á," segir Hermann og nefnir sem dæmi að framlög til UNIFEM og UNICEF lækka minna en önnur framlög, eða sem nemur 12-13%. Framlög til jarðhitaskólans og sjávarútvegsskólans lækka hins vegar um 17% samkvæmt frumvarpinu. "Niðurskurðurinn mun fyrst og fremst bitna á námskeiðahaldi skólanna í þróunarríkjum, en fjöldi nemenda í námi á Íslandi mun haldast svipaður og undanfarin ár. Einnig munum við reyna að halda okkar striki með starfsemi landgræðsluskóla og jafnréttisskóla."

Um áhrif niðurskurðar nefnir Hermann t.d. að útsendum sérfræðingum sem starfa að friðaruppbyggingu innan alþjóðastofnana hafi nú þegar fækkað úr tæplega þrjátíu í fjórtán. Hann nefnir ennfremur að framlög til UNDP muni lækka um rúmlega helming á næsta ári, fjárlagaliðir vegna mannúðar og neyðaraðstoðar lækki um þriðjung og ekkert framlag verður til HIPC átaksins um niðurfellingu skulda þróunarríkja. "Það má einnig búast við miklum samdrætti í framlögum til UNFPA, IFAD, til flóttamannamála og til Eyjaverkefnisins svokallaða," segir Hermann.


Enginn nógu góður

Enginn þjóðarleiðtogi í Afríku verðskuldar verðlaun á þessu ári fyrir góða stjórnarhætti, að mati Mo Ibrahim Fountation sem greindi frá því í okt. 2009 að engin slík verðlaun yrðu veitt. Verðlaunin "Ibrahim Prize for Achievement in African Leadership" eru veitt árlega en þó var tekið fram þegar þeim var hleypt af stokkunum að nokkur ár gætu liðið án þess að verðlaunin yrðu veitt. Verðlaunin nema 5 milljónum dala sem greidd eru á tíu árum auk þess sem verðlaunahafinn fær að þeim tíma liðnum 200 þúsund dalil árlega meðan hann lifir.

 Fólksfjölgun, enn mikil en hægir á

Fólksfjölgun í Afríku fer hægt minnkandi samkvæmt tímaritinu The Economist sem rekur um það nokkur dæmi frá Afríku að konur eigi að meðaltali færri börn nú en áður.  Flutningar úr sveitum í borgir er talin ástæða.  Þar má reikna með að börn sem vinnuafl séu ekki jafn mikilvæg og í sveitum, og að konur hafi atvinnutækifæri í borgum sem dragi úr fæðingum.  Eigi að síður eru vandamál vegna fólksfjölgunar gríðarleg.

Einn milljarður manna býr nú í Afríku, að því er fram kemur í nýrri skýrslu. Fólki fjölgar í álfunni um 24 milljónir á ári hverju og íbúar Afríku verða um tveir milljarðar á árinu 2050 haldi fram sem horfi. Fjármálakreppan hefur grafin undan Þúsaldarmarkmiðunum og nú óttast sérfræðingar að fólksfjöldaþróunin geri illt verra. Markmiðinu að fækka um helming þeim sem búa við sárafátækt og hungur fyrir árið 2015 sé stofnað í tvísýnu.

Íbúar jarðar töldust sex milljarðar árið 1999. Aðeins tólf árum síðar, eða á næsta ári, verða íbúar jarðar orðnir sjö milljarðar. Fólksfjölgunin er að heita má öll í þróunarríkjum. Hæst er fæðingartíðnin í Níger en þar eignast konur að meðaltali 7,4 börn. Lægst er fæðingartíðnin á Tævan, eitt barn á hverja konu.

Það er til marks um áhrif fólksfjölgunar á næstu áratugum að íbúar Kanada og Úganda eru í dag álíka margir en árið 2050 verða Úgandabúar orðnir tvöfalt fleiri en Kanadamenn. Í Afríkuríkinu eiga konur að meðaltali 6,7 börn, fimm sinnum fleiri en konur í Kanada.

