Í mat með ljónum

Það er mikið ævintýri að setjast ,,til borðs" með ljónum.  Við vorum svona tíu manna hópur sem fór í kvöldmyrkrinu inn á lokað svæði, gengum álút inn í lítið jarðhýsi með bekkjum innan við þrönga sjónrauf sem varin var með rimlum.  Dauf skíma lýsti upp væna síðu af nauti.  Allir þögðu.  Beðið var eftir að aðalleikarinn kæmi inn á sviðið.  Við bjuggumst við honum utan úr myrkrinu.  En hann vippaði sér allt í einu fyrir hornið á hýsinu og stóð innan seilingar!  Ljósgulur skrokkur á stærð við hest, fæturnir lægri en loppurnar þungar og voldugar, makkinn rauður og augun pírð.  Þetta var lífsreyndur feldur sem lagaði sig að vöðvastæltum skrokki.  Lyktin fyllti vit okkar, þung lykt af hárum, afrískri mold og einhverju sem maður vissi ekki hvað var.  Kounungur dýranna settist að snæðingi og við þorðum varla að draga andann.  Hann var rétt utan við seilingarfjarlægð og þegar hrjúf tungan sleikti beinin mátti heyra eins og sandpappír væri dreginn yfir fjöl...  Myndirnar eru teknar í kvöldhúminu svo það rétt grillir í dýrin, en samt, gjörið svo vel og sláist í hópinn...(opna myndskeið).

Stefán Jón Hafstein - stefanjon@islandia.is