Ísland rifar seglin

Samstarfsþjóðir Íslendinga eru ekki lengur sex talsins. Þær eru fjórar. Samstarfsþjóðir okkar eru ekki lengur í þremur heimsálfum. Þær eru í einni heimsálfu. Afríku.

Í lok næsta árs fækkar samstarfsþjóðum enn. Þá lýkur tuttugu ára þróunarsamvinnu við Namibíu en í sumar var umdæmisskrifstofum ICEIDA lokað á Srí Lanka og Níkaragva.

En hvernig eru horfur í efnahagsmálum samstarfsþjóða okkar í Afríku? Misjafnar eins og vænta má. Góðu fréttirnar eru þær að Malaví er áfram í mikilli uppsveiflu. Því er spáð að þar sé að gerast fágætt efnahagsundur á árinu 2009 með spám um aukinn hagvöxt, úr 8.4% í 8.7%. Þetta gerist á sama tíma og hagvöxtur í löndunum sunnan Sahara fer samkvæmt spám úr 5% niður í 3,5% á einu ári.

Spár um efnhagshorfurnar í Úganda eru líka þokkalegar og hagvöxtur yfir meðaltali borið saman við nágrannalönd. Hins vegar eru miklir erfiðleikar í Mósambík en þar kom Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn til bjargar með láni fyrir nokkru og eins er þungt fyrir fæti í Namibíu.  (ÞSSÍ).

Árangur í þróunaraðstoð

Börnum sem látast áður en fimm ára aldri er náð hefur fækkað um fjórðung frá árinu 1990, að því er fram kemur í nýjum tölum frá WHO, Alþjóðaheilbrigðis-stofnuninni. WHO vekur jafnframt athygli á nauðsyn þess að ná sambærilegum árangri á örðum sviðum, sérstaklega hvað varðar heilsu mæðra og nýbura.

Í nýrri skýrslu frá WHO, "World Health Statistics" kemur fram að á árinu 2007 hafi 9 milljónir barna látist en 12.5 milljónir árið 1990. Efasemdir eru þó uppi um að þúsaldarmarkmið númer fjögur um að fækka dauðsföllum barna undir fimm ára aldri um tvo þriðju fyrir árið 2015 náist í Afríkuríkjum og öðrum fátækum ríkjum.

Innan við þrjú börn af hverjum þúsund deyja á Íslandi, Finnlandi og Svíþjóð áður en fimm ára aldri er náð. Í Sierra Leone þar sem ástand þessara mála er verst deyja 262 börn af hverjum þúsund - meira en fjórðungur.

Niðurskurður (maí 2009)

Þjóðir með mikinn fjárlagahalla eru þegar farnar að skera niður framlög til þróunarmála, Ítalir um 56%, Írar og Svíar um 10% og Lettar hafa gengið lengst og hætt allri slíkri samvinnu, að því er fram kemur í frétt frönsku fréttastofunnar AFP. Frakkar ætla sjálfir á næstu þremur árum að veita á milli 0,4 til 0,5% til þróunarmála en segjast staðráðnir í því að halda markmiðinu um 0,7% fyrir árið 2015.


Heimskreppan hefur þegar fjölgað sárafátækum um 50 milljónir að mati Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en báðar stofnanirnar hafa hvatt ríkar þjóðir til að halda við gefin fyrirheit um aukin framlög til þróunarmála. Árið 2005 hétu leiðtogar stórveldanna átta að tvöfalda framlög til þróunarmála en vanefndir voru á því á uppsveiflutímunum sem þá fóru í hönd. Hvað gerist þá nú á tímum niðursveiflu, spyrja menn.


Í fréttinni er haft eftir Emmanuel Frot hjá Institue of Transition Economics í Stokkhólmi að framlög til þróunarmála séu "auðveld skotmörk" ríkisstjórna sem þurfa að skera niður útgjöld. Frot rannsakaði á sínum tíma, uppúr 1990, áhrif efnahagslægðar á framlög til þrónarmála og komst að raun um að samdrátturinn var um 13% á ári að meðaltali. Hann skrifaði á dögunum grein í tímaritið Vox um hugsanleg áhrif fjármálakreppunnar á framlög til þróunarmála.

Margs konar álitamál um þróunaraðstoð

Endurskoðun þróunaraðstoðar er eilíft mál eins og sjá má af ýmsum umræðuefnum í vefriti ÞSSÍ sem birtir yfirgripsmikla samantekt

Afríka ekki með á toppfundi


Sameiginlegt átak þjóða þarf til að koma efnahagslífi heimsins aftur á réttan kjöl. Þetta er niðurstaða leiðtogafundar 20 ríkja sem lauk í Washington 16. nóvember 2008.  Þarna voru fulltrúar G20 hópsins svonefnda. Bush Bandaríkjaforseti varaði við því að gripið yrði til verndarstefnu og hafta í aðgerðum gegn heimskreppunni en meðal þess sem rætt er á fundinum var efling Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans.


Leiðtogar 20 ríkja og fulltrúar alþjóðastofnana ræddu á fundinum heimskreppuna og leiðir út úr henni. Eini fulltrúi Afríku á fundinum var Kgalema Motlanthe, forseti Suður-Afríku.

Afríka á krepputímum

Afríka verður sú heimsálfa sem líður mest fyrir fjármálakreppuna að mati Donalds Kaberuka, forseta Þróunarbanka Afríku, en þrjú hundruð ráðherrar Afríkuríkja ræddu fjármálakreppuna í heiminum á fundi í síðustu viku sem haldinn var í Túnis.

Í frétt Reuters segir að kreppan komi á þeim tíma þegar hagkerfi Afríku hafi verið að rétta úr sér en nú neyðist ríkisstjórnir til að fresta eða draga úr verkefnum sem áttu að örva vöxt og draga úr fátækt. Nefnt er að mörg Afríkuríki hafi varið áratugum í aðlögun hagkerfanna til að laða að fjárfesta og bera af sér það óorð að fjárfestingatækifæri í löndunum væru áhættusöm.

Fundurinn var haldinn í nafni Afríska þróunarbankans (AfDB), Afríkusambandsins (AU) og Efnahagsnefndar SÞ um Afríku (ECA).

Þúsaldarmarmiðin langt á eftir áætlun


Fjárframlög þjóða sem veita þróunaraðstoð er stórum minna en þær hafa heitið og samkvæmt nýrri skýrslu vantar 31,4 milljarða dala til að staðið sé við gefin fyrirheit. Meira fé eru forsenda þess að auka líkurnar á því að Þúsaldarmarkmiðunum verði náð. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu.  Delivering on the Global Partnership for Achieving the Millennium Development Goals er heiti skýrslunnar sem unnin var af MDG Gap Task Force nefndinni sem framkvæmdastjóri SÞ setti á laggirnar í fyrra.
Fram kemur í skýrslunni að alþjóðleg þróunaraðstoð (ODA) hafi minnkað tvö undanfarin ár, um 4,7% árið 2006 og 8.4% árið 2007.
Aðeins fimm þjóðir uppfylla samþykkt Sameinuðu þjóðanna um að verja 0,7% af vergum þjóðartekjum til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu en það eru Norðmenn, Svíar, Danir, Lúxemburgarar og Hollendingar. Framlag ríku þjóðanna til þróunarmála er að meðaltali 0,28% eða svipað og núverandi framlag Íslands til málaflokksins.

Einu markmiði náð

Í nýrri skýrslu um stöðu Þúsaldarmarkmiðanna segir að tölur um fátækt í heiminum staðfesti að líklegt sé að fyrsta markmiði þeirra verði náð, þ.e. að fækka fátækum um helming fyrir árið 2015 miðað við árið 1990.
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, varar þó við því í skýrslunni að ávinningur undanfarinna ára í baráttunni við fátækt geti minnkað verulega vegna verðhækkana á matvælum og orku og niðursveiflunnar í alþjóða hagkerfinu.
Skýrslan fjallar um stöðu Þúsaldarmarkmiðanna og heitir: UN Millennium Development Goals Report 2008.

 

Án skilríkja enginn réttur

Talið er að yfir ein milljón malavískra barna sé í vinnuþrælkun samkvæmt nýjustu tölum en tölurnar eru mjög á reiki sökum þess að fæðingarvottorð eru ekki lögboðin í Malaví. Vegna yfirstandandi stjórnmáladeilu í landinu hefur dregist að lögbinda útgáfu fæðingarvottorða og því hafa malavísk börn engin skilríki til að sýna fæðingardag. Þar af leiðandi getur reynst erfitt að segja til um það hver er barn og hver er fullorðinn, eins og fulltrúi Hagstofunnar í Malaví bendir á í frétt á IRIN. Lög frá nýlendutímanum um fæðingar og andlát, frá árinu 1904, eru enn í gildi, en samkvæmt þeim þarf ekki að skrá eða tilkynna til yfirvalda fæðingar eða andlát.

Tæplega 100 milljónir án skólagöngu

Samkvæmt Þúsaldarmarkmiðunum sem leiðtogar 189 ríkisstjórna skrifuðu undir árið 2000 á að tryggja öllum börnum grunnskólamenntun fyrir árið 2015. Enn er langt í land með að ná því markmiði þótt margt hafi áunnist á síðustu árum.

Samkvæmt nýjustu tölfræði um skólagöngu barna á grunnskólaaldri eru 72 milljónir barna utan skóla. Góðu fréttirnar eru þær að árið 1999 var þessi tala í 96 milljónum en slæmu fréttirnar þær að enn er níunda hvert grunnskólabarn án formlegrar menntunar.

Á árunum 1999 til 2005 fjölgaði börnum í grunnskólum úr 647 milljónum í 688 milljónir. Í sumum héruðum landa eins og í Mósambík eru fleiri en hundrað nemendur á hvern kennara og framreiknað til 2015 þarf að finna 18 milljónir nýrra kennara til að halda í við fjölgun nemenda. Á sama tíma hefur alþjóðlegur stuðningur við menntun barna farið minnkandi, var 4.4 milljarðar dala 2004 en var kominn niður fyrir 3 milljarða 2005.

Skólar skila árangri

“Þegar sést svart á hvítu að árangurinn af starfi okkar er að skila sér getur maður ekki verið annað en ánægður,” segir Stella Samúelsdóttir verkefnisstjóri Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í félagslegum verkefnum í Malaví. Staðfest er í nýrri skýrslu frá héraðsyfirvöldum í Mangochi að sú menntastefna sem ÞSSÍ og yfirmenn sveitarfélagsins í Monkey Bay hafa rekið skilar sér í betri menntun, aukinni skólasókn og fleiri kennurum en á öðrum svæðum í héraðinu.

“Samstarfsmenn okkar segja að þessi góði árangur í skólum sem Þróunarsamvinnustofnun hefur byggt sé tilkominn vegna þess að við skilum skólunum fullbúnum,” segir Stella.
Sjá nánar.

Börn gefin

Á lista yfir þau tuttugu lönd þar sem flest börn ganga í hjónaband - eða eru neydd til þess - eru fjögur samstarfslönd okkar Íslendinga, Mósambík, Úganda, Malaví og Níkaragva. Í langflestum tilvikum er um stúlkur að ræða. Þótt dregið hafi úr þessum plagsið á heimsvísu á síðustu þrjátíu árum er hann enn algengur í sveitahéruðum meðal fátækasta fólksins.

Meira en helmingur stúlkna yngri en átján ára í ellefu löndum er kominn í hnapphelduna fyrir átján ára aldur, flestar stúlkur hlutfallslega í Níger, 76.6%. Í Mósambík og Úganda hafa um 55% stúlkna gift sig átján ára eða yngri.

Afríkubörn verst stödd

Stór hluti þeirra 2.2 milljarða barna í heiminum, sem býr við sult og seyru, er í Afríku, segir í frétt frá Sameinuðu þjóðunum um stöðu barna. Þar kemur fram að ástandið í mörgum Afríkulöndum sé börnum átakanlega erfitt, mörg verði fórnarlömb ofbeldis, kynferðisglæpa, barnaþrælkunar og læknanlegra sjúkdóma.
Nefnt er að tíu af ellefu þjóðum, þar sem fimmtungur eða hærra hlutfall barna deyr innan við fimm ára aldur, sé í Afríku. Eina landið utan álfunnar í þessum hópi ríkja sé Afganistan. Börnum með HIV/Aids fjölgaði um milljarð á árunum 2001 til 2007, úr 1,5 milljónum barna í 2.5 milljónir. Hartnær níu af hverjum tíu börnum sem bera sjúkdóminn eru í löndunum sunnan Sahara.
Ljósi punkturinn sem dreginn er fram í fréttinni um stöðu barna er sá að börnum sem þvinguð eru til hermennsku hefur fækkað úr 300 þúsund í 250 þúsund. Endalok borgarstyrjaldanna í Líberíu og Síerra Leone er sögð helsta ástæðan.

Reistu fjórar skólastofur í Mósambík

"Þrjár ungar konur frá Akureyri söfnuðu tæplega fjórum miljónum króna sem var varið í byggingu á fjórum nýjum skólastofum í skóla í Mósambík," sagði í frétt RUV á dögunum.
Þar sagði ennfremur: "Þær Margrét og Marta Einarsdætur ásamt Guðrúnu Blöndal stóðu fyrir söfnuninni "Gerum eitthvað gott, gerum það saman" sumarið 2006 og 2007. Þær leituðu til Akureyringa og söfnuðu munum sem þær seldu á útimarkaði á Akureyri og rann ágóðinn til byggingar á 4 skólastofum í skóla í Mósambík.
Marta Einarsdóttir starfsmaður Þróunarsamvinnustofnunar Íslands var viðstödd opnunina. "Þetta var alveg frábært. Ég var alltaf að óska þess að fólkið sem lagði þarna hönd á plóg gæti verið þarna og séð þetta því það er svo erfitt að lýsa svona stemningu. Það voru allir svo glaðir og ánægðir."

Árangur alþjóðlegrar þróunarsamvinnu:

Tíu góðar ástæður til að gleðjast.

Breska þróunarstofnunin UK Aid og frjálsu félagasamtökin Oxfam hafa birt topp tíu lista yfir góðar fréttir um árangur af alþjóðlegri þróunarsamvinnu á síðustu árum. Góðu fréttirnar sýna að á ýmsum sviðum hafa sigrar unnist sem full ástæða er til að halda á lofti.
1. Börnum fjölgar í skólum, utanskóla voru 120 milljónir árið 2000 en á síðasta ári var þessi tala komin í 72 milljónir.
2. Hagvöxtur yfir 5% mældist fjórða árið í röð í löndum Afríku sunnan Sahara og verðbólga var undir 10%. Tekjur á mann hafa ekki aukist til jafns á við hagvöxtinn en eru þó að stöðugt yfir 4% á ári.
3. Hagvöxtur í þróunarríkjum og löndum sem áður tilheyrðu gömlu Sovétríkjunum var 8.1%.
4. Aflétting skulda þróunarríkja hefur leitt til þess að meiri fjármunum hefur verið varið til útrýmingar fátæktar um heim allan. Í þeim löndum þar sem skuldir hafa verið afskrifaðar hefur fjármagn í baráttuna gegn fátækt tvöfaldast.
5. Alheimssjóðurinn (Global Fund) sem iðnríkin átta komu á fót árið 2000 til að fjármagna baráttuna gegn alnæmi, berklum og malaríu, hefur lagt 8.6 milljarða dollara í verkefnið til 136 landa. Rúmlega ein milljón manna eru í lyfjameðferð vegna HIV/Aids.
6. Rúmlega 130 þúsund manns í Malaví fá nú lyfjameðferð við HIV/AIDS en nánast engir fengu slíka meðferð fyrir fimm árum. Þökk sé Global Fund.
7. Alheimssjóðurinn hefur líka dreift 30 milljónum af malaríunetum en þau eru talin geta bjargað 210 þúsund börnum frá dauða.
8. Börn sem létust fyrir fimm ára aldur voru í fyrsta sinn árið 2007 færri en 10 milljónir. 11 milljónir barna létust árið 2006 en 9.7 milljónir í fyrra.
9. Ríkisstjórn Bretlands samþykkti tímaáætlun um að auka framlög til þróunarmála upp í 0.7% af vergum þjóðartekjum með það að markmiði að verða stærra framlagsland en Bandaríkin árið 2010. Í Þýskalandi ákvað ríkisstjórnin að auka framlög til þróunarmála upp í 750 milljónir evra árið 2008.
10. Stjórnvöld á Indlandi hafa aukið framlög til heilbrigðismála um 33%.

Greinin í Developments

Goðsögnin um yfirburði frjálsra félagasamtaka


Nýjar rannsóknir leiða í ljós að frjáls félagasamtök frá gjafaríkjum veita ekki betri, markvissari eða árangursríkari aðstoð en þróunarsamvinnustofnanir á vegum hins opinbera. Í grein Peters Nunnenkamp í þýska tímaritinu D+C er fjallað um goðsögnina um yfirburði frjálsra félagasamtaka. Hann segir að rannsóknir sýni til dæmis að alhæfingin um að frjáls félagasamtök vinni fyrst og fremst með fátækasta fólkinu sé ekki á rökum reist.

Peter bendir á að nákvæmar upplýsingar um starfsemi frjálsra félagasamtaka séu í skötulíki enda starfi slík samtök sjaldnast með fræðimönnum. Tvær nýlegar rannsóknir hafi þó verið gerðar, í Sviss og Svíþjóð, og þeim eru gerð skil í greininni auk þess sem starfsemi 60 frjálsra félagasamtaka innan OECD er könnuð.

Stjórnvöld framlagslanda veita miklu fjármagni til þróunarmála gegnum frjáls félagasamtök, allt að fimmtungi, að því er fram kemur í greininni. Hvort það sé töfralausn til að auka skilvirkni og árangur í þróunarsamvinnu er höfundurinn hins vegar í miklum vafa um.


Nánar á D+C

Aukin framlög til fátækustu þjóðanna

Árleg skýrsla OECD um þróunarsamvinnu, Development Co-operation Report 2007, er helguð skilvirkni í þróunarsamvinnu sem byggir á tólf mælikvörðum árangurs sem Richard Manning, fyrrverandi yfirmaður DAC, innleiddi árið 2003. Samkvæmt "skorkortinu" kemur í ljós að vel hefur tekist til með margt en annað þarf að bæta, ekki síst að hækka opinber framlög (ODA). Meðal þess jákvæða sem skýrslan leiðir í ljós er að framlög til fátækustu þjóðanna hafa aukist umtalsvert á síðustu þremur árum, tvíhliða framlagið úr 40% í 46% og marghliða framlagið úr 47% í 49%.

Meira hér

Gegn banni

Finnsk stjórnvöld hafa hvatt ríkisstjórn Níkaragva til að aflétta banni við fóstureyðingum og láta að því liggja að sextán milljóna dollara framlag Finna til þróunarsamvinnu í Níkaragva verði háð því hvort fóstureyðingar verði heimilaðar með lögum eða ekki. Paavo Väyrynen, einn af ráðherrum í finnsku ríkisstjórninni var á dögunum í Níkaragva til að "meta" ástandið í landinu. Hann fór ekkert dult með skoðun sína: Lögleiðið fóstureyðingar!
Svíar hættu þróunarsamvinnu við Níkaragva fyrir skömmu, að flestra mati í ljósi þess að bann við fóstureyðingum var lögfest í landinu, þótt sú skýring væri ekki gefin opinberlega.

Nánar á www.Lifesitenews  

Fiskur fyrir blíðu - viðskipti eða vændi í fiskimannasamfélögum í Afríku?

Smábátaútgerð og sala á fiski hefur löngum verið öryggisnet fátækasta fólksins í strjálbýlum héruðum þróunarríkja. Á síðustu árum hefur verið vakin athygli á "nýju" fyrirbæri tengdu fiskimannafélögum, viðskiptum sem nefnd hafa verið "fiskur-fyrir-blíðu" (fish-for-sex). Hugtakið vísar til sérstaks "samkomulags" milli fisksölukvenna og fiskimanna þar sem konan tryggir sér fisk gegn því að hafa kynferðislegt samneyti við fiskimanninn. Þannig sér hún fjölskyldunni farborða en á það líka á hættu að vera litin hornauga í samfélaginu fyrir vændi. Þá eru tengsl þessa viðskiptamáta við útbreiðslu HIV/AIDS augljós. Samkvæmt fræðigrein í tímaritinu World Development er fiskur-fyrir-blíðu útbreitt fyrirbæri við Viktoríuvatn og Malavívatn, vötnum þar sem Þróunarsamvinnustofnun hefur unnið með fiskimannasamfélögum um árabil.

Nánar: Nánar á
www.ScienceDirect 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Iðnríkin heita að tvöfalda framlög til Afríku fram til 2010
Helstu iðnríki heims staðfestu á fundi þróunarmálaráðherra ríkjanna að standa við gefin fyrirheit um að tvöfalda framlög til Afríku fram til ársins 2015. Upphaflega hétu iðnríkin, G8 hópurinn, auknum fjárframlögum til þróunarmála í Afríku á fundi árið 2005 en samkvæmt skýrslu frá OECD, Efnahags- og framfarastofnuninni, sem kom út á föstudaginn var dró úr framlögum ríkustu þjóða heims til þróunarmála um 8.4% á árinu 2007. Framlög Japana lækkuðu til dæmis um 30% milli ára.
Sjá nánar:
http://www.earthtimes.org/articles/show/197061,g8-development-ministers-pledge-to-increase-foreign-aid--summary.html  

Frá fátækt til ríkidæmis – grein Þorvaldar Gylfason í dagblaði í Úganda

Dagblaðið New Vision birti í blaðinu á dögunum grein undir heitinu “Iceland rags-to-riches story is good for Africa” en um er að ræða grein eftir Þorvald Gylfason prófessor um upprisu Íslendinga úr fátækt til ríkidæmis. Greinin birtist áður í Vox tímaritinu undir heitinu “When Iceland was Ghana”.

Sjá nánar:
http://www.newvision.co.ug/D/8/20/620020  


Aðeins fimm lönd verja 0,7% til alþjóðlegra þróunarmála

Norðmenn, Svíar, Lúxemburg, Danmörk og Holland eru einu ríkin í heiminum sem uppfylla markmið Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1970 um 0,7% framlög ríkja til opinberrar alþjóðlegrar þróunarsamvinnu af vergum þjóðartekjum.
Að meðaltali verja ríki innan DAC (þróunarsamvinnunefndar OECD) 0,45% af vergum þjóðartekjum til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu.

Sjá nánar:

http://english.people.com.cn/90001/90777/90853/6387740.html  


Angóla fær þróunaraðstoð frá Namibíu

Ríkisstjórn Namibíu hefur áveðið að veita að minnsta kosti 997 þúsund Bandaríkjadölum til að byggja grunnskóla með tilheyrandi búnaði í borginni Lubango, sem er héraðshöfuðborg Huila í sunnanverðri Angólu. Í skólanum verða sex kennslustofur, tvö íbúðarhús og skrifstofa skólastjóra. Á skólalóðinni er gert ráð fyrir að 420 börn geti verið þar samtímis en skólinn verður tvísetinn.

http://allafrica.com/stories/200804070606.html  

Úr sjónvarpi:

Frétt um ljósmyndasýninguna "Heimsljós - portrettmyndir frá þróunarlöndum" í Sjónvarpinu sunnudaginn 6. apríl:
http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4397888/21  

Úr útvarpi:

Viðtal við Stefán Jón Hafstein í morgunútvarpi Rásar 2 7apríl 2008:
http://dagskra.ruv.is/streaming/ras2/?file=4368198  

Viðtal við Gunnar Salvarsson í Helgarútgáfunni á Rás 2 sunnudag 6. apríl 2008. (um kl. 11:30)
http://dagskra.ruv.is/streaming/ras2/?file=4378602  

Stefn Jn Hafstein - stefanjon@islandia.is